Fréttir

Kristina EA seld til Rússlands

Fjölveiðiskipið Kristina EA hefur verið selt til Rússlands og verður afhent nýjum eigendum í næstu viku. Þar með lýkur ríflega 10 ára sögu þess í eigu Samherja.

Kristina EA er um 7.000 tonn að stærð og 105 metra langt, smíðað á Spáni árið 1994. Það varð stærsta skip íslenska fiskveiðiflotans þegar það kom hingað til lands í maí 2005 og bar þá nafnið Engey RE-1. Samherji keypti skipið í mars 2007 af HB-Granda hf. og nefndi það Kristina EA.

Skipið hefur reynst farsælt í rekstri þennan áratug. Það fór í sína síðustu veiðiferð á laugardaginn 16. september sl. og lagði upp frá Færeyjum. Það hóf veiðar daginn eftir í svokallaðri Síldarsmugu á alþjóðlega hafsvæðinu á milli Íslands, Færeyja og Noregs. Kristina landaði 2.180 tonnum af frystum makríl í Hafnarfirði á þriðjudaginn eftir 6 sólarhringa á miðunum. Áhöfnin notaði tímann á siglingunni til Hafnarfjarðar til að klára að frysta aflann. Áætlað aflaverðmæti er um 300 milljónir króna. Síðasta veiðiferðin reyndist sú besta í 10 ára sögu skipsins hjá Samherja.

Samherji hlýtur íslensku sjávarútvegsverðlaunin 2017 í tveimur flokkum – framúrskarandi fiskvinnsla og framúrskarandi skipstjóri.

Framúrskarandi fiskvinnsla - Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja veitti viðtöku Íslensku sjávarútvegsverðlaununum í flokknum „Framúrskarandi fiskvinnsla. Verðlaunin eru veitt Samherja fyrir landvinnslu félagsins á Akureyri og Dalvík.  Verðlaunin eru fyrst og fremst viðurkennig á því frábæra starfi sem okkar starfsfólk innir af hendi allt árið um kring. 
Framúrskarandi skipstjóri. Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinsyni EA hlaut verðlaunin í flokkunum Framúrskarandi skipstjóri. Við afhendinguna kom fram að „Guðmundur er einn af reyndustu og farsælustu skipstjórum íslenska flotans og skip undir hans stjórn hafa árum saman skilað mestu aflaverðmæti allra íslenskra fiskiskipa.“

Nýtt kynningarmyndband Samherja og Ice Fresh Seafood

Samherji og Ice Fresh Seafood kynna myndbandið:
THE QUEST FOR QUALITY - From Catch to table
Þetta er annað þriggja kynningarmyndbanda sem gerð hafa verið fyrir Samherja og Ice Fresh Seafood. Myndböndin voru frumsýnd á sjávarútvegssýningunni í Brussel fyrr á þessu ári en um nýjung er að ræða í kynningarmálum félaganna.

Farsæll rekstur Samherja á árinu 2016

"Við erum stolt af afkomu Samherja hf. Samstillt vinna, eljusemi, dugnaður og traust starfsmanna okkar og samstarfsmanna um allan heim hefur enn á ný skilað afrakstri sem rík ástæða er til að gleðjast yfir," segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf., þegar ársuppgjör Samherja hf. fyrir árið 2016 er kynnt, að loknum aðalfundi.
Hagnaður Samherja hf. af rekstri dóttur- og samstarfsfélaga í fimmtán löndum nam 14,3 milljörðum króna. Rúmur helmingur starfseminnar er í útlöndum. Afkoma dótturfélaganna var einnig arðbær. Miklar fjárfestingar hafa staðið yfir og eru framundan og því var samþykkt á aðalfundi Samherja hf. að greiða ekki arð vegna rekstrarársins 2016.

Samherjasjóðurinn gefur skíðalyftu

Í tilefni þess að Kaldbak EA 1, hinu nýja skipi Útgerðarfélags Akureyringa, var formlega gefið nafn, við þau tímamót að 70 ár eru liðin frá því Kaldbakur EA 1, fyrsta skip Útgerðarfélags Akureyringa,  kom til landsins og að 19. ágúst sl. voru liðin 60 ár frá því að frystihús ÚA var tekið í notkun, var samfélaginu færð skíðalyfta að gjöf. Það var Helga Steinunn Guðmundsdóttir, fyrir hönd Samherjasjóðsins, sem afhenti stjórn Vina Hlíðarfjalls gjafarbréf um lyftu, bolta og vír og flutning á því til Íslands.


