Samherji hf. eykur þátttöku sína í sjávarútvegi í Evrópusambandinu
Almennt
07.09.2004
Fréttatilkynning frá Samherja: Stjórn Samherja hf. samþykkti á fundi sínum í dag að kaupa 65% hlutafjár í þýska útgerðarfélaginu CR Cuxhaven Reederei GmbH, en fyrir átti félagið 35% eignarhlut í félaginu. Kaupverð nemur 17,3 milljónum evra. Jafnframt samþykkti stjórnin kaup dótturfyrirtækisins Onward Fishing Company Ltd. á 50% hlut í Boyd Line Ltd í Hull. Kaupverð 50% hlutar í Boyd Line nemur um 6,5 milljónum punda. Veiðiheimildir þeirra fjögurra fyrirtækja í Evrópusambandinu sem Samherji á nú aðild að nema um 20 þúsund þorskígildistonnum og er helmingur þessara veiðiheimilda eða um 10 þúsund tonn þorskur. Til samanburðar má geta að veiðiheimildir Samherja á Íslandsmiðum nema um 25 þúsund þorskígildistonnum.