Fréttir

Uppspuni í Ríkisútvarpinu

Í morgun fullyrti Helgi Seljan í morgunútvarpi Rásar 2 að yfir „þúsund störf“ hefðu tapast í Walvis Bay í namibískum sjávarútvegi vegna Samherja. Engar frekari skýringar fylgdu þessari fullyrðingu Helga. Það kemur kannski ekki á óvart því um gróf ósannindi er að ræða.
Namibískur sjávarútvegur er fjölbreyttur og eru margar ólíkar tegundir veiddar við strendur landsins. Félög tengd Samherja hafa einungis tekið þátt í uppsjávarveiðum í namibísku efnahagslögsögunni og er þar aðallega um að ræða veiðar á hestamakríl.
Árið 2011 var úthlutunarreglum breytt á uppsjávartegundum í Namibíu. Ákveðið var að færa um 25% af aflaheimildum í uppsjávarfiski í hendur namibískra félaga og einstaklinga, aðallega frá fyrirtækjum í Suður-Afríku sem höfðu haft heimildirnar. Eftir úthlutun aflaheimilda leituðu ákveðnir aðilar í namibískum sjávarútvegi eftir samstarfi við félag tengt Samherja um veiðar á þeim aflaheimildum sem þeir höfðu yfir á að ráða. Önnur namibísk félög, sem fengu úthlutað aflaheimildum, sömdu við útgerðarfélög frá Kína, Hollandi og Rússlandi.
Alls voru 95% af veiddum afla í uppsjávarfiski fryst úti á sjó. Engin breyting varð á þessu milli áranna 2011 og 2012. Það má því segja að fjöldi starfa í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski í  namibískum sjávarútvegi hafi haldist óbreyttur þótt störfin hafi flust á milli fyrirtækja og skipa eftir að breytingar urðu á úthlutun heimilda. Það er því ljóst að sú fullyrðing að „þúsund störf“ hafi tapast í namibískum sjávarútvegi vegna innkomu félags sem tengist Samherja, er þvættingur. 
Hlutfall Namibíumanna í áhöfnum þeirra skipa sem félög tengd Samherja hafa gert út í namibísku efnahagslögsögunni hefur fjölgað jafnt og þétt og er í dag um 60%. Sem dæmi voru hundrað manns í áhöfn Heinaste. Af þessum hundrað voru að jafnaði fjórir áhafnarmeðlimir með íslenskt ríkisfang en aðrir í áhöfninni frá Namibíu og Austur-Evrópu. 
Að framansögðu virtu er ljóst að Helgi Seljan sagði ósatt í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og eru ummæli hans eingöngu til þess fallin að valda Samherja tjóni. Ummælin sýna kannski best hversu frjálslega fréttamenn Ríkisútvarpsins fara með staðreyndir.

Myndir frá forstjóraskiptum

Myndir frá því að Björgólfur Jóhannsson tekur við stöðu forstjóra Samherja er Þorsteinn Már Baldvinsson stígur tímabundið til hliðar.

Harðbakur kominn heim til Akureyrar

Hinn nýji togari Harðbakur EA 3 kom heim til Akureyrar laugardaginn 9.nóvember sl. Myndirnar tók Þórhallur Jónsson/ Pedrómyndir

Hörður kokkur kveður

Hörður Héðinsson kokkur lauk giftusamlegum ferli sínum um borð í skipum Samherja um miðjan september sl.

Hörður hóf störf hjá Samherja 24. júní 2005 á Akureyrinni EA 110 ( nú Snæfell EA 310) hjá skipstjóranum Guðmundi Frey Guðmundssyni. Árið 2006 fór Hörður yfir á Björgúlf EA 312 (nú Hjalteyrin EA 306) og var þar til ársins 2007 þegar Oddeyrin EA 210 kom. Fylgdi hann Guðmundi Frey um borð í Oddeyrina og var þar til ársins 2017, er hún var seld. Fór hann þá tímabundið um borð í Björgvin EA þar til ný Björg EA 7 var tilbúin. Hörður var í áhöfninni sem sigldi Björgu EA heim frá Tyrklandi og lauk starfsferlinum á því skipi.

Forstjóri Samherja stígur tímabundið til hliðar meðan á rannsókn stendur

Forstjóri og stjórn Samherja hafa komist að samkomulagi um að forstjóri félagsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, stígi tímabundið til hliðar þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.

Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair Group, hefur tekið tímabundið við stöðu forstjóra Samherja. Á komandi dögum mun Björgólfur leggja áherslu á að hitta starfsfólk og helstu hagsmunaaðila.

Yfirstandandi rannsókn, sem er í höndum alþjóðlegu lögmannsstofunnar Wikborg Rein, mun halda áfram og mun Wikborg Rein heyra beint undir stjórn félagsins.

