Helgi Seljan fundinn sekur um alvarlegt brot vegna skrifa um Samherja

Siðanefnd Ríkisútvarpsins telur að fréttamaðurinn Helgi Seljan hafi brotið siðareglur RÚV með ummælum sínum um Samherja. Telur nefndin að ýmis ummæli hans sem höfðu að geyma „skýra og persónulega afstöðu“ um málefni Samherja feli í sér „alvarlegt brot“ gegn siðareglunum. Þetta er niðurstaða úrskurðar siðanefndarinnar sem kveðinn var upp í dag.

Samherji lagði fram kæru hjá siðanefndinni hinn 31. ágúst á síðasta ári vegna ýmissa ummæla Helga Seljan og tíu annarra starfsmanna RÚV. Samherji taldi að starfsmennirnir hefðu brotið ákvæði í siðareglum RÚV sem leggur bann við því að starfsfólk, sem sinnir fréttum og dagskrárgerð, taki opinberlega afstöðu um umdeild eða pólitísk mál á samfélagsmiðlum. Þessu ákvæði er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og tryggja hlutleysi fréttamanna og fréttastofu RÚV.

Siðanefnd Ríkisútvarpsins kemst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum að með ýmsum ummælum um Samherja á Facebook og Twitter yfir tæplega eins árs tímabil hafi Helgi Seljan „gerst hlutdrægur“ og „gengið lengra“ en svigrúm hans sem fréttamaður leyfir. Í úrskurðinum segir: „Því er það mat siðanefndarinnar að í ofangreindum ummælum felist skýr og persónuleg afstaða í málefni kæranda sem 4. mgr. 3. gr. siðareglnanna er ætlað að taka til, og því um að ræða brot á greininni.“

Kemst siðanefndin að þeirri niðurstöðu að brot Helga Seljan sé alvarlegt á mælikvarða starfsreglna siðanefndarinnar. „Hér er um að ræða ítrekuð tilvik yfir langan tíma. Í því ljósi telur siðanefndin að brot Helga sé alvarlegt,“ segir í úrskurðinum.

Hvað varðar aðra starfsmenn RÚV lítur siðanefndin framhjá skýlausu ákvæði siðareglnanna um bann við því að taka afstöðu í umdeildu máli, jafnvel þótt ummæli hafi orkað tvímælis og kunnað að tefla hlutleysi í tvísýnu. Gerir siðanefndin ákvæðið í reynd marklaust nema gengið hafi verið langt út fyrir öll siðferðismörk, eins og var raunin í tilviki Helga Seljan.

Í þessu máli var Ríkisútvarpið dómari í eigin sök því tveir af þremur nefndarmönnum siðanefndarinnar eru skipaðir í Efstaleiti. Formaðurinn er skipaður af útvarpsstjóra og Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins skipa einn nefndarmann. Má nærri geta hversu hlutlaus niðurstaða slíkrar nefndar kann að vera. Engu að síður kemst nefndin að afdráttarlausri niðurstöðu um „alvarlegt brot“ Helga.

Helgi Seljan hefur ítrekað viðhaft ámælisverð og óheiðarleg vinnubrögð í tengslum við umfjöllun um Samherja í miðlum Ríkisútvarpsins undanfarinn áratug. Hefur fréttamaðurinn orðið uppvís að því að hagræða gögnum, slíta upplýsingar úr samhengi og laga fréttaflutning að eigin geðþótta. Í ljósi niðurstöðu siðanefndar RÚV í dag mun Samherji krefjast þess að hann fjalli ekki frekar um málefni fyrirtækisins á vettvangi Ríkisútvarpsins og vinni ekki að slíkri umfjöllun í samstarfi við aðra. Þá verður gerð sú krafa að Ríkisútvarpið áminni hann fyrir brot í starfi.

Úrskurð siðanefndar RÚV má nálgast hér