Fréttir

Góður túr Björgvins í Barentshafi

Björgvin EA 311, frystitogari Samherja, kom til hafnar í Tromsö í Noregi í gærmorgun eftir vel heppnaða veiðiferð í Barentshafi. Afli skipsins er um 600 tonn af þorski sem fékkst innan rússnesku lögsögunnar. Aflaverðmætið nemur tæpum 110 milljónum króna og má fullyrða að þetta sé besti túr sem íslenskt skip hefur gert í Barentshaf frá því að gengið var frá samningum um veiðar Íslendinga á þessu svæði.

Breytingar ráðgerðar á Þorsteini EA

Í undirbúningi er að ráðast í breytingar á fjölveiðiskipinu Þorsteini EA þannig að um borð verði settur fullkominn búnaður til vinnslu og frystingar á síld og kolmunna. Ef áætlanir ganga eftir mun þetta gerast að lokinni loðnuvertíð næsta vor.

Margrét á ísfiskveiðum

Um þessar mundir eru fjögur af skipum Samherja á ísfiskveiðum, sem er meira en oft áður. Þetta eru Björgúlfur EA, Kambaröst SU, Hjalteyrin EA og Margrét EA. Athygli kann að vekja að sjá Margréti í þessum hópi þar sem hún er útbúin sem frystiskip. Með aukinni árherslu Samherja á landvinnslu er nauðsynlegt að treysta hráefnisöflunina og því var ákveðið að gera togarann út á ísfiskveiðar um sinn.

Sæblikinn ehf. gerir samning við Bauckman OY

Í dag kl. 16:00 var undirritaður samningur á milli Sæblikans ehf. og finnska fyrirtækisins Bauckman OY um sölu á um 20.000 tunnum af saltsíld til Finnlands. Bauckman OY er stórt á sínu sviði og hefur um 50% hlutdeild á finnska markaðinum fyrir saltsíld. Þær 20.000 tunnur sem hér um ræðir láta nærri að vera um fjórðungur af ársframleiðslunni hérlendis.

Samherji eykur hlut sinn í Íslandslaxi hf.

Með vísan til 26. gr. laga nr. 34/1998 tilkynnist hér með að Samherji hf. hefur í dag keypt 14,7% eignarhlut í Íslandslaxi hf. í Grindavík og nemur kaupverð eignarhlutans 51 milljón króna. Fyrir kaupin átti Samherji 68 milljónir króna að nafnverði í Íslandslaxi en á nú 88 milljónir króna að nafnverði, eða 64,7% alls hlutafjár í félaginu.

Árshlutareikningur Samherja hf.:

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði ríflega tvöfaldaðist á milli ára –en félagið gert upp með tapi vegna umtalsverðs gengistapsRekstur Samherja gekk mjög vel á fyrri hluta ársins og var fjármunamyndun frá rekstri meiri en nokkru sinni fyrr í sögu félagsins. Veltufé frá rekstri nam 1.150 milljónum króna hjá samstæðunni, samanborið við 563 milljónir á sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.612 milljónum króna og er um meira en tvöföldun að ræða á milli ára. Hins vegar voru hreinir fjármagnsliðir neikvæðir um tæpar 1.300 milljónir króna á tímabilinu, og er félagið gert upp með 345 milljóna króna tapi á tímabilinu.

Samherji og Síldarvinnslan stofna sölufyrirtækið Sæblik

Samherji hf. og Síldarvinnslan hf. hafa stofnað hlutafélagið Sæblik og á hvort félag 50% hlut í hinu nýja félagi. Tilgangur Sæbliks hf. er að annast sölu á öllum frosnum og söltuðum síldar-, loðnu- og kolmunnaafurðum félaganna tveggja sem að því standa. Þar er Japansmarkaður þó undanskilinn og munu Samherji og Síldarvinnslan áfram nýta þar þau viðskiptatengsl sem fyrir hendi eru, án atbeina Sæbliks hf.

Gústaf Baldvinsson ráðinn framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Samherja hf.

Gústaf Baldvinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Samherja hf. Um er að ræða nýtt starf hjá Samherja en veruleg aukning í umsvifum félagsins á hinum ýmsu sviðum sjávarútvegs hafa kallað á markvissara stjórnskipulag innan þess. Ráðning Gústafs í starf framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs er liður í því auk þess sem hún styrkir stöðu Samherja enn frekar á núverandi mörkuðum félagsins.

