Endurtekið efni um starfsemi í Namibíu

Í gær birtist frétt unnin af Finance Uncovered um starfsemi félaga sem tengjast Samherja í Namibíu. Að miklu leyti felur hún sér endurvinnslu á áður birtu efni.

Samherji hefur átt í samskiptum við Finance Uncovered undanfarna þrjá mánuði. Blaðamenn Finance Uncovered hafa lagt áherslu á að þeir séu ekki að saka Samherja um neitt ólöglegt og það er mikilvægt að halda því til haga að í greininni sem birtist í gær eru ekki settar fram ásakanir á hendur Samherja um skattundanskot. Sum atriði er lúta að skattaskipulagi samstæðunnar eru sett í neikvætt samhengi.

Rétt er að undirstrika að við teljum að sú mynd sem dregin hefur verið upp af Finance Uncovered sé villandi og að vinnubrögðin við ritun greinarinnar séu aðfinnsluverð. Fjölmargar rangfærslur koma fram í greininni og þá er ýmislegt slitið úr samhengi og þarfnast skýringa.

Í fyrsta lagi hefur Samherji aldrei selt sardínur eða makríl til verslanakeðjanna Carrefour og Tesco. Þá hafa félög á vegum Samherja aldrei stundað veiðar á sardínum í Namibíu en slíkar veiðar voru stundaðar í Marokkó um skamma hríð. 

Í öðru lagi voru sjávarafurðir aðeins seldar innan samanstæðunnar í gegnum Kýpur á árinu 2012, fyrsta árið í starfseminni í Namibíu, meðan félög tengd Samherja voru að byggja upp viðskiptasambönd og tengsl í landinu. Fullyrðingar um afslætti í greininni eru rangar. Meðalálagning vegna sölu í gegnum Kýpur var 3,9% á árinu 2012.

Í þriðja lagi ber að leiðrétta fullyrðingar um samning við Atlantex vegna leigu skips sem notað var í Namibíu. Það skip sem hér um ræðir var leigt af Atlantex yfir mjög stutt tímabil á grundvelli samkomulags þar sem öll þjónusta var innifalin í leigunni. Þar er um að ræða allan búnað, veiðarfæri, olíu, viðgerðarþjónustu fyrir skipið o.s.frv. Eins og fram kemur í greininni var leiguverðið lækkað eftir fjóra og hálfan mánuð og hreinn hagnaður Atlantex á leigutímanum vegna skipsins nam einungis 6% álagningu.

Í fjórða lagi voru heildarskattar sem félög tengd Samherja greiddu í Namibíu í gegnum árin, þar með talið tekjuskattur, tryggingagjald, útflutningsgjöld, innflutningsgjöld, og fjöldi annarra greiðslna til ríkissjóðs Namibíu, samtals yfir 400 milljónum namibískra dollara, jafnvirði 3,7 milljarða króna. Það er í sjálfu sér merkilegt í ljósi þess að þegar upp var staðið var taprekstur af starfseminni.


Lögmætar ráðstafanir gerðar tortryggilegar

Nálgun Finance Uncovered afhjúpar ákveðið skilningsleysi þeirra á alþjóðlegum viðskiptum. Virt er að vettugi sú staðreynd að alþjóðleg fyrirtæki nota sérstök dótturfélög og styðjast við ákveðna uppbyggingu til að lágmarka áhættu sína vegna mismundi lagareglna, skatta og annarra rekstrartengdra þátta. Þá eru fullkomlega lögmætar ráðstafanir, sem gerðar eru í viðskiptalegum tilgangi, allar skoðaðar í því ljósi að þær tengist vafasömu skipulagi vegna skatta.

Framangreint þýðir ekki að við útilokum að mistök hafi verið gerð í rekstri dótturfélaga Samherja í Namibíu. Í því sambandi er ástæða til að árétta að auk þeirrar ákvörðunar að leggja niður starfsemina í Namibíu, og verja miklum tíma og fjármunum í að rannsaka ásakanir sem tengjast henni, tilkynnti Samherji í janúar síðastliðnum áform um að innleiða sérstakt kerfi fyrir stjórnarhætti og regluvörslu fyrir samstæðuna alla. Markmiðið er að samstæðan verði leiðandi á sviði stjórnunar- og innra eftirlits í sjávarútveginum á heimsvísu. Umfjöllun Finance Uncovered raskar í engu þessum áformum.


Björgólfur Jóhannsson
forstjóri Samherja