Fréttir

Saga Akureyrinnar

1.maí árið 1983 sigldi Guðsteinn GK ( Akureyrin EA) inn Eyjafjörð og hófst þar með saga Samherja í eigu núverandi eigenda. Við minnumst þessara tímamóta með því að sýna hér á heimasíðunni þessar skemmtilegu myndir og frásagnir af upphafsdögunum.

Í tilefni af 30 ára afmælinu árið 2013 var sett af stað vinna við að safna saman efni í sögu félagsins. Hluti þess efnis var sýndur á myndasýningu sem sett var upp á árshátíð Samherja, á Glerártorgi á Akureyri og á Fiskideginum Mikla á Dalvík það ár. Sá hluti þeirrar sýningar sem var um fyrsta skipið Akureyrina, er nú sýnilegur hér.

Veiddu fullfermi af kolmunna eftir átta sólarhringa bið á miðunum

Margret EA 710, uppsjávarskip Samherja, sigldi inn Norðfjörð á mánudag til löndunar á 2.000 tonnum af kolmunna sem veiddust syðst í efnahagslögsögu Færeyja. Þetta var óvenjulegur túr því áhöfn Margretar þurfti að bíða í átta sólarhringa úti á sjó áður en veiðar hófust.

Aukin afkastageta í fiskeldisstöð Samherja í Grindavík

Um þessar mundir standa yfir framkvæmdir við fiskeldisstöð Samherja á Stað við Grindavík. Verið er að bora í þrjár nýjar sjóholur í hrauninu við stöðina.
Um er að ræða talsverða fjárfestingu til að auka afkastagetu stöðvarinnar. Tilgangurinn er að tryggja betur vatnsbúskapinn eftir stækkanir síðustu ára og undirbúa næsta áfanga stækkunar. Á Stað við Grindavík starfrækir Samherji bæði seiðastöð og áframeldi fyrir bleikju.

Polonus landaði á Akureyri fullfermi af rækju úr Smugunni

Frystitogarinn Polonus Gdy, sem er í eigu Deutsche Fischfang Union (DFFU) í Cuxhaven, dótturfélags Samherja, landaði fullfermi af rækju og blönduðum afla á Akureyri í síðustu viku en aflinn var veiddur norðarlega í Smugunni. Það er ár síðan skipið landaði síðast á Íslandi.

Harengus siglir með 4.000 tonn gegnum Magellansund

Harengus, annað flutningaskipa Samherja, er um þessar mundir að lesta í San Vicente í Chile 4.000 tonnum af uppsjávarfiski sem á að fara á markað í Nígeríu. Skipið, sem er í leiguverkefnum hjá Green Sea í Belgíu, sigldi í gegnum Magellansund á leiðinni vestur fyrir Suður-Ameríku og var öll siglingin fest á filmu.
Það þótti viðeigandi að mynda ferðalagið þar sem að á þessu ári eru liðin 500 ár frá landafundum portúgalska landkönnuðarins Ferdinand Magellan. Það var í október 1520 sem Magellan fann sundið milli Atlantshafs og Kyrrahafs og fékk það síðar nafnið Magellansund. Magellan fór þar fyrir fyrstu hnattsiglingunni en náði þó ekki að ljúka henni því hann lést áður en það tókst að loka hringnum.

Samherja Holding veitt undanþága frá tilboðsskyldu í Eimskip

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veitti í dag Samherja Holding, systurfélagi Samherja, undanþágu frá tilboðsskyldu í Eimskipafélag Íslands hf. Það er niðurstaða eftirlitsins að núverandi aðstæður á fjármálamarkaði í ljósi Covid-19, bæði hér á landi og í heiminum öllum, séu með þeim hætti að skilyrði laga um verðbréfaviðskipti um sérstakar aðstæður séu uppfyllt.

Markaðir snarbreyst á tveimur vikum

Markaðir fyrir ferskar sjávarafurðir hafa snarbreyst á aðeins tveimur vikum og útflutningur á ferskum fiski er aðeins um fjórðungur af því sem hann var áður en Covid-19 faraldurinn hófst. Þá er óvissa um hvernig markaðir munu þróast á næstunni. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bréfi sem Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, sendi áhöfnum á skipum í útgerðarflota fyrirtækisins á dögunum. Kristján hvetur sjómenn til dáða í bréfinu og segir að Samherji hafi alltaf getað treyst á sjómenn að skila sínu óháð aðstæðum. Hann fer einnig yfir þau margþættu áhrif sem faraldurinn hefur haft á rekstur Samherja og hvernig starfsfólk hefur aðlagað sig að breytingum sem ráðist hefur verið í vegna krafna um sóttvarnir.

Þorsteinn Már kemur aftur til starfa

Stjórn Samherja ákvað í dag að Þorsteinn Már Baldvinsson snúi aftur til starfa og verði forstjóri við hlið Björgólfs Jóhannssonar sem gegnir forstjórastarfi sínu áfram þar til annað verður ákveðið.

Hólmadrangur tekur þátt í frumkvöðlaverkefni á Vestfjörðum

Rækjuvinnslan Hólmadrangur ehf., dótturfélag Samherja, er þátttakandi í nýsköpunarsamkeppninni „Hafsjór af hugmyndum“ á vegum Sjávarklasa Vestfjarða og Vestfjarðastofu.

Um er að ræða keppni í nýsköpun á sviði sjávarútvegs en markmið keppninnar er að hvetja starfandi fyrirtæki, frumkvöðla og nemendur til nýsköpunar, skapa ný störf í sjávarútvegi á Vestfjörðum, auka verðmætasköpun í ólíkum greinum sjávarútvegs og bæta nýtingu hráefnis.


Samherji Holding óskar eftir undanþágu frá yfirtökuskyldu í Eimskip

Samherji Holding ehf., systurfélag Samherja, hefur sent fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands erindi þar sem félagið óskar eftir undanþágu frá yfirtökuskyldu eftir að félagið fór yfir mörk 30% eignarhlutar í Eimskip.