Andlát: Finnbogi Jónsson

Finnbogi Jónsson var mikill áhugamaður um nýsköpun og kynnti sér nýjustu tækni um borð í Oddeyrinni …
Finnbogi Jónsson var mikill áhugamaður um nýsköpun og kynnti sér nýjustu tækni um borð í Oddeyrinni EA í júlí sl.

Finnbogi Jónsson verkfræðingur og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja lést þann níunda september síðastliðinn í Vancouver í Kanada. Finnbogi lét mjög að sér kveða í íslensku atvinnulífi og sat í stjórn fjölmargra félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana.

Finnbogi var framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað frá 1986 til 1999, forstjóri Íslenskra sjávarafurða hf. 1999, aðstoðarframkvæmdastjóri SÍF, starfandi stjórnarformaður Samherja hf. 2000 til 2005 og framkvæmdastjóri SR-mjöls h/f frá 2003 til 2006. Finnbogi var framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá 2006 til 2010 og sat auk þess í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og stofnana, svo sem háskólaráði Háskólans á Akureyri.

Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja:

“Áhrifa starfa Finnboga gætir víða í íslensku atvinnulífi og við sem förum fyrir Samherja stöndum í mikilli þakkarskuld við hann. Ákvarðanir sem Finnbogi tók eða lagði til, voru vel ígrundaðar og byggðar á þekkingu og glöggu innsæi. Finnbogi hafði einstakt lag á að leiða saman fólk til samstarfs og viðskipta sem skilað hefur atvinnulífinu ávinningi og þar með þjóðarbúinu. Hans er sárt saknað með djúpri virðingu.”

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja:

“Finnbogi var drengur góður, mikill Akureyringur og bar ávallt hag bæjarins fyrir brjósti. Jákvæðni og framsýni var áberandi í fari Finnboga enda hafði hann einstakt lag á að fá fólk til liðs við metnaðarfull og framsækin verkefni. Þátttaka Finnboga Jónssonar í íslensku atvinnulífi hefur verið áhrifarík, sérstaklega í sjávarútvegi og nýsköpun. Við hjá Samherja kveðjum góðan vin og samstarfsmann með einlægu þakklæti.”

Finnboga Jónssonar er minnst í fjölmiðlum í dag og þar er greint frá æviferlinum. Stjórn Samherja og starfsfólk félagsins senda fjölskyldu Finnboga Jónssonar innilegar samúðarkveðjur.