Fréttir

Síldarfrysting hafin í Grindavík:

Skapar mun meiri verðmætiSíldarfrysting er hafin hjá Samherja í Grindavík. Þetta er í fyrsta sinn sem síld er fryst hjá fyrirtækinu en frysting skapar mun meiri verðmæti en bræðsla. Allt að 40 manns munu starfa við frystinguna þegar hún verður komin í fullan gang.

Sást til sólar á Stöðvarfirði!

Margrét EA kom til Stöðvarfjarðar í gærmorgun með um 50 tonn af þorski. Bróðurpartur aflans fór til vinnslu í frystihúsi Samherja á staðnum. Margrét hélt síðan aftur til veiða upp úr hádegi. Í gærmorgun sást til sólar á Stöðvarfirði sem ekki hefur gerst u.þ.b. tvo mánuði. „Nú er því mikið léttara yfir bæjarbúum og við reiknum með hafa fengið okkar skerf af votviðrinu í bili," segir Magnús Helgason, frystihússtjóri Samherja.

Stöðug vinnsla á Stöðvarfirði

Stöðug vinnsla hefur verið í frystihúsi Samherja hf. á Stöðvarfirði að undanförnu en þar starfa að jafnaði 30 manns. Þar er unninn bolfiskur og sjá ísfiskskip Samherja um að afla hráefnis til vinnslunnar.

Breytingar ráðgerðar á Þorsteini EA

Í undirbúningi er að ráðast í breytingar á fjölveiðiskipinu Þorsteini EA þannig að um borð verði settur fullkominn búnaður til vinnslu og frystingar á síld og kolmunna. Ef áætlanir ganga eftir mun þetta gerast að lokinni loðnuvertíð næsta vor.

Sæblikinn ehf. gerir samning við Bauckman OY

Í dag kl. 16:00 var undirritaður samningur á milli Sæblikans ehf. og finnska fyrirtækisins Bauckman OY um sölu á um 20.000 tunnum af saltsíld til Finnlands. Bauckman OY er stórt á sínu sviði og hefur um 50% hlutdeild á finnska markaðinum fyrir saltsíld. Þær 20.000 tunnur sem hér um ræðir láta nærri að vera um fjórðungur af ársframleiðslunni hérlendis.

Samherji eykur hlut sinn í Íslandslaxi hf.

Með vísan til 26. gr. laga nr. 34/1998 tilkynnist hér með að Samherji hf. hefur í dag keypt 14,7% eignarhlut í Íslandslaxi hf. í Grindavík og nemur kaupverð eignarhlutans 51 milljón króna. Fyrir kaupin átti Samherji 68 milljónir króna að nafnverði í Íslandslaxi en á nú 88 milljónir króna að nafnverði, eða 64,7% alls hlutafjár í félaginu.

Árshlutareikningur Samherja hf.:

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði ríflega tvöfaldaðist á milli ára –en félagið gert upp með tapi vegna umtalsverðs gengistapsRekstur Samherja gekk mjög vel á fyrri hluta ársins og var fjármunamyndun frá rekstri meiri en nokkru sinni fyrr í sögu félagsins. Veltufé frá rekstri nam 1.150 milljónum króna hjá samstæðunni, samanborið við 563 milljónir á sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.612 milljónum króna og er um meira en tvöföldun að ræða á milli ára. Hins vegar voru hreinir fjármagnsliðir neikvæðir um tæpar 1.300 milljónir króna á tímabilinu, og er félagið gert upp með 345 milljóna króna tapi á tímabilinu.

Samherji og Síldarvinnslan stofna sölufyrirtækið Sæblik

Samherji hf. og Síldarvinnslan hf. hafa stofnað hlutafélagið Sæblik og á hvort félag 50% hlut í hinu nýja félagi. Tilgangur Sæbliks hf. er að annast sölu á öllum frosnum og söltuðum síldar-, loðnu- og kolmunnaafurðum félaganna tveggja sem að því standa. Þar er Japansmarkaður þó undanskilinn og munu Samherji og Síldarvinnslan áfram nýta þar þau viðskiptatengsl sem fyrir hendi eru, án atbeina Sæbliks hf.

Gústaf Baldvinsson ráðinn framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Samherja hf.

Gústaf Baldvinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Samherja hf. Um er að ræða nýtt starf hjá Samherja en veruleg aukning í umsvifum félagsins á hinum ýmsu sviðum sjávarútvegs hafa kallað á markvissara stjórnskipulag innan þess. Ráðning Gústafs í starf framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs er liður í því auk þess sem hún styrkir stöðu Samherja enn frekar á núverandi mörkuðum félagsins.

Afkoman versnað um hálfan milljarð á einum mánuði

Á stjórnarfundi Samherja hf. í gær var kynnt óendurskoðað uppgjör móðurfélagsins fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins. Samkvæmt uppgjörinu nemur tap á rekstri félagsins 252 milljónum króna samanborið við 241 milljónar króna hagnað eftir fyrstu 3 mánuði ársins. Afkoman hefur þannig versnað um tæpan hálfan milljarð á einum mánuði og má rekja breytinguna til lækkunar á gengi íslensku krónunnar og verkfalls sjómanna.Á aðalfundi Samherja í byrjun apríl sl. var greint frá rekstraráætlunum félagsins fyrir árið 2001, sem unnar voru í árslok 2000. Þar kom fram að áætlanir gerðu ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði yrði um 2.175 milljónir króna og hagnaður ársins fyrir skatta yrði um 860 milljónir króna. Ennfremur kom fram að í rekstraráætluninni væri gert ráð fyrir að gengi íslensku krónunnar yrði óbreytt á árinu og að ekki kæmi til verkfalls sjómanna. Nú er ljóst að gengi íslensku krónunnar hefur fallið um 16% frá áramótum og að skip félagsins hafa verið frá veiðum vegna sjómannaverkfalls í 50 daga á árinu, þar með talinn allur aprílmánuður. Því er ljóst að félagið verður rekið með verulegu tapi á fyrri hluta árs 2001. Á móti kemur að fari verðlagsþróun ekki úr böndum má ætla að afkoma félagsins batni á næstu misserum vegna þeirrar hækkunar sem orðið hefur á erlendum gjaldmiðlum. Engu að síður er ljóst að heildarafkoma ársins verður mun lakari en kynnt var á aðalfundi félagsins. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) verður hins vegar að öllum líkindum ekki langt frá því sem áætlað var. Nettóskuldir félagsins um síðustu áramót voru um 6 milljarðar króna og þann 30. apríl sl. námu þær 6,4 milljörðum króna. Miðað við þær gengisbreytingar sem orðið hafa má gera ráð fyrir að velta móðurfélagsins á ársgrundvelli verði tæpir 11 milljarðar króna. Það er því ljóst að hlutfall skulda miðað við veltu er tiltölulega hagstætt hjá Samherja. Fréttatilkynning frá Samherja hf. miðvikudaginn 6. júní 2001. Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.