Afkoman versnað um hálfan milljarð á einum mánuði

Á stjórnarfundi Samherja hf. í gær var kynnt óendurskoðað uppgjör móðurfélagsins fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins. Samkvæmt uppgjörinu nemur tap á rekstri félagsins 252 milljónum króna samanborið við 241 milljónar króna hagnað eftir fyrstu 3 mánuði ársins. Afkoman hefur þannig versnað um tæpan hálfan milljarð á einum mánuði og má rekja breytinguna til lækkunar á gengi íslensku krónunnar og verkfalls sjómanna.Á aðalfundi Samherja í byrjun apríl sl. var greint frá rekstraráætlunum félagsins fyrir árið 2001, sem unnar voru í árslok 2000. Þar kom fram að áætlanir gerðu ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði yrði um 2.175 milljónir króna og hagnaður ársins fyrir skatta yrði um 860 milljónir króna. Ennfremur kom fram að í rekstraráætluninni væri gert ráð fyrir að gengi íslensku krónunnar yrði óbreytt á árinu og að ekki kæmi til verkfalls sjómanna. Nú er ljóst að gengi íslensku krónunnar hefur fallið um 16% frá áramótum og að skip félagsins hafa verið frá veiðum vegna sjómannaverkfalls í 50 daga á árinu, þar með talinn allur aprílmánuður. Því er ljóst að félagið verður rekið með verulegu tapi á fyrri hluta árs 2001. Á móti kemur að fari verðlagsþróun ekki úr böndum má ætla að afkoma félagsins batni á næstu misserum vegna þeirrar hækkunar sem orðið hefur á erlendum gjaldmiðlum. Engu að síður er ljóst að heildarafkoma ársins verður mun lakari en kynnt var á aðalfundi félagsins. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) verður hins vegar að öllum líkindum ekki langt frá því sem áætlað var. Nettóskuldir félagsins um síðustu áramót voru um 6 milljarðar króna og þann 30. apríl sl. námu þær 6,4 milljörðum króna. Miðað við þær gengisbreytingar sem orðið hafa má gera ráð fyrir að velta móðurfélagsins á ársgrundvelli verði tæpir 11 milljarðar króna. Það er því ljóst að hlutfall skulda miðað við veltu er tiltölulega hagstætt hjá Samherja. Fréttatilkynning frá Samherja hf. miðvikudaginn 6. júní 2001. Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.

Rekstraráætlun móðurfélagsins fyrir árið 2001 kynnt

Á aðafundi Samherja hf. sem haldinn var í dag kynnti Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, rekstraráætlun móðurfélagsins fyrir árið 2001. Félagið hefur ekki áður birt slíka áætlun en hún byggir á ákveðnum forsendum sem Þorsteinn Már fór yfir á fundinum. Vinna við rekstraráætlunina fór fram í lok síðasta árs. Hún byggir á úthlutun aflaheimilda eins og þær voru fyrir fiskveiðiárið 2000-2001 og að þær aflaheimildir verði óbreyttar fyrir fiskveiðiárið 2001-2002. Ekki er gert ráð fyrir gengisbreytingum á árinu né áhrifum verkfalls sjómanna. Áætlun er gerð fyrir hverja deild félagsins og þeim sett framleiðslu- og hagnaðarmarkmið. Í hráefnisáætlunum er gert ráð fyrir að taka á móti 110.000 tonnum í fiskimjölsverksmiðju félagsins í Grindavík. Á Dalvík er gert ráð fyrir að vinna úr tæpum 7.000 tonnum af þorski og ýsu og í rækjuverksmiðju félagsins á Akureyri um 8.000 tonnum. Áætlanirnar gera ráð fyrir að skip félagsins nýti úthlutaðar aflaheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári. Þá er gert ráð fyrir að markaðir verði stöðugir og afurðaverð haldist áfram gott. Tekjur áætlaðar rúmir 9 milljarðar króna Tekjur ársins eru áætlaðar 9.250 milljónir króna, rekstrargjöld 7.075 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði 2.175 milljónir. Gert er ráð fyrir að afskriftir verði 1.000 milljónir króna og hreinar fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru áætluð 330 milljónir. Hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi móðurfélagsins árið 2001er því áætlaður 860 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er áætlað 1.700 milljónir. Náist þessi rekstarniðurstaða gæfi það að sögn Þorsteins Más tilefni til að fyrirtækið gæti greitt að minnsta kosti 20% arð til hluthafa á næsta ári. Hann sagði ljóst að endurskoða þurfi áætlunina með tilliti til gengisbreytinga sem hafa orðið frá áramótum og áhrifa verkfalls og verður það gert að verkfalli loknu. Bráðabirgðatölur fyrir fyrstu 3 mánuði ársins Á fundinum kynnti Þorsteinn einnig bráðabirgðatölur fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins. Þær sýna hagnað af rekstri móðurfélags Samherja, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, upp á rúmar 800 milljónir króna. Í áætlunum Samherja fyrir sama tímabil er gert ráð fyrir rúmlega 700 milljóna króna hagnaði. Þorsteinn Már kvaðst ánægður með þennan árangur Sanherja á þremur fyrstu mánuðum ársins. Eykur hlutdeild í fiskeldi Samherji hf. hefur með kaupsamningi við Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. keypt 45,3% hlut félagsins í Siflurstjörnunni hf. auk 10% hlut HÞ í Sæsilfri hf. Heildarkaupverð þessara eignarhluta er ríflega 128 milljónir króna. Eftir kaupin á Samherji hf. 48,45% eignarhlut í Silfurstjörnunni og 45% hlut í Sæsilfri hf. Að sögn Þorsteins Más hefur Samherji hf. verið að hasla sér völl í fiskeldi að undanförnu og eru kaup þessi liður í því að styrkja stöðu félagsins á þeim vettvangi. Fréttatilkynning frá Samherja hf. þriðjudaginn 10. apríl 2001.  Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson í síma 460 9000.