RÚV ruglar saman veltu og ágóða - kyrrsetning Heinaste felld úr gildi

Eftir kaupin hefur nýr eigandi Heinaste endurnefnt skipið Tutungeni.
Eftir kaupin hefur nýr eigandi Heinaste endurnefnt skipið Tutungeni.

Ríkisútvarpið sneri hugtökum á haus í fréttaflutningi síðustu daga um kyrrsetningu eigna félaga sem tengjast Samherja í Namibíu. Núna hefur kyrrsetning á verðmætustu eigninni, togaranum Heinaste, verið felld úr gildi og togarinn seldur til namibíska útgerðarfyrirtækisins Tunacor Fisheries.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því í nánu samráði við namibísk stjórnvöld að leggja niður starfsemi í Namibíu á vegum félaga sem tengjast Samherja. Hluti af þessari vinnu laut að kyrrsetningu togarans Heinaste. Bréf um afléttingu kyrrsetningarinnar var undirritað af ríkissaksóknara Namibíu í gær samhliða sölu skipsins. Aðrar eignir í Namibíu, sem eru óverulegar, sæta enn kyrrsetningu en mál tengd þeim verða leyst á komandi mánuðum í samráði við stjórnvöld.

Eftir að útgerðin í Namibíu var lögð niður í lok síðasta árs hefur verið unnið að því að selja Heinaste eða leigja skipið áfram til namibískra aðila í því skyni að verja störf. Með sölu skipsins verður hægt að endurheimta störf um eitt hundrað skipverja sem voru áhöfn þess áður en skipið var kyrrsett en það hefur legið við höfnina í Walvis Bay í um eitt ár. Nauðsynlegri yfirferð á tækjum og búnaði Heinaste er nú lokið og mun skipið halda til veiða á morgun í þjónustu nýs eiganda með áhöfn sem er að verulegu leyti sú sama og áður. Þá hefur kaupandi skipsins gefið því nýtt nafn og heitir skipið nú Tutungeni.

Seljandi togarans Heinaste er félagið Heinaste Investment Namibia sem félag tengt Samherja á rúmlega helming hlutafjár í. Kaupandinn, Tunacor Fisheries, er namibískt útgerðarfyrirtæki sem á sér meira en 60 ára rekstrarsögu. Fyrirtækið gerir í dag út fimmtán skip og veitir meira en 2.100 manns atvinnu í Namibíu.

Eins og áður segir var skipið á meðal þeirra eigna sem voru kyrrsettar í Namibíu. Ríkisútvarpið hefur síðustu daga fjallað um skjal sem lagt var fram til að rökstyðja kyrrsetninguna. Í frétt í fyrrakvöld var ranglega fullyrt að félög tengd Samherja í Namibíu hafi fengið jafnvirði 4,7 milljarða króna í „ólöglegan ágóða“ af samningi um veiðar við fyrirtækið Namgomar Namibia. Fréttin gaf mjög brenglaða mynd af þessum samningi og starfseminni í Namibíu.

Í fréttinni var rangt farið með umfang veiðanna og tekjur af þeim. Þá var ekki tekið fram að sú fjárhæð sem var tilgreind felur í sér áætlaðar heildartekjur áður en skattar og gjöld hafa verið dregin frá. Í fréttinni var fullyrt að áætlaðar heildartekjur vegna samningsins yfir fimm ára tímabil væru hinn „ólöglegi ágóði“ en ekkert minnst á skatta og gjöld, laun og annan rekstrarkostnað á tímabilinu. Þessi hugtakanotkun Ríkisútvarpsins er fjarstæðukennd enda þýðir orðið „ágóði“ almennt gróði eða hagnaður.

Í þessu sambandi má rifja upp að félög tengd Samherja greiddu samtals að jafnvirði 6,5 milljarða króna til ríkissjóðs Namibíu þau ár sem þau voru í rekstri. Þá greiddu þau alls 12 milljarða króna fyrir aflaheimildir og rann stór hluti þeirrar fjárhæðar til stofnana og fyrirtækja í eigu namibíska ríkisins. 

Þá var þess heldur ekki getið í frétt Ríkisútvarpsins að félögin utan um útgerðina í Namibíu voru, þegar upp var staðið, rekin með tapi. Afkoma tímabilsins 2012-2018, að teknu tilliti til afskrifta, fjármagnsgjalda, tekjuskatts o.fl. var neikvæð um jafnvirði 950 milljóna króna, eins og  greint var frá fyrr á þessu ári þegar samantekin reikningsskil félaganna lágu fyrir. Ljóst er að þessi einfalda staðreynd hefði auðvitað gjörbreytt efnislegu inntaki fréttar Ríkisútvarpsins um hinn „ólöglega ágóða“.

„Við hjá Samherja erum mjög ánægð með að óvissu um framtíð Heinaste hafi verið eytt með afléttingu kyrrsetningarinnar og sölu skipsins. Með sölunni verður hægt að verja störf skipverja sem voru í áhöfn skipsins áður en það var kyrrsett, sem er virkilega ánægjulegt. Salan á Heinaste er ákveðinn lokahnykkur í því að hætta starfsemi í Namibíu. Þetta er öflugt skip sem hefur reynst félögum sem tengjast Samherja afar vel í gegnum tíðina. Við væntum þess að það verði áfram fengsælt og öflugt í þjónustu nýs eiganda. Það er hins vegar dálítið grátbroslegt að kyrrsetning skipsins er felld úr gildi og það selt á sama tíma og Ríkisútvarpið afbakar raunveruleikann í fréttaflutningi af þessari sömu kyrrsetningu. Það undirstrikar enn á ný að Ríkisútvarpinu er fyrirmunað að fjalla á hlutlægan og heiðarlegan hátt um málefni tengd Samherja og greina rétt frá staðreyndum,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

 

Nánari upplýsingar veitir:
Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is