Veiddu fullfermi af kolmunna eftir átta sólarhringa bið á miðunum

Guðlaugur Björn Birgisson náði meðfylgjandi mynd af Margreti EA á siglingu inn Norðfjörð til lönduna…
Guðlaugur Björn Birgisson náði meðfylgjandi mynd af Margreti EA á siglingu inn Norðfjörð til löndunar sl. mánudag.

Margret EA 710, uppsjávarskip Samherja, sigldi inn Norðfjörð á mánudag til löndunar á 2.000 tonnum af kolmunna sem veiddust syðst í efnahagslögsögu Færeyja. Þetta var óvenjulegur túr því áhöfn Margretar þurfti að bíða í átta sólarhringa úti á sjó áður en veiðar hófust.

Margret EA 710 lagði úr höfn frá Akureyri hinn 6. apríl. Eftir stutta viðkomu í Færeyjum var siglt á veiðislóð. Sökum þess að aflaútlit var dapurlegt og vegna takmörkunar á fjölda íslenskra skipa syðst í lögsögu Færeyja var látið reka í átta sólarhringa þar til útlit var á veiði. Svona löng bið úti á sjó er líklega einsdæmi á þessum slóðum. Áhöfn Margretar EA hóf svo að lokum veiðar hinn 16. apríl og það tók um tvo sólarhringa að fá í bátinn.

Gudmundur_Jonsson_skipstjoriCovid-19 heimsfaraldurinn skipti hér lykilmáli en svona löng bið úti á sjó er ein birtingarmynd þess að óvenjulegir tímar kalla á óvenjulegar lausnir. Öll áhöfnin hafði verið skimuð fyrir brottför skipsins úr höfn á Íslandi og því var ekki talið fýsilegt að sigla heim og reyna aftur síðar. „Það fór vel um okkur alla. Við bara biðum og vorum í fínni sóttkví um borð. Það var enginn skortur á afþreyingu til að stytta mönnum stundirnar,“ segir Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri á Margreti EA. 

Margret EA 710 er uppsjávarskip með níu manna áhöfn. Skipið var smíðað í Flekkefjord í Noregi árið 1996 en skipið var lengt árið 2009. Mesta lengd skipsins er 73 metrar og breiddin er um 13 metrar. Samherji festi kaup á skipinu árið 2015.