Vegna endurvinnslu RÚV á fimm ára gömlu efni

Ríkisútvarpið endurflutti á mánudag fimm ára gamla umfjöllun úr öðrum miðli, þar sem gerð var ómakleg tilraun til að bendla Samherja við fund sem átti sér stað fyrir þrettán árum.

Í útvarpsþættinum Þetta helst, sem fluttur var í Ríkisútvarpinu á mánudag, var fjallað um upplifun fyrrverandi lögreglumanns, sem hafði starfað fyrir gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands, af fundi sem hann sat haustið 2012.

Fundurinn er sagður hafa átt sér stað um hálfu ári eftir að viðkomandi lét af störfum hjá gjaldeyriseftirlitinu. Lögreglumaðurinn fyrrverandi er í fréttinni sagður „rannsakandi“ í svokölluðu Seðlabankamáli, þrátt fyrir að hafa látið af störfum skömmu eftir að Seðlabankamálið hófst árið 2012. Vart þarf að rifja upp að því máli lauk á árinu 2018 með fullnaðarsigri Samherja fyrir dómstólum.

Gamalt vín á nýjum belgjum

Fjallað var um framangreint mál í Stundinni, nú Heimildinni, á árinu 2020 í grein eftir sama fréttamann og var umsjónarmaður þáttarins á mánudag. Því var Ríkisútvarpið í reynd að endurflytja fimm ára gamla frétt í þættinum þótt umfjöllunin hafi verið klædd í þann búning að um væri að ræða nýjar og áður óbirtar upplýsingar.

Í vefútgáfu var síðan reynt að tengja Samherja við það mál sem var til umfjöllunar með óeðlilegum hætti. Fyrirsagnir og myndskreytingar gengu út á að blekkja, afvegaleiða og valda fólki skaða, fremur en að upplýsa lesendur. Er þetta enn einn dapurlegur vitnisburður um þau óvönduðu vinnubrögð sem fá að þrífast í Efstaleiti á vakt núverandi útvarpsstjóra.

Skriflegar spurningar bárust Samherja frá umsjónarmanni þáttarins sama dag og þátturinn var fluttur. Væntanlega var þátturinn svo að segja fullunninn á þeim tímapunkti. Þetta vinnulag umsjónarmannsins er þekkt.

Á miðvikudag hélt sami fréttamaður Ríkisútvarpsins áfram að vitna í fimm ára gamlar umfjallanir úr eigin smiðju, þar sem dylgjur í garð Samherja héldu áfram. Í frétt miðvikudagsins er sérstaklega tekið fram að engin skrifleg gögn úr gagnaleka frá embætti héraðssaksóknara liggi til grundvallar fréttinni. Heldur vísar blaðamaðurinn í gamlar fréttir og segir að „ljósi hafi verið varpað á gamla ráðgátu um Samherja.“ Þó er engar nýjar upplýsingar að finna í frétt miðvikudagsins. Aftur er eingöngu um endurvinnslu á gömlu efni að ræða. Umfjöllunin frá 2020 byggði á veikum grunni og hún gerir það ennþá árið 2025.

Persónuleg andúð ræður för

Engum dylst andúð blaðamannsins sem um ræðir á félaginu og starfsfólki þess. Úr því sem komið er eru engar líkur á að nokkur breyting verði þar á. Blaðamaðurinn hefur skrifað hundruð greina um félagið á undanförnum árum þar sem markmiðið er jafnan að tortryggja Samherja og starfsfólk fyrirtækisins. Þrátt fyrir að blaðamenn lúti ekki formlegum hæfisreglum, er vert að spyrja hvort ákveðnir blaðamenn séu hreinlega hæfir til að fjalla um málefni félagsins?

Samherji gerir ekki þá kröfu að félagið sé stikkfrí undan gagnrýninni umfjöllun fjölmiðla. Þvert á móti. Hins vegar verður að gera kröfu um umræða sé málefnaleg. Að hlutlæg sannindi ráði för fremur en persónulegt hatur.

Þeir sem fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins hljóta að spyrja sig hvort útvarp allra landsmanna sé orðið að endurvinnslustöð fyrir dagblað á jaðri íslenskrar fjölmiðlunar?