Uppspuni í Ríkisútvarpinu

Í morgun fullyrti Helgi Seljan í morgunútvarpi Rásar 2 að yfir „þúsund störf“ hefðu tapast í Walvis Bay í namibískum sjávarútvegi vegna Samherja. Engar frekari skýringar fylgdu þessari fullyrðingu Helga. Það kemur kannski ekki á óvart því um gróf ósannindi er að ræða.

Namibískur sjávarútvegur er fjölbreyttur og eru margar ólíkar tegundir veiddar við strendur landsins. Félög tengd Samherja hafa einungis tekið þátt í uppsjávarveiðum í namibísku efnahagslögsögunni og er þar aðallega um að ræða veiðar á hestamakríl.

Árið 2011 var úthlutunarreglum breytt á uppsjávartegundum í Namibíu. Ákveðið var að færa um 25% af aflaheimildum í uppsjávarfiski í hendur namibískra félaga og einstaklinga, aðallega frá fyrirtækjum í Suður-Afríku sem höfðu haft heimildirnar. Eftir úthlutun aflaheimilda leituðu ákveðnir aðilar í namibískum sjávarútvegi eftir samstarfi við félag tengt Samherja um veiðar á þeim aflaheimildum sem þeir höfðu yfir á að ráða. Önnur namibísk félög, sem fengu úthlutað aflaheimildum, sömdu við útgerðarfélög frá Kína, Hollandi og Rússlandi.

Alls voru 95% af veiddum afla í uppsjávarfiski fryst úti á sjó. Engin breyting varð á þessu milli áranna 2011 og 2012. Það má því segja að fjöldi starfa í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski í  namibískum sjávarútvegi hafi haldist óbreyttur þótt störfin hafi flust á milli fyrirtækja og skipa eftir að breytingar urðu á úthlutun heimilda. Það er því ljóst að sú fullyrðing að „þúsund störf“ hafi tapast í namibískum sjávarútvegi vegna innkomu félags sem tengist Samherja, er þvættingur.  

Hlutfall Namibíumanna í áhöfnum þeirra skipa sem félög tengd Samherja hafa gert út í namibísku efnahagslögsögunni hefur fjölgað jafnt og þétt og er í dag um 60%. Sem dæmi voru hundrað manns í áhöfn Heinaste. Af þessum hundrað voru að jafnaði fjórir áhafnarmeðlimir með íslenskt ríkisfang en aðrir í áhöfninni frá Namibíu og Austur-Evrópu. 

Að framansögðu virtu er ljóst að Helgi Seljan sagði ósatt í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og eru ummæli hans eingöngu til þess fallin að valda Samherja tjóni. Ummælin sýna kannski best hversu frjálslega fréttamenn Ríkisútvarpsins fara með staðreyndir.