Fréttir

Yfirlýsing frá Samherja

Samherji skilaði gjaldeyri af kostgæfni
Þrátt fyrir að Samherji hafi verið sýknaður af kröfum Seðlabankans í Hæstarétti Íslands og sérstakur saksóknari hafði tekið sérstaklega fram að félagið hafi skilað gjaldeyri af kostgæfni, heldur Seðlabankinn áfram að dylgja um að starfsmenn Samherja séu "samt sekir" og "hafi sloppið".
Slík framkoma af hálfu stjórnvaldsins er í senn sorgleg og ógeðfelld.
Nú, þegar Seðlabankinn hefur verið gerður afturreka með allan sinn málatilbúnað, er rétt að hafa eftirfarandi staðreyndir í huga:

• Rökstuddi grunur bankans í upphafi byggði á röngum útreikningum sem aðstoðarseðlabankastjóri yfirfór sérstaklega. Kom þetta meðal annars fram í dómi héraðsdóms eftir að framkvæmd húsleitar hjá Samherja var kærð.

• Seðlabankinn tók virkan þátt í lagasetningu árið 2008 um gjaldeyrismál sem og öllum síðari lagabreytingum sem hann nú kennir Alþingi um.

• Efnisleg niðurstaða í bréfi sérstaks saksóknara, þegar hann taldi ekki grundvöll fyrir ákæru í málatilbúnaði Seðlabankans, var að Samherji hefði skilað gjaldeyri af kostgæfni.

• Skattrannsóknarstjóri skoðaði málið út frá skattalögum og taldi ekki tilefni til að aðhafast nokkuð. Meint laga- og regluklúður sem seðlabankastjóri hefur notað sem afsökun frá árinu 2015 hefur þar engin áhrif.

• Héraðsdómur var vel og ítarlega rökstuddur og lá fyrir í apríl 2017. Seðlabankastjóri sagði dóminn umdeildan og ekki traustan en fimm hæstaréttardómarar komust að niðurstöðu um réttmæti héraðsdómsins á tveimur dögum. Héraðsdómur tók sérstaklega fram að “þegar af þeirri ástæðu” að Seðlabankinn hafði tilkynnt um niðurfellingu máls hafi ekki verið ástæða til að skoða aðrar málsástæður Samherja. Samherji tefldi fram fjölmörgum, formlegum og efnislegum vörnum en þar sem Seðlabankinn féll á fyrsta prófinu var ekki ástæða fyrir dómstóla að fara lengra. Ekki er hægt að líta á það sem heilbrigðisvottorð á ásakanir eða stjórnsýslu Seðlabankans heldur þvert á móti staðfestir það hörmulega stjórnsýslu bankans. Er það með ólíkindum að bankinn ætli að reyna að snúa því sér í hag.

Opið bréf Garðars Gíslasonar lögmanns Samherja

Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
Misfarið með opinbert vald
Ágæta Katrín
Í fréttatíma Ríkisútvarpsins laugardaginn 10. nóvember síðastliðinn var rætt við þig í tilefni af nýgengnum dómi Hæstaréttar Íslands í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf., en með dóminum var endir bundinn á tæplega sjö ára samfelldan málarekstur bankans gegn félaginu. Lést þú þau orð falla í viðtalinu að dómurinn væri „ekki góður fyrir Seðlabankann“ sem tapað hafi málinu „fyrst og fremst vegna formsatriða“. Sú niðurstaða eigi hins vegar að mati þínu ekki að hafa áhrif á stöðu seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, vegna þess að ekki hafi verið sýnt fram á að það hafi verið ásetningur að baki brotum í málarekstri Seðlabanka Íslands gagnvart Samherja hf. 
Ég hef sem lögmaður gætt hagsmuna Samherja hf. í fyrrgreindum málarekstri. Ég þekki því málarekstur bankans gagnvart umbjóðanda mínum ágætlega – og sjálfsagt betur en flestir. Búandi að þeirri þekkingu komu fyrrgreind ummæli þín mér verulega á óvart. Það ætti hver sá sem það skoðar af hlutleysi að sjá hversu alvarlegar brotalamir hafa verið á öllum málarekstri Seðlabanka Íslands á hendur Samherja hf., allt frá öndverðu. Málareksturinn snéri raunar ekki aðeins að félaginu Samherja hf., heldur jafnframt að tugum annarra félaga í samstæðu Samherja hf. og það sem verra er, nokkrum einstaklingum líka, sem sæta máttu því af tilefnislausu að vera bornir þungum sökum um refsiverð brot á lögum og kærðir til lögreglu.

Málið hlaut efnislega meðferð

Yfirlýsing frá Garðari Gíslasyni lögmanni Samherja vegna fréttaflutnings Ríkisútvarpsins:
Í fréttatíma Ríkisútvarpsins laugardaginn 10. nóvember síðastliðinn var rætt við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í tilefni af nýgengnum dómi Hæstaréttar Íslands í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf. Með dóminum var endir bundinn á tæplega sjö ára samfelldan málarekstur bankans gegn félaginu.

