Fréttir

Þakkir til Aðalsteins Helgasonar

Aðalsteinn Helgason hefur ákveðið að láta af störfum hjá Samherja.  Aðalsteinn hefur verið einn af lykilstarfsmönnum Samherja í á þriðja áratug og mjög náinn samstarfsmaður okkar. Saman höfum við upplifað bjarta daga og farið í gegnum erfiðari tíma án þess að skugga hafi borið á samstarf okkar.  Hann hefur víða komið við í störfum sínum og oft verið falin þau viðfangsefni sem erfiðust voru úrlausnar. Hann stýrði  Strýtu, landvinnslunni á Dalvík, Síldarvinnslunni og hafði umsjón með Afríkuútgerðinni.   Um störf Aðalsteins þarf ekki að fjölyrða; þau eru einstök og hafa haft grundvallarþýðingu fyrir Samherja.


Ljúf framkoma Alla, skap hans og skemmtilegheit, sem hafa glatt okkur öll, gera hann að einstökum félaga. Hans verður saknað af okkur samstarfsmönnunum  og skarðið vandfyllt.


Við þökkum kærlega fyrir samstarfið í gegnum árin.


Þorsteinn Már Baldvinsson
Kristján Vilhelmsson 


Starfslok - Aðalsteinn Helgason


Kæra samstarfsfólk.


Í dag læt ég af störfum hjá Samherja hf.


Ég hef starfað hjá Samherja og tengdum félögum í 24 ár og fengið að takast á við fjölbreytileg og áhugaverð verkefni með afskaplega duglegu og skemmtilegu fólki. Ég minnist þessa  tíma með gleði í hjarta og við Ágústa þökkum ykkur samfylgdina og óskum ykkur alls hins besta í framtíðinni.


Aðalsteinn Helgason



Bréf til starfsmanna

Kæru starfsmenn,


Eins og ykkur er kunnugt um hefur Seðlabanki Íslands staðið fyrir umfangsmikilli rannsókn á starfsemi Samherja í vel á fimmta ár. Framganga bankans frá upphafi hefur öll verið hin grimmilegasta og gengið nærri mörgum okkar enda hefur málið verið rekið áfram af mikilli óbilgirni, hörku og oftar en ekki ósannindum.


Þegar sérstakur saksóknari felldi málið niður fyrir rétt rúmu ári síðan með ítarlegum rökstuðningi töldum við að þessu máli væri lokið enda var sérstakur saksóknari mjög afdráttarlaus í niðurstöðu sinni. Hann staðfesti að öllum gjaldeyri hefði verið skilað vegna sölu á vörum og þjónustu allt frá nóvember 2008 og sá ástæðu til að geta sérstaklega að Samherji hefði gætt þess af kostgæfni. Einnig taldi hann ekkert hæft í ásökunum Seðlabankans um óeðlilegt fiskverð í viðskiptum okkar.


Bréf Samherja hf. til bankaráðs SÍ

Þann 13. júlí sl. barst Samherja sáttarboð Seðlabankans þar sem félaginu var boðið að ljúka því máli sem bankinn hóf 27. mars 2012, með greiðslu sektar upp á 8,5 milljónir íslenskra króna. Samherji hafnaði því boði með ítarlegum rökstuðningi þann 15. ágúst sl. og var bankaráði haldið upplýstu þar um.
Þann 1. september sl. barst Samherja stjórnvaldsákvörðun Seðlabankans þess efnis að bankinn hefði ákveðið að hækka sektina upp í 15 milljónir íslenskra króna. Rétt er að geta þess að fjárhæð ætlaðs brots var á sama tíma lækkuð um rúmlega 1,2 milljónir íslenskra króna. Enginn rökstuðningur fylgdi með þessari hækkun sektarinnar.
Hér með tilkynnist að Samherji hafnar umræddri sekt og mun höfða ógildingarmál vegna framangreinds enda ásakanirnar rangar og framganga bankans frá upphafi öll hin hörmulegasta. 

Afkoma Samherja og dótturfélaga góð árið 2015

Fréttatilkynning frá Samherja hf.


Helstu atriði:



  • Hagnaður Samherja rekstrarárið 2015 var 13,9 milljarðar króna.

  • Samtals greiddi Samherji 4,3 milljarða króna til opinberra aðila á Íslandi vegna reksturs ársins 2015.

  • Tekjuskattur starfsmanna nam að auki 2,2 milljörðum 

  • Rúmur helmingur af starfsemi Samherja samstæðunnar er erlendis.

  • Samherji og dótturfélög eru með rekstur í 12 löndum og samstæðan er gerð upp í átta myntum.

  • Skuldbindingar vegna fjárfestinga sem stofnað var til árið 2015 nema um 30 milljörðum.


Samherji hf. er eignarhaldsfélag um eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum sem flest tengjast sjávarútvegi og vinnslu afurða hér á landi og erlendis. Rekstur útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi er að mestu leyti í félögunum Samherji Ísland ehf. og Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og rekstur fiskeldis er í Íslandsbleikju ehf. Starfsemi samstæðunnar er víða um heim, mest á Íslandi og í Evrópu, en einnig í Afríku og Kanada. Samstæðureikningur Samherja er settur fram í evrum. Í tilkynningunni eru fjárhæðir rekstrar umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við meðalgengi ársins 2015 sem var 146,2 krónur á hverja evru.


