Fréttir

Handvaldir tölvupóstar

Undanfarið hefur Samherji látið kanna þau gögn sem Wikileaks hefur birt um félagið en þar er aðallega um að ræða mikið magn tölvupósta úr pósthólfi Jóhannesar Stefánssonar. Þetta eru þau gögn sem fjölmiðlar hafa stuðst við í umfjöllun um starfsemi félaga sem tengjast Samherja í Namibíu.

Jóhannes hafði að minnsta kosti 44.028 tölvupósta í pósthólfi sínu milli áranna 2014 og 2016. Hann afhenti Wikileaks 18.497 tölvupósta frá þessu tímabili sem þýðir að hann afhenti aðeins 42% af tölvupóstunum. Flestir þeirra pósta sem Jóhannes afhenti ekki eru frá árinu 2015 en hann virðist ekki hafa afhent Wikileaks neina tölvupósta frá því ári ef undanskildir eru nokkrir póstar frá janúar. Þetta sést glögglega á meðfylgjandi grafi.

Ríkisútvarpið í herferð

Síðustu daga hefur það komið enn skýrar í ljós að Ríkisútvarpið er í herferð gegn Samherja í stað þess að einbeita sér að því að segja fréttir.

Takmarkaður vilji fréttamanna Ríkisútvarpsins til að segja á hlutlausan og yfirvegaðan hátt frá staðreyndum máls kom berlega í ljós aðdraganda Kveiksþáttarins 12. nóvember enda hafnaði Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri, þá ítrekað óskum Samherja um að afhenda Ríkisútvarpinu gögn og upplýsingar um starfsemina í Namibíu. Það er líklega fáheyrt í vestrænum fjölmiðlaheimi að fjölmiðill hafni upplýsingum, frá þeim sem er til umfjöllunar, í aðdraganda þáttar þar sem setja á fram meiðandi staðhæfingar um viðkomandi.

Helgi Seljan mætti svo í morgunútvarpið á Rás 2 hinn 26. nóvember sl. og fullyrti að yfir „þúsund störf“ hefðu tapast í Walvis Bay í namibískum sjávarútvegi vegna Samherja. Engar skýringar fylgdu, enda var um gróf ósannindi að ræða.

Samherji hvorki átti né stýrði Cape Cod FS

Fyrr í þessum mánuði réð Samherji lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að aðstoða við rannsókn á ásökunum sem settar voru fram á hendur fyrirtækinu vegna starfseminnar í Namibíu. Sett var í forgang að yfirfara greiðslur til félagsins Cape Cod FS.

Stundin og Ríkisútvarpið hafa fullyrt að Samherji hafi átt félagið Cape Cod FS og að JPC Shipmanagement, sem veitti félögum Samherja þjónustu, hafi „leppað“ eignarhald á Cape Cod FS fyrir Samherja. Þetta er rangt og ekkert í rannsókn Wikborg Rein bendir til hins gagnstæða. Samherji á ekki og hefur aldrei átt Cape Cod FS og hefur aldrei falið öðrum að „leppa“ eignarhaldið á félaginu.

Cape Cod FS var í eigu JPC Shipmanagement sem þjónustaði félög tengd Samherja um mönnun á skipum í rekstri samstæðunnar. Kaup á þjónustu slíkra félaga er alþekkt í skiparekstri á alþjóðavísu.

Bæði Stundin og Ríkisútvarpið hafa ranglega haldið því fram að um 70 milljónir dollara hafi farið í gegnum Cape Cod FS vegna starfseminnar í Namibíu. Hið rétta er að 28,9 milljónir dollara voru greiddar til félagsins vegna starfseminnar í Namibíu.

