Umtalsverðar fjárhæðir til ríkissjóðs Namibíu

Félög tengd Samherja greiddu samtals jafnvirði um 6,5 milljarða króna til ríkissjóðs Namibíu á meðan þau voru í rekstri. Er þar annars vegar um að ræða heildarskattgreiðslur og hins vegar sértæka skatta til ríkissjóðs Namibíu fyrir nýtingu aflaheimilda. Þess fyrir utan greiddu félög tengd Samherja alls 12 milljarða króna fyrir aflaheimildirnar sjálfar og rann stór hluti þeirrar fjárhæðar til stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins.

Í síðustu viku greindi Samherji frá því að rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á starfsemi Samherja í Namibíu væri lokið. Var þar tekið fram að Samherji myndi á næstunni gera frekari grein fyrir einstökum ásökunum sem bornar hafa verið á félagið og starfsfólk þess.

Eitt af því sem félög tengd Samherja hafa verið sökuð um er að þau hafi reynt að komast hjá skattgreiðslum í Namibíu eða ekki greitt þá skatta sem þeim bar að greiða. Slíkt gengur alvarlega í berhögg við þá stefnu sem fyrirtækið vinnur eftir enda hefur ætíð verið lögð áhersla á það innan Samherja að félög í samstæðunni virði allar skuldbindingar sínar vegna launa, skatta og gjalda.

Vegna framangreindra ásakana lét Samherji taka saman hvað félögin í Namibíu greiddu í skatta til ríkissjóðs Namibíu á meðan þau voru í rekstri á árunum 2012-2019. Heildarskattar sem félög tengd Samherja í Namibíu greiddu í gegnum árin, þar með talið tekjuskattur, launatengdir skattar, útflutningsgjöld, innflutningsgjöld, og fjöldi annarra opinberra gjalda til ríkissjóðs Namibíu, voru samtals að jafnvirði um fjögurra milljarða króna. Þar vega þyngst tekjuskattur og launatengdir skattar en þessir tveir liðir eru 66% af heildarskattgreiðslum tímabilsins.

Samherji lét einnig taka saman hvað félögin í Namibíu greiddu namibíska ríkinu fyrir nýtingu aflaheimilda á sama tímabili. Því skal haldið til haga að félögin fengu ekki úthlutað aflaheimildum heldur keyptu og leigðu þær af öðrum og greiddu svo sérstök gjöld til ríkisins fyrir nýtingu þeirra. Þessir sértæku skattar námu samtals 2,5 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Þessir tveir liðir, heildarskattgreiðslur og sérstök gjöld vegna nýtingar aflaheimilda, eru því samtals um 6,5 milljarðar króna. Séu greiðslur vegna kaupa og leigu aflaheimilda teknar með verður fjárhæð fyrir aflaheimildir umtalsvert hærri eða samtals um 12 milljarðar króna sem var 29,3% af samanlagðri heildarveltu félaganna í Namibíu. Stór hluti þeirrar fjárhæðar rann til stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins.  

Eins og áður hefur verið greint frá greiddu félög tengd Samherja alls jafnvirði 21,4 milljarða króna til namibískra aðila á tímabilinu 2012-2018. Byggja þær upplýsingar á samanteknum reikningsskilum fyrirtækja Samherja í Namibíu en tölur fyrir árið 2019 liggja ekki fyrir. Stjórnendur Samherja binda vonir við að birting þessara upplýsinga, um greiðslur til namibískra aðila og ríkissjóðs Namibíu, verði til þess að umfjöllun um reksturinn í Namibíu byggi á staðreyndum hér eftir.

„Mikilvægt er að fram komi að skattgreiðslurnar, sem og aðrar greiðslur sem runnu til namibískra aðila á tímabilinu, sýna að ekki er grundvöllur fyrir fullyrðingum um arðrán í Namibíu en slíkar ásakanir voru mjög þungbærar fyrir okkur,” segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja.

Félög tengd Samherja hættu starfsemi í Namibíu á árinu 2019. Á næstu vikum mun Samherji birta frekari upplýsingar um reksturinn.

Frekari upplýsingar veitir:
Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is