Samherji ræður nýjan framkvæmdastjóra Fjármála- og upplýsingarsviðs

Kæra samstarfsfólk.


Það er mér mikil ánægja að tilkynna ykkur að Samherji hf. hefur ráðið Jón Rafn Ragnarsson til starfa sem framkvæmdastjóra Fjármála- og upplýsingasviðs Samherja.


Jón er fæddur árið 1979 í Reykjavík. Hann flutti norður ungur að árum, fyrst til Húsavíkur, en síðar til Akureyrar og er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri frá árinu 1999. Útskrifaðist síðan sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 2003 og varð löggiltur endurskoðandi árið 2006. Jón Rafn hefur starfað hjá Deloitte ehf. síðustu 15 ár og varð meðeigandi frá árinu 2008. Hann hefur samhliða sínum störfum hjá Deloitte verið virkur í félagsstörfum Félags löggiltra endurskoðenda ásamt kennslu í endurskoðun og reikningshaldi hjá Háskólanum í Reykjavík frá árinu 2006. 


Maki Jóns Rafns er Ellen María Sveinbjörnsdóttir, M.sc. viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Ellen María er fædd í Arendal í Noregi árið 1975 og eiga þau saman tvö ung börn, en jafnframt á Jón Rafn tvö börn frá fyrra sambandi. Jón Rafn kemur til með að hefja störf fljótlega og fjölskyldan mun flytjast til Akureyrar í sumar. Jón mun starfa náið með Sigursteini Ingvarssyni fyrst um sinn.


Við bjóðum Jón Rafn velkominn til starfa og fjölskyldu hans hjartanlega velkomna til Akureyrar.


Kveðja,


Þorsteinn Már.


Samherji og Slade Gorton í samstarf

Slade Gorton og Samherji tilkynna í dag að félögin ætla að fara í samstarf um markaðssetningu og sölu á sjávarafurðum í Norður Ameríku. Með samstarfinu við Slade Gorton mun aðgangur Samherja að mörkuðum í Norður Ameríku aukast og að sama skapi aukast tækifæri Slade Gorton til að efla sókn til núverandi og nýrra viðskiptavina með öflugt framleiðslufyrirtæki líkt og Samherja sér við hlið.


Slade er rótgróið fjölskyldufyrirtæki, stofnað árið 1928. Fyrirtækið flytur inn, framleiðir og selur sjávarafurðir um alla Norður Ameríku og er stýrt af Kim Gorton, sem er afabarn stofnandans. Samherji verður minnihluta hluthafi í Slade Gorton.


,,Ég er spennt fyrir samstarfinu við Samherja fyrir hönd okkar hjá Slade Gorton og tel þetta vera jákvætt skref í þróun okkar reksturs“ segir Kim Gorton forstjóri Slade Gorton. „Hugmyndir og stefna Samherja falla vel að okkar hugmyndum um að bjóða viðskiptavinum aðgang að sjávarafurðum, með stýringu á flestum eða öllum þrepum í framleiðslu og dreifingu, með áherslu á sjálfbærar veiðar. Svara þannig kröfum og  auknum áhuga neytenda á uppruna fæðunnar. Gorton fjölskyldan hyggst halda áfram að viðhalda sterkum tengslum við sína viðskiptavini og mun byggja á þeim sömu gömlu hefðum sem hafa reynst okkur vel hingað til, á sama tíma og við höldum áfram að þróa fyrirtækið líkt og við gerum nú með samstarfinu við Samherja. Samherji, sem er fjölskyldufyrirtæki eins og Slade Gorton, hefur í heiðri sömu gildi og við, sömu ástríðuna fyrir því að setja hágæða sjávarafurðir á borð viðskiptavina sinna.”


Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Samherja: “Með þessari fjárfestingu í Slade Gorton teljum við okkur í Samherja vera grípa spennandi tækifæri til að vinna náið með sterku sölufyrirtæki í Norður Ameríku. Við hlökkum til að starfa með Kim og hennar samstarfsfólki og sjáum fram á aukna möguleika til að byggja upp sölu á okkar afurðum í þessum heimshluta. 


Bréf til samstarfsfólks

Ég hef tekið ákvörðun um að láta af störfum hjá Samherja hf. 


Eins og þið eflaust gerið ykkur grein fyrir þá var þetta afar erfið ákvörðun fyrir mig og okkur hjónin bæði enda hef ég ávallt verið mikill Samherjamaður og gríðarlega stoltur af því að vinna hjá þessu fyrirtæki.  Í starfi mínu hef ég tekist á við mörg spennandi og krefjandi verkefni, langflest skemmtileg en sum ekki.  Eitt af þeim verkefnum sem ekki hafa verið skemmtileg er Seðlabankamálið.  Sú árás sem gerð var á fyrirtækið og beindist síðar að mér og fleirum persónulega reyndist mér afskaplega þungbær.  Það var að sjálfsögðu mikill léttir þegar embætti sérstaks saksóknara komst að þeirri niðurstöðu í fyrrahaust að ekkert saknæmt hefði átt sér stað og tók reyndar sérstaklega fram í bréfi til mín að ljóst væri að unnið hefði verið af kostgæfni að því að skila gjaldeyri til landsins.


