Umfjöllun um hátækni í nýju vinnsluhúsi Samherja

Í nýju sjónvarpsinnslagi er fjallað á stuttan en greinargóðan hátt um nýtt vinnsluhús Samherja á Dalvík og þann hátæknibúnað sem notaður er í húsinu.  

Innslagið var unnið af sjónvarpsstöðinni N4 að beiðni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og byggir það á lengri þætti um vinnsluhúsið sem sýndur var á N4 skömmu eftir að vinnsla hófst í húsinu hinn 14. ágúst síðastliðinn. Nýtt vinnsluhús Samherja á Dalvík er eitt fullkomnasta vinnsluhús í heiminum í bolfiskvinnslu. Er vinnsluhúsið raunar það eina sinnar tegundar vegna þeirrar tækni og þess búnaðar sem er í því.

Búnaðurinn í húsinu var þróaður af íslenskum hátæknifyrirtækjum í samstarfi við Samherja. Í myndbandinu er meðal annars rætt við Helga Hjálmarsson, framkvæmdastjóra Völku, sem hannaði vinnslulínur í húsinu. Á næstu árum munu erlendir aðilar heimsækja húsið til að skoða búnaðinn með mögulega fjárfestingu í huga. „Allir þeir sem eru að fara að huga að endurnýjun á hvítfiskvinnslu í heiminum þeir munu horfa til þessarar vinnslu þegar þeir taka ákvörðun um sínar fjárfestingar,“ segir Helgi Hjálmarsson í viðtali.

Í húsinu eru, auk vinnslulína frá Völku, flökunarvélar frá Vélfagi, hausarar frá Baader Ísland, lausfrystar frá Frost, stöflunarróbótar og róbót sem losar kör frá Samey. Að auki er búnaður frá Skaganum 3X, Marel, Raftákn, Slippnum og fleiri íslenskum fyrirtækjum.

 „Íslendingar eru mjög framarlega, eða fremstir, í sjávarútvegi og tækni tengdum honum. Það var á endanum sjálfgefið að þetta yrði að uppistöðu til íslenskt hugvit og íslensk fyrirtæki sem við ynnum þetta með. Þetta hús á eftir að verða auglýsing fyrir þessi fyrirtæki næstu árin,“ segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja.

Fram kemur í innslaginu að nýja vinnsluhúsið geri Samherja kleift að þjónusta viðskiptavini sína mun betur en hefur verið mögulegt til þessa enda býður búnaðurinn upp á fjölbreyttari vinnslumöguleika hvítfisks en hefur þekkst hingað til hjá Samherja. Þá tekur meðhöndlunin á hráefninu stakkaskiptum með nýjungum í framleiðsluferlinu. 

Hægt er að horfa á innslagið um nýtt vinnsluhús Samherja á Dalvík hér.