Fréttir

Áhöfn Normu Mary slökkti eld um borð

Rétt viðbrögð 19 manna áhafnar Normu Mary komu í veg fyrir að illa færi í gær þegar eldur kom upp um borð á vinnsludekki togarans, þar sem hann var á þorskveiðum í Barentshafi.  Enginn slasaðist í aðgerðunum og búið var að ráða niðurlögum eldsins þegar Norska strandgæslan kom til aðstoðar.  Skipið mun halda til hafnar á Akureyri innan tíðar eða þegar Norska strandgæslan hefur fullvissað sig um að ekki sé hætta á að eldurinn kvikni að nýju.  Á Akureyri verða  skemmdir skoðaðar og metnar áður en  viðgerð hefst.
„Það er alltaf mikil hætta þegar eldur kemur upp í skipi úti á sjó.  Við erum fyrst og fremst þakklátir réttum viðbrögðum áhafnarinnar sem kom í veg fyrir að ekki fór verr um borð í Normu“, segir  Óskar Ævarsson útgerðarstjóri Onward  Fishing.
Norma Mary er togskip í eigu Onward Fishing Company í Skotlandi sem er dótturfélag Samherja hf.

Bréf stjórnar Samherja hf. til bankaráðs SÍ

Með bréfi þessu fer stjórn Samherja hf. þess á leit, fh. félagsins og tengdra aðila (saman vísað til sem Samherja), við bankaráð Seðlabanka Íslands, að það hlutist til um að fram fari athugun á stjórnsýslu bankans, bankastjórnar og annarra starfsmanna, að því er snertir gjaldeyriseftirlit, einkum og sér í lagi í tengslum við húsleit, rannsókn, samskipti, kærur og fjölmiðlaumfjöllun af hálfu Seðlabanka Íslands (vísað til sem Seðlabankinn eða bankinn)um málefni Samherja.
Þessi málaleitan er gerð með vísan til ákvæða laga nr. 36/2001 um Seðlabankans, þar sem fram kemur í 28. gr. að bankaráð hafi eftirlit með því að Seðlabankinn  starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Verður að telja yfir allan vafa hafið, að í ákvæði þessu felist víðtæk eftirlitsskylda um að yfirstjórn Seðlabankans fari í störfum sínum að landslögum og hlíti þeim reglum er fram koma í stjórnsýslulögum sem og öðrum lögum.

Bréf til starfsmanna

Kæru starfsmenn

Mál Seðlabankans á hendur stjórnendum Samherja hefur verið fellt niður
Niðurstaða málsins er að engin saknæm háttsemi var viðhöfð
Ásakanir og húsleit Seðlabankans voru tilhæfulausar
Seðlabankinn verður að axla ábyrgð

Fyrir helgi felldi embætti sérstaks saksóknara niður mál á hendur mér og nokkrum starfsmönnum Samherja. Orðrétt kemur fram í bréfi frá embættinu: „Nánar tiltekið taldi embættið að það sem fram kom við rannsókn málsins um ætluð brot og atvik þeim tengd benti ekki til að hugsanleg persónuleg refsiábyrgð [mín] eða annarra kærðra einstaklinga á ætluðum brotum í málinu gæti komið til álita. Þegar af þeirri ástæðu lauk embættið meðferð sinni á viðkomandi sakarefnum málsins enda nægði hún til að útiloka að komið gæti til höfðunar sakamáls vegna ætlaðra brota.“
Ég er afskaplega þakklátur og ánægður að fá þessa niðurstöðu loks í hendur eftir nær fjögurra ára rannsókn. Ég tel niðurstöðuna vera mikinn sigur fyrir okkur og viðurkenningu á faglegum og heiðarlegum störfum okkar. Ég hef ítrekað lýst yfir samstarfsvilja okkar til að upplýsa málið og hef aldrei útilokað að einhvers staðar kynnu að hafa átt sér stað mistök. Hins vegar hef ég alltaf sagt að við höfum unnið eftir bestu vitund. Þetta mál hefði geta klárast mun fyrr ef vilji hefði verið fyrir hendi hjá Seðlabankanum. Hins vegar virðist alltaf hafa verið lengra seilst til að finna höggstað á okkur til að réttlæta þessar hörðu aðgerðir í upphafi.