Í aðdraganda viðtalsins við forsætisráðherra var því ranglega haldið fram af hálfu fréttamanns að niðurfelling sérstaks saksóknara á kæru Seðlabanka Íslands í síðara sinnið hefði byggt á því að skort hefði á samþykki ráðherra á reglum bankans um gjaldeyrismál.

Í viðtalinu lét forsætisráðherra þau orð falla í viðtalinu að dómurinn væri „ekki góður fyrir

Þakklæti til ykkar kæru starfsmenn

Með dómi Hæstaréttar Íslands í dag lauk máli Seðlabanka Íslands á hendur Samherja. Með þessum dómi lýkur endanlega tæplega sjö ára aðför Seðlabankans á hendur Samherja. Öllum fullyrðingum og ásökunum Seðlabankans á hendur Samherja og starfsfólki okkar hefur verið hnekkt og bankinn beðið afhroð.
Okkur er efst í huga þakklæti til ykkar kæru starfsmenn.  Þið sem hafið staðið þétt við bakið á okkur í gegn um árin. Það er þungbært að sitja undir ásökunum jafn valdamikillar stofnunar og Seðlabanka  Íslands.  Með slíkum þunga getur verið auðvelt að brjóta niður samstöðu fólks. Takk kæru starfsmenn fyrir stuðninginn og alla vinnuna sem þið hafið lagt á ykkur. Við viljum líka þakka fyrir að þið misstuð aldrei trúna á okkur og að við höfum lagt okkur fram um að vinna störf okkar í samræmi við lög og reglur. Við unnum ásamt ykkur heiðarlega og samviskusamlega að rekstri okkar fyrirtækis á tímum sem eiga sér ekki hliðstæðu á Íslandi.   Samstaða ykkar hjálpar okkur að halda áfram þegar að okkur er sótt.
takk fyrir.
Þorsteinn Már og Kristján 

Nýr Vilhelm Þorsteinsson EA

Samherji hefur samið um smíði á nýju uppsjávarskipi við Karstensen Skipsverft í Skagen, Danmörku.  Skipið sem á að afhenda um mitt sumar árið 2020 verður vel búið í alla staði, bæði hvað varðar veiðar og meðferð á afla, sem og vinnuaðstöðu og aðbúnað áhafnar. Burðargeta skipsins verður um 3.000 tonn af kældum afurðum.
Nýsmíðin mun leysa af hólmi núverandi Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins fyrir 18 árum.  Samningar voru fullfrágengnir þann 4. september en þann dag höfðu tvíburabræðurnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinsssynir orðið 90 ára gamlir, Baldvin lést 21. desember árið 1991 og Vilhelm þann 22. desember árið 1993.
Afmælisdagur þeirra bræðra, 4. september, hefur áður tengst stórviðburðum í sögu fyrirtækisins. Þann 4. september árið 1992 var nýsmíði Samherja, Baldvin Þorsteinssyni EA 10, gefið nafn og  3. september árið 2000 var núverandi Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 gefið nafn.  Ástæðan fyrir 3. september var sú að 4. september bar upp á mánudag.

Farsæll rekstur Samherja 2017

Samherji skilaði góðri afkomu á síðasta ári eins og undanfarin ár. Svo góð niðurstaða er ekki sjálfgefin við núverandi aðstæður heldur afrakstur mikillar samvinnu starfsmanna Samherja sem og samstarfsaðila víðsvegar um heiminn. Við gleðjumst að sjálfsögðu yfir því,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja þegar ársuppgjör fyrir árið 2017 var kynnt að loknum aðalfundi.
Samanlagðar tekjur dóttur- og samstarfsfélaga í fimmtán löndum innan samstæðu Samherja, námu um 77 milljörðum króna. Hagnaðurinn af rekstri nam 14,4 milljörðum króna og hækkaði lítillega milli ára. Vóg söluhagnaður eigna þungt og nam um 5 milljörðum króna. Rúmur helmingur starfseminnar er erlendis.

Fréttatilkynning frá Samherja

Systurfélag Samherja hf., Samherji Holding ehf., hefur keypt öll hlutabréf bandaríska fjárfestingasjóðsins Yucaipa í Eimskipafélagi Íslands hf. Um er að ræða samtals 25,3% hlut í félaginu og er kaupverðið um 11 milljarðar íslenskra króna. Samherji Holding ehf. er félag um erlenda starfsemi Samherja.
„Eimskip er gamalgróið félag með trausta innviði, þrautreynt starfsfólk og góðan skipastól,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Hann segir að Samherji og Eimskip hafi á undanförnum árum víða verið með starfsemi á sömu svæðum. „Eimskip er alþjóðlegt flutningafyrirtæki sem byggir starfsemi sína á góðri þjónustu við viðskiptavini með rekstri skipaflota á Norður-Atlantshafi. Við þekkjum á margan hátt ágætlega til reksturs skipa og mikilvægi flutninga í alþjóðlegu umhverfi. Það verður krefjandi en um leið ánægjulegt að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins í góðu samstarfi við aðra hluthafa.“