Þrátt fyrir þessa gleðilegu niðurstöðu hef ég ekki náð að vinna mig út úr þeirri kulnun og deyfð sem helltist yfir mig í kjölfar þessa máls.  Í dag er staðan sú að rafhlöðurnar eru gjörsamlega tómar og ljóst að það mun taka einhvern tíma að hlaða þær aftur.  Starf mitt er þess eðlis að ekki er mögulegt að hverfa af vaktinni í langan tíma og því ljóst að ný og fersk manneskja þarf að taka við boltanum.


Ég hef starfað í rúm 14 ár hjá Samherja þar sem ég hef eignast marga góða vini og ég vil þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf í gegnum öll þessi ár.  Megi sá mikli kraftur og elja sem í ykkur býr halda áfram að láta fyrirtækið Samherja vaxa og dafna um ókomna tíð.


Við Inga viljum þakka þeim frændum Þorsteini og Kristjáni fyrir þann ómetanlega skilning sem þeir sýndu þessari ákvörðun okkar og fyrir að hafa ávallt staðið þétt við bakið á okkur.  Ég mun síðan að sjálfsögðu sinna minni daglegu vinnu næstu mánuðina og aðstoða við að koma mínum eftirmanni inní starfið þegar ákvörðun þar um liggur fyrir.


Með góðri kveðju,


Sigursteinn og Inga Vala.


 


Ágæta samstarfsfólk.


Sigursteinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs,  hefur nú tilkynnt okkur að hann hafi ákveðið að láta af störfum hjá Samherja. 


Sigursteinn hóf störf hjá Samherja árið 2002 og hefur gegnt starfi fjármálstjóra frá árinu 2005. Á þessum tíma hefur Samherji hf. tekið miklum breytingum og umsvifin hafa vaxið mjög mikið. Sigursteinn hefur gegnt lykilhlutverki í vexti og viðgangi félagsins.


Við ætlum ekki að hafa mörg orð um það núna hversu mikil eftirsjá verður af Sigursteini. Hann hefur verið einstakur starfsmaður í tæp fimmtán ár. Við þekkjum öll handbrögð hans, traust, trúnað og fagmennsku. Skarðið verður vandfyllt.


Hann hefur sjálfur gert ykkur grein fyrir ástæðum þess að hann hefur kosið að láta af störfum og áhrifum þess á heiðarlegan og samviskusaman mann að sitja undir röngum sakargiftum  að ósekju árum saman.


Við þökkum Sigursteini kærlega fyrir vel unnin störf, fyrir hans persónulega framlag og fyrir að vera góður vinur. Við viljum líka þakka Ingu Völu fyrir allan hennar stuðning og vináttu í gegnum tíðina sem aldrei hefur fallið skuggi á.


Við munum kveðja Sigurstein með viðeigandi hætti þegar hann hættir formlega eftir einhverjar vikur og eiga með honum góða stund.


Það verður eftirsjá fyrir starfsmenn Samherja af Sigursteini en vináttan mun haldast.


Kveðja,


Þorsteinn Már Baldvinsson


 Kristján Vilhelmsson


 


Samherji efstur á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki

Framurskarandi_Samherji


Nýtt og glæsilegt húsnæði tekið í notkun hjá ÚA

Í nóvember sl.hófst starfssemi í nýju og glæsilegu húsnæði Útgerðarfélags Akureyringa. Eitt ár leið frá því ákveðið var að rífa gamla bragga og reisa hið nýja húsnæði, þar til það var tilbúið til notkunar.  „Nýja húsnæðið er mjög góð viðbót við vinnsluna hér. Húsnæðið er hannað til að mæta ýtrustu kröfum fyrir framtíðar fiskvinnslu. Það er hátt til lofts og vítt til veggja.  Í húsinu eru nýjar sjálfvirkar pökkunarlínur fyrir bæði ferskar og frosnar afurðir auk hitastýrðs afgreiðslurýmis sem bættir vörumeðhöndlun til muna. Það er mikið af nýjum tækjabúnaði sem tekur tíma að stilla saman og læra á, en starfsfólkið hefur verið mjög jákvætt og ákveðið í að láta hlutina ganga," segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja.


Þann 20.desember var styrkveitingarathöfn Samherjasjóðsins haldin í nýja húsinu og bæjarbúum var gefinn kostur á að skoða nýju vinnsluna. Við það tilefni sagðist Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja á margan hátt sáttur við árið sem er að líða. „Með þessari nýju byggingu, samhliða breytingum á vinnslunni, förum við í stórum skrefum inn í breytta framtíð þar sem möguleikar okkar til að þjóna viðskiptavinum okkar með fjölbreyttari afurðir eru orðnir mun meiri en áður