Afkoma Samherja og dótturfélaga góð árið 2014

Fréttatilkynning frá Samherja hf.
Helstu atriði:

Hagnaður ársins 2014 var rúmir 11 milljarðar króna.
Samherji greiðir 2,6 milljarða króna í tekjuskatt til ríkissjóðs Íslands og 900 milljónir í veiðileyfagjald, samtals 3,5 milljarða vegna reksturs ársins 2014.
Tæpur helmingur af starfsemi Samherja samstæðunnar er erlendis.
Félög Samherja seldu afurðir til 60 landa árið 2014 þar af voru 23 lönd í Afríku.

Samherji hf. er eignarhaldsfélag um eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum sem flest tengjast sjávarútvegi og vinnslu afurða hérlendis og erlendis. Rekstur útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi er í félögunum Samherji Ísland ehf. og Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og rekstur fiskeldis er í Íslandsbleikju ehf. Félög samstæðunnar starfa í ellefu löndum og gera upp í níu mismunandi gjaldmiðlum. (EUR, USD, GBP, ISK, CAD, PLN, DKK, NOK og NAD). Samstæðureikningur Samherja er settur fram í evrum en í tilkynningunni eru tölur umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við meðalgengi ársins 2014 sem var 155 krónur á hverja evru. 

DFFU dótturfélag Samherja semur um smíði tveggja fiskiskipa í Noregi

Eigendur Samherja og stjórnendur Deutsche Fishfang Union (DFFU)  undirrituðu í gær samning um smíði tveggja skuttogara við norsku skipasmíðastöðina Kleven í Álasundi. Skipin eru hönnuð af Rolls Royce.
Haraldur Grétarsson framkvæmdastjóri DFFU segir að þetta séu ánægjuleg tímamót í rekstri DFFU en Samherji hefur átt og rekið félagið í tuttugu ár. "Við erum búin að fara í gegnum mikla hagræðingu og stundum mögur ár hér í Cuxhaven en nú sjáum við tækifæri til að byggja upp nýjan skipastól fyrir félagið og horfa til framtíðar.  Þetta eru fyrstu nýsmíðar félagsins frá því við keyptum það og löngu tímabært skref. Skipin eru eins og þau gerast best í dag, allur aðbúnaður áhafnar verður til fyrirmyndar og vinnuaðstaða eins og best gerist. Hönnun skipanna  gerir veiðar þeirra umhverfisvænni en eldri skip, sem er mikilvægt skref fyrir okkur og fiskveiðar framtíðarinnar."
 