Samherji kaupir Collins Seafood

Samherji hefur keypt markaðs- og dreifingarfyrirtækið Collins Seafood og tekið við rekstrinum frá 1. júlí. Collins Seafood er með höfuðstöðvar í Newton Aycliffe, Duram, suður af Newcastle í Englandi og er einnig með dreifingarstöð í Leeds.  Fyrirtækið selur og dreifir sjófrystum flökum í mið og norður Englandi til fjölda viðskiptavina sem eru aðallega „fish and chips“ veitingastaðir.
Collins Seafood var stofnað fyrir 35 árum síðan af Richard Collins sem mun eftir söluna áfram gegna hlutverki framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu og sjá um rekstur þess.  Velta fyrirtækisins á síðasta rekstrarári var rúmlega 60 milljónir punda og seldi það yfir 10.000 tonn af sjófrystum afurðum frá Noregi, Rússlandi, Íslandi, Færeyjum og víðar. Collins Seafood hefur til fjölda ára verið stór viðskiptavinur Samherja í Englandi. Hjá fyrirtækinu vinna rúmlega 30 manns á skrifstofu og við dreifingu. 
Seagold, sölufyrirtæki Samherja í Englandi, hefur í 21 ár séð um sölu og markaðssetningu afurða Samherja á breska markaðnum og mun áfram vinna náið með Collins Seafood að þeim verkefnum.

20 starfsmenn Samherja útskrifaðir af fisktæknibraut

Vorið 2016 fór stór hópur starfsmanna fiskvinnslu Samherja á Dalvík í raunfærnimat í fisktækni sem Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) bauð uppá. Um haustið hófu um 20 þeirra nám í fisktækni, sem starfrækt var í námsveri SÍMEY á Dalvík. Haustið 2017 fór annar hópur frá fiskvinnslu Samherja á Dalvík, og á Akureyri, í samskonar raunfærnimat og hófu nokkur þeirra nám þá um haustið. Þar af komu þrír inn í þann námshóp sem farinn var af stað á Dalvík og útskrifast núna í vor.
Nemendurnir eru af ýmsu þjóðerni, sem endurspeglar þann fjölbreytta mannauð sem er að finna innan fiskvinnslunnar á Eyjafjarðarsvæðinu. Í útskriftarhópum núna eru t.d. þrír af pólskum uppruna, tveir af lettneskum, tveir af taílenskum og ein kom frá Grænhöfðaeyjum.
Það hefur sjálfsagt aldrei verið mikilvægara en nú að starfsfólk í fiskvinnslu sæki sér menntun og aukna þekkingu þar sem tæknibreytingar eru mjög miklar í greininni og kröfur til starfsfólks aukast sífellt. Samstarfsaðilar eru stoltir af þeim stóra hópi öflugs fiskvinnslufólks sem útskrifast þetta vor, og þykjast þess vissir að þau muni enn frekar láta til sín taka þegar þau nú hafa lokið þessum áfanga.
Námið er í samstarfi SÍMEY, Fisktækniskóla Íslands og Menntaskólans á Tröllaskaga, sem innritar nemendur í námið og útskrifaði 19. maí 20 nemendur af fisktæknibraut.  Mikilvægt er að gott samstarf sé við vinnustað nemenda, því um er að ræða nám með vinnu. Námið er 120 einingar, grunngreinar sem SÍMEY heldur utan um og faggreinar sem Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur veg og vanda af. Forsenda þess að fara í þetta nám hefur verið að viðkomandi hafi farið í raunfærnimat, en til þess þarf 3 ára starfsreynslu í fiskiðnaði og a.m.k. 23 ára aldur. Nemendur eru því allir þjálfað fiskvinnslufólk sem með raunfærnimati fær reynslu sína og þekkingu metna til eininga, og bætir síðan við sig með formlegu námi því sem uppá vantar.

Sjúkrahúsið á Akureyri fékk góðar gjafir þegar Björg EA var formlega nefnd

Björg EA 7 var formlega nefnd við hátíðlega athöfn á togarabryggjunni á Akureyri síðastliðinn laugardag. Af því tilefni gaf Samherji Sjúkrahúsinu á Akureyri veglega peningagjöf sem nota á til að undirbúa það að koma upp hjartaþræðingu við sjúkrahúsið.

Björg EA 7 er nýjasta skip Samherja. „Endurnýjun skipaflota Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa er stórt skref í þá átt að festa Eyjafjarðarsvæðið í sessi sem eitt öflugasta útgerðar- og fiskvinnslusvæði landsins. Útgerðarfélag Akureyringa er nú ein tæknivæddasta fiskvinnsla landsins og framkvæmdir við nýja hátæknifiskvinnslu eru hafnar á Dalvík. Slíkar vinnslur þurfa öflug skip og hafa verður í huga að oft eru veiðisvæðin langt frá Eyjafirði og veðurfarið oft erfitt. Slíkt skip liggur hér við landfestar,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja í ræðu sinni við athöfnina.