Um helmingur frystra afurða Samherja á þessu ári fluttur með leiguskipum
23.10.2003
Það sem af er þessu ári hefur Samherji flutt út um tólf þúsund tonn af frystum afurðum, bæði bolfisk- og uppsjávarafurðum, með flutningaskipum sem félagið hefur leigt til flutninga á sjávarafurðum frá Íslandi til hafna í Evrópu. Eitt af þessum skipum, Green Snow, er nú í Neskaupstað þar sem stefnt er að því að ljúka við lestun skipsins annað kvöld, en fulllestað tekur það um 1.850 tonn. Áður hafði Green Snow haft viðkomu í Grindavík, þar sem skipað var út 425 tonnum, og á Reyðarfirði, þar sem skipað var út tæplega 300 tonnum. Uppistaðan í farminum er síldarflök, en einnig bolfiskafurðir.

