Fréttir

Komið með alla hausa að landi

Nýverið var ýtt úr vör verkefni á frystitogurum Samherja sem gengur út á að hirða alla þorskhausa sem til falla við vinnsluna. Þeir eru frystir um borð og þegar í land er komið fara þeir til vinnslu í hausaþurrkun félagsins á Hjalteyri og Dalvík. Einnig hafa hausarnir verið fluttir út frosnir.

Samherji styrkir Þroskahjálp

Fyrir síðustu jól tóku stjórnendur Samherja hf. ákvörðun um að senda ekki út jólakort heldur yrði andvirði þeirra notað í þágu góðs málefnis. Sami háttur verður hafður á fyrir þessi jól og mun andvirði jólakortanna renna til styrktar starfi Þroskahjálpar á Norðurlandi eystra.

Samherji auglýsir eftir gæðastjóra

Samherji hf. hefur auglýst eftir að ráða gæðastjóra til starfa á Akureyri. Viðkomandi ber ábyrgð á gæðamálum fyrirtækisins, með áherslu á rækjuverksmiðju félagsins. Um er að ræða fjölbreytt starf hjá stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, enda nær starfsemi Samherja sem kunnugt er yfir öll svið sjávarútvegs, allt frá veiðum að borði neytandans.

Tilkynning um kaup á eigin hlutabréfum

Neðangreint bréf hefur verið sent hluthöfum Samherja hf.:Kæri hluthafi. Stjórn Samherja hf. samþykkti á stjórnarfundi þann 28. nóvember s.l. að nýta að hluta til heimild sína frá síðasta aðalfundi, sem haldinn var 10. apríl 2001, til kaupa á eigin bréfum. Samþykkt var að kaupa hlutabréf að nafnverði allt að kr. 66.235.681 af hluthöfum á genginu 10,1 eða fyrir kr. 668.980.381. Félagið býðst því til að kaupa 4% af hlutabréfaeign þinni á áðurnefndu gengi. Kaupin miðast við hlutafjáreign þína í lok viðskiptadags þann 6. desember 2001. Heildarhlutafé Samherja hf. í dag er kr. 1.660.000.000 og þar af á félagið sjálft eigin bréf að nafnvirði kr. 4.107.968. Ástæðan fyrir þessum kaupum er sú skoðun stjórnar félagsins að æskilegt sé fyrir félagið að eiga eigin hlutabréf ef fjárfestingakostir bjóðast. Viljir þú nýta þér þetta tilboð þá vinsamlegast fylltu út meðfylgjandi eyðublað og sendu Íslenskum verðbréfum hf. Skipagötu 9, 600 Akureyri, sem annast umsýslu á viðskiptunum, fyrir 17. desember n.k. Gert er ráð fyrir að greiðslur skv. tilboði þessu fari fram í síðasta lagi 21. desember n.k. Það skal tekið fram að þeir hluthafar sem nýta sér þetta tilboð greiða engan viðskiptakostnað vegna viðskiptanna. Til að hægt sé að ganga frá viðskiptunum er nauðsynlegt að meðfylgjandi vörslusamningur sé fylltur út og sendur til Íslenskra verðbréfa hf. ásamt meðfylgjandi eyðublaði. Virðingarfyllst, f.h. Samherja hf. Þorsteinn Már Baldvinsson

Afkoma Samherja hf. fyrstu níu mánuði ársins:

Hagnaður Samherja 269 milljónir króna -Veltufé frá rekstri nam 2.059 milljónum króna Rekstur Samherja gekk vel fyrstu níu mánuði ársins. Rekstrartekjur námu 9.325 milljónum króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 2.579 milljónum króna. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 1.469 milljónir króna á tímabilinu og áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 101 milljón króna. Að teknu tilliti til skatta og annarra gjalda og tekna nam hagnaður tímabilsins 269 milljónum króna. Veltufé frá rekstri var 2.059 milljónir króna.

Met í rækjuvinnslunni

Rækjuvinnsla Samherja á Akureyri hefur gengið mjög vel á árinu. Í liðinni viku höfðu verið framleidd 2.900 tonn frá áramótum sem er jafn mikið og félagið hefur áður framleitt á heilu ári. Ljóst er að framleiðsla yfirstandandi árs verður vel yfir 3.000 tonn. Þetta er enn athyglisverðara í ljósi þess að nú rekur félagið eina rækjuverksmiðju en þegar gamla metið var sett, árið 1995, voru verksmiðjurnar tvær. 

Framleiðslumetið á Dalvík tvíbætt

Vinnsla í frystihúsi Samherja á Dalvík hefur gengið mjög vel að undanförnu. Í síðustu viku var framleiðslumet ársins t.d. bætt í tvígang, fyrst á miðvikudaginn þegar unnið var úr 37,4 tonnum af hráefni og síðan aftur daginn eftir en þá voru unnin 37,5 tonn. Að sjálfsögðu var starfsfólki boðið upp á rjómatertu báða dagana af þessu tilefni.

Síldarfrysting hafin í Grindavík:

Skapar mun meiri verðmætiSíldarfrysting er hafin hjá Samherja í Grindavík. Þetta er í fyrsta sinn sem síld er fryst hjá fyrirtækinu en frysting skapar mun meiri verðmæti en bræðsla. Allt að 40 manns munu starfa við frystinguna þegar hún verður komin í fullan gang.

Sást til sólar á Stöðvarfirði!

Margrét EA kom til Stöðvarfjarðar í gærmorgun með um 50 tonn af þorski. Bróðurpartur aflans fór til vinnslu í frystihúsi Samherja á staðnum. Margrét hélt síðan aftur til veiða upp úr hádegi. Í gærmorgun sást til sólar á Stöðvarfirði sem ekki hefur gerst u.þ.b. tvo mánuði. „Nú er því mikið léttara yfir bæjarbúum og við reiknum með hafa fengið okkar skerf af votviðrinu í bili," segir Magnús Helgason, frystihússtjóri Samherja.

Stöðug vinnsla á Stöðvarfirði

Stöðug vinnsla hefur verið í frystihúsi Samherja hf. á Stöðvarfirði að undanförnu en þar starfa að jafnaði 30 manns. Þar er unninn bolfiskur og sjá ísfiskskip Samherja um að afla hráefnis til vinnslunnar.