Yfir 36 þúsund tonn unnin á Dalvík og Akureyri

Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík.
Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík.

Guðjón Guðmundsson ritstjóri tímaritsins Fiskifrétta heimsótti landvinnslu Samherja á Dalvík og fékk að vita allt um þennan skilvirka vinnustað þar sem hafa farið í gegn allt upp í 130 tonn af þorski á einum degi. Heimasíða Samherja fékk góðfúslegt leyfi til að birta viðtalið hér á heimasíðu félagsins.

Landvinnsla Samherja á Dalvík er ein tæknilegasta og afkastamesta hvítfiskfiskvinnsla í heimi. Hún er búin allra nýjustu tækni, svo sem fjórum vatnskurðarvélum frá Völku, flokkurum, skurðarvélum og róbótum af ýmsum gerðum en það sem vekur ekki síst athygli er hvernig hlutunum er komið fyrir í þessu húsi sem stendur á um 7.000 fermetra grunnfleti. Með stoðrýmum á efri hæð er heildarstærðin um 9.000 fermetrar. Gæða- og öryggiseftirlit er með því strangasta sem þekkist í þessum iðnaði. Tölvustýringar og gagnakerfi eru fjölmörg og í salnum við tækin og færiböndin starfa um 100 manns. Um 200 manns vinna hjá Samherja á Dalvík til sjós og lands.


Landvinnslan á Dalvík og landvinnsla Útgerðarfélags Akureyringa á Akureyri eru báðar í eigu Samherja og starfa því náið saman. Berist til að mynda 160 tonna þorskafli á land með skipum félagsins að morgni fara 80 tonn til vinnslu á Dalvík og annað eins á Akureyri. Vinnslan á hráefninu klárast á einum degi og afurðirnar eru að jafnaði farnar úr húsunum að kvöldi sama dags. Vinnslugetan er mjög svipuð í báðum húsum en verkaskiptingin er í megindráttum sú að á Akureyri er unninn þorskur og ufsi en þorskur og ýsa á Dalvík. Vatnskurðarvélarnar taka ákveðinn fjölda fiska á mínútu og eftir því sem fiskurinn er stærri því meira magn fer í gegn. Ýsan er að jafnaði smærri en þorskur og ufsi og þar af leiðir er heldur meira unnið á Akureyri en Dalvík í tonnum talið. Á því fiskveiðiári sem nú var að ljúka var unnið úr um 36.500 tonnum af fiski á báðum stöðum.

Fjórðung úr öld hjá Samherja

„Þegar við erum í þokkalegum þorski vinnum við 11-13 tonn á klukkutíma en þegar við erum í ýsu eru þetta 8-10 tonn á klukkutíma. Stærstu dagarnir í þessu húsi voru um 130 tonn á átta klukkustundum en svo er það auðvitað minna aðra daga, sérstaklega þegar við erum að vinna bæði þorsk og ýsu. Þá eru þetta oft á bilinu 75-85 tonn,“ segir Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri landvinnslu Samherja á Dalvík.


Landvinnslan á Dalvík var tekin í notkun í ágúst 2020, tveimur árum eftir að fyrsta skóflustungan var tekin af krökkum á leiksskólanum þar í bæ. Kostnaðurinn við að reisa húsið og fullbúa það tækjum og búnaði var rúmir 7 milljarðar króna, þar af var rúmlega helmingur kostnaðarins vegna tækja og tæknibúnaðar.
Vinnslan telst ein sú tæknilega fullkomnasta í heimi. Þar er aðaláherslan lögð á vinnslu þorsks og ýsu og afurðirnar eru allar ferskar eða lausfrystar.
Sigurður Jörgen hefur unnið hjá Samherja allt frá því félagið hóf landvinnslu á Dalvík um síðustu aldamót, áður hafði hann verið verkstjóri í fiskvinnslu KEA á Dalvík. Hann er því öllum hnútum kunnugur og var með í ráðum þegar unnið var að skipulagi nýja hússins og uppsetningu tækjabúnaðar.


Byrjað með autt blað


Sigurður segir landvinnsluna á Dalvík ólíka öðrum fiskvinnsluhúsum að því leyti að húsið var hannað utan um framleiðsluna. Nýja tæknin í húsinu eru vatnskurðarvélarnar, róbótar, afurðadreifikerfið, ferskfiskpökkun og fleira. Í gamla húsinu fór starfsemin fram í á um þrjú þúsund fermetrum á þremur hæðum en fer nú fram á 9.000 fermetrum á tveimur hæðum. þar af er sjálf fiskvinnslan á um 7.000 fermetrum. Vinnslan fer því fram á helmingi stærri gólffleti en áður var.

„Við byrjuðum í raun með autt blað en mikla reynslu og spurðum okkur hvað við vildum gera. Teiknað var gróft skipulag að húsinu þar sem við ákváðum hvar hvað ætti að vera og reyndum að áætla hvað rýmið þyrfti að vera stórt. Við teiknuðum upp vinnsluferilinn allan, þ.e. alveg frá móttökunni, hausun, flökun, roðdrætti, flokkun, forsnyrtingu, vatnskurðarvélum, afurðadreifingu, frystingu, vakúmpakkningu og ferskfiskpökkun. Þá voru ekki komnir neinir veggir, við vorum bara að áætla hve mikið rými þyrfti. Þegar niðurstaða fékkst hvað það varðar má segja að kassi hafi verið dreginn yfir hugmyndina,“ lýsir Sigurður Jörgen upphafinu að landvinnslu Samherja á Dalvík. Yfirleitt er byrjað á hinum endanum, þ.e. hvernig eigi að koma tækjum og búnaði fyrir í húsi sem þegar hefur verið teiknað eða reist.


