Viðbrögð Ríkisútvarpsins við þætti Samherja

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Samherja
Björgólfur Jóhannsson forstjóri Samherja

Í nýjum sjónvarpsþætti, sem Samherji lét framleiða, er fjallað um viðbrögð Ríkisútvarpsins við heimildarþætti um upphaf Seðlabankamálsins.

Hinn 11. ágúst 2020 setti Samherji heimildarþáttinn í loftið. Þar var fjallað um vinnubrögð fréttamanna Ríkisútvarpsins við gerð Kastljóssþáttar um Samherja hinn 27. mars 2012 þar sem sagt var frá meintri sölu Samherja á karfa á undirverði til erlendra dótturfélaga. Umræddur Kastljósþáttur og fullyrðingar þáttastjórnandans byggðu allar á „skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs“ eins og áhorfendum var ítrekað sagt. Í heimildarþætti Samherja kom fram að Verðlagsstofa skiptaverðs hefði aldrei samið skýrslu vegna málsins og vitnað var í ný og áður óbirt gögn frá stofnuninni því til staðfestingar.  

Rúmum þremur klukkustundum eftir að þáttur Samherja var sýndur sendu útvarpsstjóri og fréttastjóri Ríkisútvarpsins frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem meginfullyrðingu þáttarins var hafnað sem rangri. Þá sendu starfsmenn Ríkisútvarpsins einnig frá sér yfirlýsingu. Í kjölfarið skoraði Samherji á Ríkisútvarpið að afhenda skýrsluna sem Kastljós byggði umfjöllun sína á, ef hún væri á annað borð til.

Verðlagsstofa skiptaverðs staðfesti síðar meginfullyrðinguna úr heimildarþætti Samherja með yfirlýsingu hinn 12. ágúst síðastliðinn. Þar kom fram að um hafi verið að ræða Excel-skjal án efnislegrar niðurstöðu. „Ekki var skrifuð sérstök skýrsla af hálfu Verðlagsstofu af þessu tilefni og ekki lagt efnislegt mat á þær upplýsingar sem þarna voru dregnar saman,“ segir þar.

Í þessum nýja þætti er fjallað um ástæður þess að Samherji lét framleiða heimildarþátt um upphaf Seðlabankamálsins og viðbrögð Ríkisútvarpsins eftir að hann var sýndur. Hægt er að horfa á þáttinn með því að smella hér.