„Hjá Samherja starfa um 850 manns á Íslandi og fjöldi manns erlendis. Við tökum þetta mikilvæga skref til að tryggja sem best hlutleysi rannsóknarinnar. Við viljum stunda heiðarleg viðskipti og leggjum okkur fram um að starfa í samræmi við gildandi lög og reglur”, segir Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja.

Yfirlýsing frá Samherja vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins

Vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins um starfsemi Samherja í Namibíu vill Samherji koma eftirfarandi á framfæri:

„Það voru okkur mikil vonbrigði að komast að því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Samherjafélaganna í Namibíu, virðist hafa tekið þátt í gagnrýniverðum viðskiptaháttum og hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunna að vera ólögmæt,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, eftir þátt Ríkisútvarpsins þar sem margvíslegar ásakanir komu fram á hendur fyrirtækinu.

Jóhannesi Stefánssyni var sagt upp störfum á árinu 2016 eftir að hann misfór með fé og hegðaði sér með óforsvaranlegum hætti. Nú hefur hann viðurkennt að hafa tekið þátt í ólöglegri starfsemi á meðan hann stýrði dótturfélögum Samherja í Namibíu.

Harðbakur afhentur

Harðbakur EA 3 hinn nýji togari Útgerðarfélags Akureyringa hefur verið afhentur eigendum sínum  í Noregi. Í kjölfarið á uppgjöri við Vard-Aukra skipasmíðastöðina var Íslenski fáninn dreginn að húni og gert er ráð fyrir að skipið sigli af stað til heimahafnar í dag. Áætlað er að siglingin heim taki um þrjá og hálfan sólarhring. Skipstjóri á Harðbak er Hjörtur Valsson og yfirvélstjóri er Friðrik Karlsson.
Slippurinn á Akureyri tekur við skipinu þegar heim er komið og settur verður vinnslubúnaður um borð.  Stefnt er að því að Harðbakur hefji veiðar í byrjun nýs árs.

Traustur rekstur Samherja á árinu 2018

„Samherji skilaði góðri rekstrarniðurstöðu á árinu 2018.  Árið var að sumu leyti sérstakt fyrir okkur. Þetta er fyrsta heila árið sem Samherji gerir ekki út neinn bolfiskfrystitogara frá Íslandi. Félagið hóf rekstur með einum frystitogara og þeir hafa í gegnum tíðina gegnt veigamiklu hlutverki í rekstri okkar þannig að þetta er mikil breyting á fyrirtækinu. Sjófrystingu á uppsjávarfiski lauk einnig á árinu með sölu á Vilhelm Þorsteinssyni EA sem hefur verið eitt fengsælasta skip Íslandssögunnar".

Nýr togari sjósettur í dag

Nýr togari Útgerðarfélags Akureyringa, sem hefur verið í smíðum hjá skipasmíðastöðinni Vard-Aukra í Noregi, var sjósettur í dag.
Samningur um smíðina var undirritaður í lok nóvember árið 2017. Skipið er hannað af Vard samsteypunni í Noregi í samvinnu við eigendur og er eitt af sjö skipum sem fjórar íslenskar útgerðir tóku sig saman um að láta smíða.
Skipin eru 28,95 metra löng og 12 metrar á breidd og eru smíðuð samkvæmt íslenskum reglum og kröfum flokkunarfélagsins  DNV GL.
Nýji togarinn mun hljóta nafnið Harðbakur og fær skrásetningarnúmerið EA 3. Þetta nafn og númer hafa togarar ÚA áður farsællega borið.
Áætluð afhending togarans frá Vard-Aukra er um miðjan október og siglir skipið þá til heimahafnar. Þar tekur Slippurinn Akureyri við því og settur verður um borð vinnslubúnaður, sem þar verður smíðaður. Áætlað er að Harðbakur hefji veiðar í byrjun nýs árs.

Til starfsmanna

Kæru samstarfsmenn í Samherja.
Í morgun komst ég óheppilega að orði við seðlabankastjóra í hita leiksins í húsakynnum Alþingis. Orðaval mitt var ekki sæmandi og hefði ég gjarnan kosið að hafa valið kurteislegri orð. Í rétt sjö ár hefur Samherji setið undir ásökunum seðlabankans. Engin stoð hefur verið fyrir ásökunum bankans allan þennan tíma. Þetta hefur óneitanlega tekið á okkur öll sem þykir vænt um fyrirtækið, fjölskyldur okkar og starfsmenn.
Þegar við héldum að loks væri runnin upp sú stund að afsökunarbeiðni kæmi frá seðlabankanum var enn haldið áfram að réttlæta aðfarirnar. Við þær aðstæður fannst mér óviðeigandi að seðlabankastjóri nálgaðist föður minn kumpánlega og bað ég bankastjórann um að láta það ógert. Orðalagið við það tilefni gekk of langt. Mér þykir það leitt og vona að Alþingi og þið liðsfélagar mínir virðið mér þetta til vorkunnar.
Baldvin Þorsteinsson