Í íslenskum fjölmiðlum hefur verið fullyrt að greiðslurnar í gegnum Cape Cod FS séu óútskýrðar og óeðlilegar. Þetta er alrangt. Í Namibíu eru gjaldeyrishöft við lýði. Til þess að framkvæma greiðslur út úr namibísku hagkerfi þurfa að fylgja margvísleg gögn til að sannreyna greiðsluna vegna haftanna. Af þessari ástæðu þarf að senda upplýsingar um greiðslur til hvers og eins áhafnarmeðlims ásamt afriti af vegabréfi hans til namibísks viðskiptabanka sem áframsendir upplýsingarnar til Seðlabanka Namibíu. Til þess að tryggja að allir áhafnarmeðlimir fengju réttar fjárhæðir greiddar í samræmi við verksamninga voru greiðslurnar yfirfarnar af bæði Cape Cod FS og af starfsmanni félags sem tengdist Samherja áður en þær voru inntar af hendi.

Ítrekuð ósannindi fréttamanns

Helgi Seljan, fréttamaður Ríkisútvarpsins, hefur nú endurtekið rangar fullyrðingar sínar um glötuð störf í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu starfsemi í landinu. Þannig hefur hann endurflutt sömu ósannindi og hann fór með í morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun og Samherji leiðrétti í gær.
Helgi vitnar í frétt götublaðsins The Namibian Sun þar sem fullyrt er að störf hafi tapast í namibískum sjávarútvegi eftir að fyrirtækið Namsov missti þúsundir tonna af úthlutuðum aflaheimildum vegna breyttra reglna um úthlutun. Fyrst skal áréttað að engin störf glötuðust í namibískum sjávarútvegi eftir breytingar á úthlutun aflaheimilda í hrossamakríl heldur fluttust störfin milli fyrirtækja og skipa. Þá er mikilvægt að halda því til haga að fyrirtækið Namsov var lengst af ekki í eigu Namibíumanna heldur var það í eigu suður-afrísku samsteypunnar Bidvest Group sem er metið á 8,4 milljarða dollara og er númer 1.062 á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir 2.000 stærstu fyrirtæki heims. Þetta eru semsagt störfin sem heimamenn áttu að hafa glatað, störf hjá suður-afrískri alþjóðasamsteypu. Það var ekki fyrr en á árinu 2018 sem Bidvest Group seldi Namsov til namibíska fyrirtækisins Tunacor.

Uppspuni í Ríkisútvarpinu

Í morgun fullyrti Helgi Seljan í morgunútvarpi Rásar 2 að yfir „þúsund störf“ hefðu tapast í Walvis Bay í namibískum sjávarútvegi vegna Samherja. Engar frekari skýringar fylgdu þessari fullyrðingu Helga. Það kemur kannski ekki á óvart því um gróf ósannindi er að ræða.
Namibískur sjávarútvegur er fjölbreyttur og eru margar ólíkar tegundir veiddar við strendur landsins. Félög tengd Samherja hafa einungis tekið þátt í uppsjávarveiðum í namibísku efnahagslögsögunni og er þar aðallega um að ræða veiðar á hestamakríl.
Árið 2011 var úthlutunarreglum breytt á uppsjávartegundum í Namibíu. Ákveðið var að færa um 25% af aflaheimildum í uppsjávarfiski í hendur namibískra félaga og einstaklinga, aðallega frá fyrirtækjum í Suður-Afríku sem höfðu haft heimildirnar. Eftir úthlutun aflaheimilda leituðu ákveðnir aðilar í namibískum sjávarútvegi eftir samstarfi við félag tengt Samherja um veiðar á þeim aflaheimildum sem þeir höfðu yfir á að ráða. Önnur namibísk félög, sem fengu úthlutað aflaheimildum, sömdu við útgerðarfélög frá Kína, Hollandi og Rússlandi.
Alls voru 95% af veiddum afla í uppsjávarfiski fryst úti á sjó. Engin breyting varð á þessu milli áranna 2011 og 2012. Það má því segja að fjöldi starfa í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski í  namibískum sjávarútvegi hafi haldist óbreyttur þótt störfin hafi flust á milli fyrirtækja og skipa eftir að breytingar urðu á úthlutun heimilda. Það er því ljóst að sú fullyrðing að „þúsund störf“ hafi tapast í namibískum sjávarútvegi vegna innkomu félags sem tengist Samherja, er þvættingur. 
Hlutfall Namibíumanna í áhöfnum þeirra skipa sem félög tengd Samherja hafa gert út í namibísku efnahagslögsögunni hefur fjölgað jafnt og þétt og er í dag um 60%. Sem dæmi voru hundrað manns í áhöfn Heinaste. Af þessum hundrað voru að jafnaði fjórir áhafnarmeðlimir með íslenskt ríkisfang en aðrir í áhöfninni frá Namibíu og Austur-Evrópu. 
Að framansögðu virtu er ljóst að Helgi Seljan sagði ósatt í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og eru ummæli hans eingöngu til þess fallin að valda Samherja tjóni. Ummælin sýna kannski best hversu frjálslega fréttamenn Ríkisútvarpsins fara með staðreyndir.