Samherji_gefur_skidalyftu


Formleg nafngift Kaldbaks EA 1

Hinu nýja og glæsilega skipi Kaldbaki EA 1 var formlega gefið nafn við hátíðlega athöfn kl.14.00 laugardaginn 26.ágúst. Athöfnin fór fram á Togarabryggjunni við ÚA og Kolbrún Ingólfsdóttir, einn eigenda Samherja gaf nýja skipinu nafn með formlegum og hefðbundnum hætti. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar og  Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra fluttu ávörp við þetta tilhefni og leikur Lúðrasveitar Akureyrar jók á hátíðleika athafnarinnar.


Eftir athöfnina á bryggjunni var boðið upp á veitingar í matsal ÚA.


Þar var þess minnst að 70 ár eru liðin frá því Kaldbakur EA 1 fyrsta skip Útgerðarfélags Akureyringa  kom til landsins og að 60 ár eru liðin frá því að frystihús ÚA var tekið í notkun. Af öllum þessum tilefnum færði Samherjasjóðurinn Vinum Hlíðarfjalls að gjöf Skíðalyftu, afhenta á Akureyri.


Cuxhaven NC 100 heldur í sína fyrstu veiðiferð

Cuxhaven NC 100 nýtt skip Deutsche Fischfang Union, dótturfélags Samherja í Þýskalandi hefur haldið á veiðar. Cuxhaven NC100 sem hannað er af Rolls Royce er 81,22m langt og 16m breitt, smíðað í Mykleburst skipasmíðastöðinni í Noregi. Cuxhaven er fyrsta nýsmíði Deutsche Fischfang Union í 27 ár en það skip bar einnig nafnið Cuxhaven.

Eigendur Samherja ásamt Haraldi Grétarssyni framkvæmdastjóra Deutsche Fischfang Union og Óskari Ævarssyni útgerðastjóra tóku á móti skipinu 15.ágúst sl. í Álasundi. Þá voru veiðarfæri tekin um borð og skipið gert klárt að öðru leyti. Cuxhaven hélt svo til veiða í Barentshafi 20.ágúst. Skipstjórar eru Stefán Viðar Þórisson og Hannes Kristjánsson. 

Nafngift Björgúlfs EA 312 og Fiskidagurinn Mikli

Hinu nýja skipi Samherja verður formlega gefið nafn við hátíðlega athöfn föstudaginn 11.ágúst á Fiskisúpudaginn.


Athöfnin hefst kl. 16.00 við Norðurgarðinn á Fiskidagssvæðinu á Dalvík.


Dalvíkingar og aðrir landsmenn eru hjartanlega velkomnir.


Myndband frá komu Björgúlfs EA 312 til Dalvíkur


Til hamingju með Fiskidaginn Mikla Dalvíkingar og allir landsmenn! Njótið vel!


Samherji og Ice Fresh Seafood - Nýtt kynningarmyndband

Ný kynningarmyndbönd Samherja og Ice Fresh Seafood voru frumsýnd á sjávarútvegssýningunni í Brussel í lok apríl.  Almenn ánægja er með hvernig tókst til en um nýjung er að ræða í kynningarmálum hjá Ice Fresh Seafood.  Þessi nýju myndbönd verða birt á næstu vikum og það fyrsta THE QUEST FOR QUALITY - Passion for fish products er hér  


Komu hins nýja Björgúlfs EA 312 fagnað á Dalvík

Björgúlfur EA 312, nýr ísfisktogari Samherja, kom til heimahafnar á Dalvík í gær.  Glaðir bæjarbúar fjölmenntu á bryggjuna að taka á móti hinu nýja skipi og var öllum boðið um borð að skoða. Hinn nýji Björgúlfur er sá þriðji í röðinni en fjörutíu ár eru síðan nýsmíðaður Björgúlfur eldri, sem er nú leystur af hólmi með nýja skipinu, lagðist að bryggju í heimahöfninni Dalvík. Það þótti vel við hæfi að Sigurður Haraldsson, sem var skipstjóri á báðum eldi skipunum, tæki við spottanum og batt hann landfestarnar. 


Björgúlfur EA var smíðaður í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi, er 62 metra langur og 13,5 metra breiður. Skipstjóri er Kristján Salmannsson, afleysingaskipstjóri er Markús Jóhannesson og yfirvélstjóri er Halldór Gunnarsson.