Epli og epli

Ágæta samstarfsfólk.
Þrátt fyrir ótíð og erfið skilyrði til sjósóknar hafa aflabrögð Samherjaskipanna verið
ágæt undanfarna mánuði. Vinna í fiskvinnslunum hefur verið stöðug og við unnum sama magn og á síðasta ári. Markaðir fyrir
bolfiskafurðir hafa verið í góðu jafnvægi, við höfum náð að selja allar okkar afurðir og verð hafa verið stöðug.
Markaðir fyrir uppsjávarafurðir hafa hinsvegar verið erfiðir vegna óvenjulegra aðstæðna, einkum í Rússlandi, Úkraínu og
Nígeríu sem eru mjög mikilvægir markaðir fyrir okkar uppsjávarfisk.
Fjöldi Íslendinga hefur á undanförnum árum flutt til Noregs og samanburður á kostum þeirra og kjörum verið áberandi í
umræðunni hér á Íslandi.  Þótt ekki hafi margt fólk úr okkar fiskvinnslu haldið utan er engu að síður töluvert
um að samanburður sé gerður á launum í fiskvinnslu hér á landi og í Noregi. Við tökum þá umræðu alvarlega og
höfum þess vegna lagt í töluverða vinnu við  að greina þær tölur og forsendur sem að baki búa á hlutlausan hátt.
Tilgangurinn er að upplýsa ykkur um þessi mál svo þið getið sjálf lagt mat á kjörin, því ýmsir hlutir eru
frábrugðnir á milli landa án þess að þess sé yfirleitt getið í umræðunni.
Samanburður á launum er í eðli sínu flókinn og því er ætíð nauðsynlegt að fara yfir allar forsendur sem liggja að baki
útreikningunum.  Skilgreiningar á vinnutíma og álag á yfirvinnu eru til dæmis mjög mismunandi milli landa og því þarf að taka
tillit til þessara þátta auk fjölda annarra þegar þessir hlutir eru bornir saman.
Í samanburðinum hér á eftir höfum við valið að taka allan kostnað sem fyrirtæki í fiskvinnslu í Noregi og Þýskalandi
hafa á vinnustund, samanborið við Samherja á Dalvík. Það hlutfall sem launþegi fær af launakostnaðinum er mismunandi eftir því
hvernig launakostnaður er samsettur í viðkomandi landi.  Þessi kostnaður myndast hins vegar allur vegna þeirrar skuldbindingar sem felst í
ráðningarsambandi fyrirtækis og einstaklings í hverju landi fyrir sig.

Dótturfélög Samherja kaupa hluti í norska sjávarútvegsfélaginu Nergaard AS

Þýsk dótturfélög Samherja, Icefresh GmbH í Frankfurt og Cuxhavener Reederei GmbH í Cuxhaven hafa eignast rúmlega 20% hlut í norska
félaginu Nergaard AS, sem er eitt af  stærstu sjávarútvegsfélögum Noregs.
Nergaard AS á sér langa sögu í norskum sjávarútvegi og er meginstarfsemi þess veiðar, vinnsla og sala sjávarafurða. Félagið
rekur m.a. fimm togara, er með starfsstöðvar á sex stöðum í Norður-Noregi en höfuðstöðvar Nergaard eru í Tromsö. Velta Nergaard
hefur verið nálægt 35 milljörðum króna á ári og hafa vinnslur félagsins á undanförnum árum tekið á móti
nálægt  50.000 tonnum af bolfiski og um 100.000 tonnum af uppsjávarfiski. Afurðir félagsins eru m.a. frystur og ferskur botnfiskur, saltfiskur, skreið, fryst
síld, loðna og makríll.
Samherji hóf þátttöku í rekstri þýskra útgerða í Cuxhaven árið 1994. Félögin gera út togara til
veiða í Norður Atlantshafi og hefur reksturinn gengið vel. Framkvæmdastjóri þýsku útgerðanna er Haraldur Grétarsson.
Icefresh GmbH var stofnað í Cuxhaven árið 2004 og er tilgangur félagsins að vinna og markaðssetja ferskan fisk á
Þýskalandsmarkaði.  Félagið hefur vaxið hratt og staða þess er sterk á þýska markaðinum fyrir ferskar fiskafurðir.
Árið 2012 flutti Icefresh alla sína starfsemi til Frankfurt. Á þessu ári er áætlað að velta félagsins verði um 10 milljarðar
króna og að unnið verði úr 15.000 tonnum af  hráefni. Vöxtur félagsins hefur verið eftirtektarverður og fjárfestingin í
Nergård er rökrétt framhald þar sem yfir 80%  af veltu félagsins stafar frá norskum fiski og fiski lönduðum í Noregi.  
Framkvæmdastjóri Icefresh GmbH er Sigmundur Andrésson.