Myndir frá forstjóraskiptum

Myndir frá því að Björgólfur Jóhannsson tekur við stöðu forstjóra Samherja er Þorsteinn Már Baldvinsson stígur tímabundið til hliðar.

Harðbakur kominn heim til Akureyrar

Hinn nýji togari Harðbakur EA 3 kom heim til Akureyrar laugardaginn 9.nóvember sl. Myndirnar tók Þórhallur Jónsson/ Pedrómyndir

Hörður kokkur kveður

Hörður Héðinsson kokkur lauk giftusamlegum ferli sínum um borð í skipum Samherja um miðjan september sl.

Hörður hóf störf hjá Samherja 24. júní 2005 á Akureyrinni EA 110 ( nú Snæfell EA 310) hjá skipstjóranum Guðmundi Frey Guðmundssyni. Árið 2006 fór Hörður yfir á Björgúlf EA 312 (nú Hjalteyrin EA 306) og var þar til ársins 2007 þegar Oddeyrin EA 210 kom. Fylgdi hann Guðmundi Frey um borð í Oddeyrina og var þar til ársins 2017, er hún var seld. Fór hann þá tímabundið um borð í Björgvin EA þar til ný Björg EA 7 var tilbúin. Hörður var í áhöfninni sem sigldi Björgu EA heim frá Tyrklandi og lauk starfsferlinum á því skipi.

Forstjóri Samherja stígur tímabundið til hliðar meðan á rannsókn stendur

Forstjóri og stjórn Samherja hafa komist að samkomulagi um að forstjóri félagsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, stígi tímabundið til hliðar þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.

Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair Group, hefur tekið tímabundið við stöðu forstjóra Samherja. Á komandi dögum mun Björgólfur leggja áherslu á að hitta starfsfólk og helstu hagsmunaaðila.

Yfirstandandi rannsókn, sem er í höndum alþjóðlegu lögmannsstofunnar Wikborg Rein, mun halda áfram og mun Wikborg Rein heyra beint undir stjórn félagsins.

„Hjá Samherja starfa um 850 manns á Íslandi og fjöldi manns erlendis. Við tökum þetta mikilvæga skref til að tryggja sem best hlutleysi rannsóknarinnar. Við viljum stunda heiðarleg viðskipti og leggjum okkur fram um að starfa í samræmi við gildandi lög og reglur”, segir Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja.

Yfirlýsing frá Samherja vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins

Vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins um starfsemi Samherja í Namibíu vill Samherji koma eftirfarandi á framfæri:

„Það voru okkur mikil vonbrigði að komast að því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Samherjafélaganna í Namibíu, virðist hafa tekið þátt í gagnrýniverðum viðskiptaháttum og hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunna að vera ólögmæt,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, eftir þátt Ríkisútvarpsins þar sem margvíslegar ásakanir komu fram á hendur fyrirtækinu.

Jóhannesi Stefánssyni var sagt upp störfum á árinu 2016 eftir að hann misfór með fé og hegðaði sér með óforsvaranlegum hætti. Nú hefur hann viðurkennt að hafa tekið þátt í ólöglegri starfsemi á meðan hann stýrði dótturfélögum Samherja í Namibíu.