Fréttir

Stímvaktin komin út

Út er komið fréttabréfið Stímvaktin, fréttir frá Samherja hf., 1. tbl. 6. árg. Blaðinu verður dreift inn á öll heimili og til fyrirtækja á Eyjafjarðarsvæðinu auk hluthafa félagsins. Í fréttabréfinu er meðal annars sagt frá rekstrarafkomu Samherja fyrstu þrjá mánuði þessa árs, farið ítarlega yfir starfsemi fyrirtækisins í landi og fjallað um breytingar og endurnýjun á skipastól félagsins. Stímvaktin er einnig aðgengileg á pdf-formi hér...

Framleiðslumet sett í Strýtu

Nýtt framleiðslumet í rækjuvinnslunni var sett í liðinni viku þegar framleidd voru rúm 105 tonn af pillaðri rækju. Aðeins tvisvar áður hefur vikuframleiðslan farið yfir 100 tonn, mest 103 tonn í mars á þessu ári.

Stór og fallegur kolmunni

Fyrsti kolmunnafarmurinn sem landað er á Suðurnesjum á þessu ári kom til verksmiðju Samherja í Grindavík á mánudag. Það var Bergur VE sem landaði í Grindavík 1.200 tonnum af kolmunna sem fengust á fjórum sólarhringum í Rósagarðinum og á Hvalbakssvæðinu austur af landinu. 

Sjómannadagurinn 2002

Það verður mikið um dýrðir á Akureyri um helgina eins og alltaf í kringum sjómannadaginn, hátíðahöld bæði á laugardag og sunnudag. Skip Samherja eru að tínast í land eitt af öðru fyrir helgina.

Fyrsta síldin á leið í land

Vilhelm Þorsteinsson EA-11 er væntanlegur inn til löndunar á Neskaupstað í nótt (aðfaranótt miðvikudags 29. maí) eftir níu daga veiðiferð. Aflinn er um 500 tonn af frystum síldarflökum og er þetta fyrsta síldin úr norsk-íslenska síldarstofninum sem skip Samherja landa á þessari vertíð. Þetta magn samsvarar um 1.000 tonnum af síld uppúr sjó.

Samherji kaupir í SR-mjöli

Samherji hf. hefur í dag keypt hlutabréf í SR-mjöli hf. að nafnverði ríflega 97 milljónir króna. Eignarhlutur Samherja í SR-mjöli er eftir kaupin 12,86% eða tæpar 159 milljónir króna að nafnverði. Viðskiptin hafa verið tilkynnt á Verðbréfaþingi Íslands.

Hagnaður Samherja 1.056 milljónir króna

Þriggja mánaða uppgjör Samherja hf.:Samherji hf. var rekinn með 1.056 milljón króna hagnaði fyrstu 3 mánuði ársins 2002 sem er um 928 milljónum króna betri afkoma en á sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er 1.238 milljónir króna, eða 32% af rekstrartekjum samanborið við 26% á sama tíma í fyrra. Veltufé frá rekstri nam 1.116 milljónum króna á tímabilinu en var 713 milljónir fyrstu þrjá mánuði ársins 2001.

Gengið frá skipaskiptum hjá Samherja

Samherji hf. hefur gengið frá sölu Baldvins Þorsteinssonar EA-10 til Deutsche Fishfang Union GmbH (DFFU) í Þýskalandi og kaupum á Hannover NC í hans stað. Söluverð Baldvins Þorsteinssonar er 600 milljónir króna og nemur söluhagnaður um 160 milljónum. Kaupverð Hannover er um 850 milljónir króna.

Baldvin NC 100 heldur til veiða


Árangursrík sýning í Brussel

Dagana 23.-25. apríl tók Samherji hf. þátt í sjávarútvegssýningunni í Brussel, European Seafood Exhibition, með ágætum árangri. Þetta er í annað sinn sem Samherji tekur þátt en fulltrúar frá fyrirtækinu hafa sótt sýninguna frá upphafi.