Til starfsmanna landvinnslu Samherja

Kæru Starfsmenn
Samherji greiðir starfsfólki sínu í landi 450 þúsund króna launauppbót nú í desember, til viðbótar umsaminni 74
þúsund króna desemberuppbót. Upphæðin miðast við starfsmenn sem hafa verið í fullu starfi allt árið 2014. Samherji greiddi aukalega
61 þúsund krónur í orlofsuppbót til starfsmanna í maí og greiðir fyrirtækið því á árinu rúma
hálfa milljón króna til hvers starfsmanns umfram kjarasamninga.
Meðal mánaðarlaun starfsfólks í fiskvinnslu í Eyjafirði eru um 410 þúsund krónur, miðað við fullt starf. 
Sú launauppbót sem greidd er á árinu samsvarar því rúmum einum mánaðarlaunum. Þeir sem njóta þessarar
launauppbótar eru um 500 talsins.
Í fiskvinnslum Samherja er unnið alla virka daga allt árið um kring. Þannig hefur það verið mörg undanfarin ár.  Áherslan
er sem fyrr á flóknari vinnslu með meiri virðisauka. Þannig erum við stöðugt að færa okkur nær neytandanum og uppfylla betur breytilegar
þarfir hans.
Samvinna allra starfsmanna sem hjá okkur starfa, hvort heldur er við veiðar, fiskvinnslu, fiskeldi eða markaðssetningu og annað er sem fyrr kjölfestan
í árangri okkar.  Það er alltaf ánægjulegt þegar hægt er að gera betur við starfsfólk, árið hefur gengið vel og
þannig skapast tilefni. Við erum því glaðir í dag og mætum áskorunum komandi árs með sama krafti og áður sannfærðir um
að við, í samstarfi við ykkur náum að gera betur á næsta ári en því síðasta.
Með jólakveðju
Þorsteinn Már Baldvinsson
Kristján Vilhelmsson
 

Aðgerðir tengdar strandi skipsins Green Freezer

Í kjölfar fréttaflutnings af samskiptum stjórnenda Samherja við fulltrúa útgerðar Green Freezer
sem strandaði við Fáskrúðsfjörð síðastliðið miðvikudagskvöld viljum við koma eftirfarandi á framfæri:
Vilhelm Þorsteinsson EA var fyrstur á strandstað, innan við 30 mínútum frá því ósk barst um aðstoð.
Landhelgisgæslan óskaði eftir því að áhöfn Vilhelms Þorsteinssonar EA reyndi að koma taug yfir í skipið. Strax var farið
í að koma taug á milli skipanna en eigandi flutningaskipsins hafnaði þeirri aðstoð og óskaði eftir meiri tíma til að leita annarra leiða
til að koma skipinu af strandstað.
 Síðar um kvöldið tilkynnir umboðsmaður flutningaskipsins að tryggingarfélag þess sé tilbúið til að greiða Samherja allt
að fjórum milljónum króna fyrir að láta draga skipið af strandstað. Þar sem sú upphæð er lægri en áætlaður
kostnaður útgerðarinnar við björgunaraðgerðina, ásamt teknu tilliti til þeirrar áhættu sem ávallt fylgir svona aðgerð,
töldu stjórnendur Samherja ekki rétt að taka að sér umrætt verk. Áhöfn Green Freezer var ekki í hættu og
Landhelgisgæslan var á leið á staðinn á sérútbúnu skipi. Seinna um nóttina hélt Vilhelm Þorsteinsson aftur til
veiða.

Góð afkoma Samherja og dótturfélaga árið 2013


Hagnaður ársins tæpir 22 milljarðar króna.
Hagnaður af sölu eigna 8,1 milljarðar króna.
Samherji greiðir 1,7 milljarð króna í tekjuskatt til Ríkissjóðs Íslands og 1 milljarð í veiðileyfagjald, samtals 2,7
milljarða.
Tæpur helmingur af starfsemi Samherja samstæðunnar er erlendis.
Félög Samherja starfa í ellefu löndum og gera upp í níu
mismunandi gjaldmiðlum.