„Þessi undirbúningsvinna var ekki alveg hrist fram úr erminni og tóku þessar pælingar og yfirlega næstum tvö ár áður en fyrsta skóflustungan var formlega tekin. Við fórum meðal annars í heimsóknir í fjölmargar vinnslur bæði hér heima og erlendis til að viða að okkur hugmyndum. Við heimsóttum ekki bara fiskvinnslur, heldur margskonar matvælavinnslur og framleiðslufyrirtæki.


Húsið stendur á landfyllingu sem gerð var fyrir talsvert mörgum árum en þá hafði Eimskip áform um að byggja þar frystigeymslu. Þá var gerð ný landfylling fyrir nýjan viðlegukant og grjótgarðurinn var færður norður fyrir húsið.
Hvað vatnskurðarvélar snerti þá leist okkur best á lausnir Völku. Valka var opnari fyrir því að vinna með okkur við að þróa ‏þær. Valka rann síðar inn í Marel og nú er þetta allt á þeirra hendi,“ segir Sigurður Jörgen.


Fiskur í risakví allt í kringum landið


Gæðamál eru í algjörum forgrunni í allri vinnslunni á Dalvík. Aflinn af togurum Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa kemur allur undirkældur inn í vinnsluna sem þýðir að hann er í kringum mínus 0,5 gráður á Celsius. Þetta tryggir að fiskurinn helst kaldur í gegnum allan vinnsluferilinn sem stórlega eykur afurðargæðin.


„Með veiðistýringunni horfum við eiginlega á þetta þannig að þessir villtu stofnar sem eru í kringum landið okkar eru eins og fiskur í risakví. Við förum út í kvína og náum í ákveðið magn af fiski sem hentar vinnslunni og samkvæmt pöntunum frá viðskiptavinum víðs vegar um heiminn. Við framleiðum eingöngu upp í pantanir og ekkert umfram það. Við gerum samninga við viðskiptavini sem kaupa ákveðið magn afurða, sem afhenda á með tilteknum hætti yfir árið. Þá þarf að veiða og vinna í samræmi við það. Hvað ferskfiskmarkaðinn varðar þá erum við ekkert að elta hann þegar verðið fer niður, heldur framleiðum aðrar vörur. Vinnslan er því algjörlega söludrifin og segja má á vissan hátt að það sé viðskiptavinurinn sem stýrir því sem við gerum frá degi til dags.“


Stöðugar framfarir og aukin nýting


Sigurður Jörgen segir nýtingu á því hráefni sem kemur á land aðra byltingu. Nú séu unnin verðmæti úr lifur og roði svo dæmi sé tekið. Nú er að bætast enn við vinnsluna, því Samherji hefur hafið frystingu á sundmaga úr þorski sem seldur er til Kína.


„Það er alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi sem er gott og gerir það að verkum að menn eru alltaf á tánum. En við erum ekki komnir á neina endastöð með þessu fullkomna fiskvinnsluhúsi hérna á Dalvík. Það er alltaf hægt að gera betur og þannig verðum við að hugsa. Bara hérna í þessu húsi vorum við að bæta við flökunarvél í sumarstoppinu vegna þess að við ætlum að gera hlutina með öðrum hætti. Við settum upp öflugri pökkun fyrir ferskar afurðir og lítum til nýrrar tækni í stýringu á flæði á fiski inn í gegnum vinnsluna. Það á að hjálpa okkur að stýra flæðinu inn á flökunarvélar, flæðinu í gegnum vinnsluferla og vera með stöðugra flæði í vinnsluferlinu hverju sinni til að auka gæðin enn frekar.“


Ýsuhnakkar á Frakklandsmarkað


Vinnsla á ýsu er að aukast umtalsvert á Dalvík með auknum kvóta í ýsu. Jafnframt hefur Samherji keypt talsvert af ýsu af Vísisbátunum eftir að eldsumbrotin nærri Grindavík hófust. Sigurður Jörgen segir að sú vinnsla sé dæmi um það hvernig ná megi árangri, hafi menn stjórn á öllu ferlinu frá sölu til veiða og vinnslu.


„Með öruggri afhendingu og miklum gæðum hefur okkur tekist að byggja upp ýsumarkaðinn fyrir okkar afurðir, meðal annars með ferskum ýsuhnökkum inn á Frakklandsmarkað en hefðbundin markaður fyrir ýsu er annars Bretland og Bandaríkin en ýsa var ekki mjög þekkt í Frakklandi fyrir nokkrum misserum. Ýsa er á lægra verði en þorskur og þegar þessar vörur eru báðar til í stórverslunum gera neytendur eðlilega verðsamanburð og margir prófa ýsuna og geðjast vel að henni. Þegar viðkomandi neytendur versla svo aftur í matinn verður þessi vara að vera á boðstólum. Hægt og rólega höfum við byggt upp þennan markað og aukið framboðið. Svo getur það komið upp á að stórverslun vilji kynna sérstaklega þessa vöru í ákveðið marga daga einhvern mánuðinn og vilji þá fá einhverja tugi tonna á tilteknum tíma. Þá stýrum við veiðum þannig að við náum að afla þess hráefnis sem óskað er eftir.“


Íslendingar framarlega á heimsvísu


„Störf í fiskvinnslu hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum og eru orðin sérhæfðari og líkamlega léttari. Hérna á Dalvík eru allar aðstæður starfsfólks til mikillar fyrirmyndar. Þessi vinnustaður er skýrt dæmi um íslenska nýsköpun, frumkvöðlastarf og góðan aðbúnað. Húsið er einfaldlega góður vitnisburður um þá staðreynd að Íslendingar standa framarlega í fiskvinnslu á heimsvísu,“ segir Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík.