Bréf til starfsmanna

Kæru starfsmenn,

Eins og ykkur er kunnugt um hefur Seðlabanki Íslands staðið fyrir umfangsmikilli rannsókn á starfsemi Samherja í vel á fimmta ár. Framganga bankans frá upphafi hefur öll verið hin grimmilegasta og gengið nærri mörgum okkar enda hefur málið verið rekið áfram af mikilli óbilgirni, hörku og oftar en ekki ósannindum.

Þegar sérstakur saksóknari felldi málið niður fyrir rétt rúmu ári síðan með ítarlegum rökstuðningi töldum við að þessu máli væri lokið enda var sérstakur saksóknari mjög afdráttarlaus í niðurstöðu sinni. Hann staðfesti að öllum gjaldeyri hefði verið skilað vegna sölu á vörum og þjónustu allt frá nóvember 2008 og sá ástæðu til að geta sérstaklega að Samherji hefði gætt þess af kostgæfni. Einnig taldi hann ekkert hæft í ásökunum Seðlabankans um óeðlilegt fiskverð í viðskiptum okkar.
 

Alvarlegar og ítrekaðar rangfærslur Seðlabankans

Eftir að hafa haldið í barnaskap okkar að málinu væri lokið kom annað á daginn. Um mitt sumar barst Samherja hf. bréf frá Seðlabankanum. Þá kom í ljós að tímann frá því málinu var vísað frá sérstökum saksóknara fyrir ári síðan höfðu þeir notað til að finna upp á enn einni ástæðu til að breiða yfir eigin mistök og rangfærslur, sem hafa verið margar og alvarlegar. Rétt er að geta hér um nokkur þeirra:

  • Útreikningar Seðlabankans á fiskverði sem notaðir voru til að fá húsleitarheimild voru rangir. Meðalverð var reiknað miðað við fjölda sendinga en ekki magn. Staðfest af dómstólum að aðferðarfræðin var röng. 
  • Fullyrðingar Seðlabankans fyrir dómi að hann hefði fundið gögn um verulega undirverðlagningu til Seagold reyndust uppspuni. Niðurstöður rannsóknar Seðlabankans sýndu að verðið var gott og ásökunum vísað á bug af sérstökum saksóknara, skattrannsóknarstjóra og nú Seðlabankanum sjálfum. 
  • Seðlabankinn sendi fréttatilkynningu um húsleit út um heim allan. Bankinn neitaði að upplýsa Samherja um hvert fréttirnar fóru og veitti síðan úrskurðarnefnd um upplýsingamál rangar upplýsingar um fjölda viðtakenda fréttatilkynningarinnar og staðsetningu þeirra og leyndu þannig hversu víða hún fór. Staðfest af Seðlabankanum sjálfum. 
  • Gögnum, sem lágu til grundvallar kæru Seðlabankans til sérstaks saksóknara á sölu á 5 tonnum af bleikju á undirverði, var haldið frá okkur eins lengi og hægt var. Þegar farið var yfir gögnin kom í ljós að kærurnar voru byggðar á samanburði ólíkra söluskilmála og mismunandi markaðssvæða. Ítrekað og langt tímabil ætlaðra brota reyndist vera nokkrar sendingar á tveggja mánaða tímabili árið 2012, enda upphafið að markaðssetningu í Þýskalandi sem síðar hefur gengið vel. Í kjölfar fyrirspurnar sérstaks saksóknara til Seðlabankans kom í ljós að enginn annar hafði selt bleikju til Þýskalands á umræddu tímabili. Gögn málsins staðfesta að Seðlabankinn bar saman ósambærilega hluti. 
  • Ice Fresh Seafood ehf., sölufélag Samherja, var kært til sérstaks saksóknara fyrir að hafa vanrækt að skila að jafnvirði 70 milljóna króna til landsins. Tæpur helmingur ætlaðs brots var vegna endurgreiðslu á tvíborguðum reikningum og var hinum helmingnum skilað innan tímamarka. Seðlabankinn komst að því í sömu rannsóknarskýrslu að félagið hefði skilað umfram skilaskyldu. Hafa skal í huga að Ice Fresh Seafood skilaði á rannsóknartímabilinu 90 þúsund milljónum króna til Íslands vegna sölu á fiski. Rannsóknarskýrsla Seðlabankans staðfestir að Ice Fresh Seafood ehf. skilaði umfram skilaskyldu. 
  • Fullyrðingar seðlabankastjóra í fjölmiðlum eftir niðurfellingu sérstaks saksóknara um brot upp á marga milljarða voru rangar. Staðfest af Seðlabankanum. 
  • Ásakanir í kæru til sérstaks saksóknara um að fyrirtækið ætti einhvern leynireikning voru rangar. Eftir að sérstökum saksóknara voru sýnd gögn um reikninginn og vitneskju Seðlabankans um tilvist hans, bar hann þetta upp við framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins. Bjó Seðlabankinn þá til afsökun um að kínamúrar innan Seðlabankans gerðu það af verkum að gjaldeyriseftirlitið gæti ekki nálgast upplýsingarnar. Þegar þetta kom upp töldum við menn varla geta komist nær röngum sakargiftum. Staðfest af sérstökum saksóknara að Seðlabankinn hafði haft upplýsingar um reikninginn allan tímann. 
  • Mikilvægum gögnum um gjaldeyrisskil Samherja og Ice Fresh Seafood í Arion banka hf., sem staðfesta að félögin skiluðu alltaf – frá nóvember 2008 – umfram skilaskyldu, viljandi haldið leyndum fyrir sérstökum saksóknara. Sést m.a. af gagnaöflunarbeiðni og rannsóknarskýrslum Seðlabankans.
     

Sáttarboð til að breiða yfir alvarleg afglöp

Til að breiða yfir þessi afglöp og fleiri sendi Seðlabankinn Samherja bréf um miðjan júlí þar sem reynt var að þvinga fram sátt gegn greiðslu fjársektar uppá 8,5 milljónir króna. Þrátt fyrir að það hefði verið þægilegast að taka þessu sáttarboði og afskrifa loksins málið, sem hófst með stærstu húsleit Íslandssögunnar og hefur tekið mikinn tíma og orku, kom það ekki til greina. Enda þótt hér hefði verið velt við hverjum steini í rekstrinum hefur Seðlabankinn oftar en einu sinni verið gerður afturreka með ásakanir sínar, útreikninga og aðferðir. Því var það aldrei valkostur af okkar hálfu að taka boði á röngum forsendum, bara til að losna.

Sáttarboðinu var því hafnað með ítarlegum rökstuðningi í ágúst síðastliðnum. Þann 1. september barst okkur svo stjórnvaldsákvörðun þess efnis að Seðlabankinn hefði ákveðið að leggja fjársekt á Samherja hf. upp á 15 milljónir króna.
 

Mikilvægum gögnum stungið undan

Til að geta lagt þessa fjársekt á Samherja þurftu Seðlabankinn og forsvarsmenn hans að gera nokkuð sem við höfðum ekki einu sinni hugmyndaflug í að nokkur maður – hvað þá opinber aðili – myndi gera. Það sem liggur fyrir í gögnum málsins er að Seðlabankinn aflaði upplýsinga um greiðslur gjaldeyris inn á reikninga Samherja hf. hjá Arion banka hf. en hélt þeim leyndum fyrir sérstökum saksóknara og gaf í skyn að umfang greiðslna þangað væri takmarkað. Staðreyndin er sú að 84% af gjaldeyri Samherja hf. fór inn á þessa reikninga. Upplýsingar í kærum til sérstaks saksóknara og fylgigögnum voru því rangar og upplýsingum sem komu frá Arion banka hf. skotið undan í málinu. Svona háttsemi opinberrar stofnunar á sér vart nokkra hliðstæðu.

Að mati Seðlabankans hafði Samherji hf. vanrækt eða skilað of seint samtals að jafnvirði 489,5 milljónum króna. Það er með ólíkindum að Seðlabankinn telji sig þess umkominn að lýsa því yfir að málið sé upplýst og að Samherji hafi gerst sekur um skilaskyldubrot án þess að rannsaka alla bankareikninga félagsins.

Mikilvægt er að halda því til haga að sú fjársekt sem Seðlabankinn hefur nú lagt á Samherja hf. er ekki vegna verðlagningar á fiski, sölu á fiski eða gjaldeyrisskilum vegna fisks, en Samherji hf. og Ice Fresh Seafood ehf. skiluðu samanlagt 107 milljörðum til landsins á rannsóknartímabilinu vegna sölu á vöru og þjónustu. Sérstakur saksóknari tók sérstaklega fram að Samherji hefði gætt þess af kostgæfni að skila gjaldeyri. Í stað þess að gefa þessum ummælum sérstaks saksóknara gaum hefur bankinn kosið að beita langsóttum aðferðum og nýstárlegum túlkunum til að geta lagt fjársekt á Samherja. Til þess beitti bankinn vafasamri túlkun á skilaskyldu m.a. vegna eins gjaldmiðlaskiptasamnings sem var gerður á móti lánasamningi Samherja og velt áfram á 1-2 mánaða fresti og láns til erlends dótturfélags af óskilaskyldum gjaldeyri.

Höfum við sent bankaráði bréf þar sem farið er með ítarlegum hætti í gegnum þessar ævintýralegu æfingar Seðlabankans lið fyrir lið. Er það aðgengilegt hér: Bréf til bankaráðs SÍ.
 

„Lagaklúður“ notað sem átylla fyrir sneypuför Seðlabankans

Fyrir okkur er ekki nokkur vafi á að ástæða fjársektarinnar er að breiða yfir stórfelld og ítrekuð afglöp bankans í þessu máli. Ásakanir Seðlabankans um brot, afsakanir hans og átyllur bera þess merki.

Seðlabankinn hóf mál þetta með miklum lúðraþyt og fjölmiðlafári. Ásakanirnar voru alvarlegar og stukku margir á vagninn með bankanum. Nú liggur fyrir að átylla Seðlabankans fyrir húsleitinni – ásakanir um að stinga undan skilaskyldum gjaldeyri með því að selja fisk til erlendra dótturfélaga á undirverði – átti sér ekki nokkra stoð í raunveruleikanum. Enda byggir Seðlabankinn fjársektina ekki á þeim tilhæfulausu ásökunum og hefur fallið frá þeim til samræmis við niðurstöður sérstaks saksóknara og skattrannsóknarstjóra.

Seðlabankastjóri hefur meðal annars reynt að slá ryki í augu almennings með afsökunum á borð við „lagaklúður“. Hefur hann sagt Samherja sleppa vegna þessa. Það er rangt. Vegna þessara ásakana er rétt að halda því sérstaklega til haga að þegar gjaldeyrisskil Samherja eru tekin saman af öllum reikningum var Samherji ávallt yfir skilaskyldu frá setningu gjaldeyrishafta – einnig á því tímabili sem „lagaklúður“ seðlabankastjóra stóð.
 

Gerðum ekkert rangt – munum leita réttar okkar

Við munum á næstu vikum og mánuðum gera opinberlega grein fyrir einstökum þáttum þessa máls. Nú sem áður finnst okkur skipta máli að sýna fram á að við hjá Samherja gerðum ekki neitt rangt, heldur vorum við beitt ósanngjarnri valdbeitingu nokkurra vanhæfra embættismanna Seðlabankans.

Samherji mun höfða ógildingarmál á hendur Seðlabankanum vegna stjórnvaldssektarinnar því henni munum við aldrei una.

Kæru starfsmenn. Við erum þakklátir fyrir þann stuðning sem við finnum fyrir innan fyrirtækisins. Samheldni, áræðni og velvilji ykkar er ómetanlegur.
 

Þorsteinn Már Baldvinsson
Kristján Vilhelmsson