Lettnesk jólahefð fékk góðar viðtökur á Dalvík
20.12.2024
Olga Naumenkova fluttist frá Lettlandi til Dalvíkur fyrir tuttugu árum og hefur síðan þá starfað hjá Samherja á Dalvík. Olga viðraði í vetur þá hugmynd að jólatréð í anddyri fiskvinnsluhússins yrði skreytt samkvæmt lettneskum sið, sem snýst um að fólk hengir skraut á tréð og merkir með sínu nafni. Skemmst er frá því að segja að tillagan féll í góðan jarðveg og starfsfólk Samherja á Dalvík hefur tekið þátt í þessum skemmtilega og hlýlega sið.

