Fréttir

Samherji ræður nýjan framkvæmdastjóra Fjármála- og upplýsingarsviðs

Kæra samstarfsfólk.


Það er mér mikil ánægja að tilkynna ykkur að Samherji hf. hefur ráðið Jón Rafn Ragnarsson til starfa sem framkvæmdastjóra Fjármála- og upplýsingasviðs Samherja.


Jón er fæddur árið 1979 í Reykjavík. Hann flutti norður ungur að árum, fyrst til Húsavíkur, en síðar til Akureyrar og er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri frá árinu 1999. Útskrifaðist síðan sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 2003 og varð löggiltur endurskoðandi árið 2006. Jón Rafn hefur starfað hjá Deloitte ehf. síðustu 15 ár og varð meðeigandi frá árinu 2008. Hann hefur samhliða sínum störfum hjá Deloitte verið virkur í félagsstörfum Félags löggiltra endurskoðenda ásamt kennslu í endurskoðun og reikningshaldi hjá Háskólanum í Reykjavík frá árinu 2006. 


Maki Jóns Rafns er Ellen María Sveinbjörnsdóttir, M.sc. viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Ellen María er fædd í Arendal í Noregi árið 1975 og eiga þau saman tvö ung börn, en jafnframt á Jón Rafn tvö börn frá fyrra sambandi. Jón Rafn kemur til með að hefja störf fljótlega og fjölskyldan mun flytjast til Akureyrar í sumar. Jón mun starfa náið með Sigursteini Ingvarssyni fyrst um sinn.


Við bjóðum Jón Rafn velkominn til starfa og fjölskyldu hans hjartanlega velkomna til Akureyrar.


Kveðja,


Þorsteinn Már.


Samherji og Slade Gorton í samstarf

Slade Gorton og Samherji tilkynna í dag að félögin ætla að fara í samstarf um markaðssetningu og sölu á sjávarafurðum í Norður Ameríku. Með samstarfinu við Slade Gorton mun aðgangur Samherja að mörkuðum í Norður Ameríku aukast og að sama skapi aukast tækifæri Slade Gorton til að efla sókn til núverandi og nýrra viðskiptavina með öflugt framleiðslufyrirtæki líkt og Samherja sér við hlið.


Slade er rótgróið fjölskyldufyrirtæki, stofnað árið 1928. Fyrirtækið flytur inn, framleiðir og selur sjávarafurðir um alla Norður Ameríku og er stýrt af Kim Gorton, sem er afabarn stofnandans. Samherji verður minnihluta hluthafi í Slade Gorton.


,,Ég er spennt fyrir samstarfinu við Samherja fyrir hönd okkar hjá Slade Gorton og tel þetta vera jákvætt skref í þróun okkar reksturs“ segir Kim Gorton forstjóri Slade Gorton. „Hugmyndir og stefna Samherja falla vel að okkar hugmyndum um að bjóða viðskiptavinum aðgang að sjávarafurðum, með stýringu á flestum eða öllum þrepum í framleiðslu og dreifingu, með áherslu á sjálfbærar veiðar. Svara þannig kröfum og  auknum áhuga neytenda á uppruna fæðunnar. Gorton fjölskyldan hyggst halda áfram að viðhalda sterkum tengslum við sína viðskiptavini og mun byggja á þeim sömu gömlu hefðum sem hafa reynst okkur vel hingað til, á sama tíma og við höldum áfram að þróa fyrirtækið líkt og við gerum nú með samstarfinu við Samherja. Samherji, sem er fjölskyldufyrirtæki eins og Slade Gorton, hefur í heiðri sömu gildi og við, sömu ástríðuna fyrir því að setja hágæða sjávarafurðir á borð viðskiptavina sinna.”


Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Samherja: “Með þessari fjárfestingu í Slade Gorton teljum við okkur í Samherja vera grípa spennandi tækifæri til að vinna náið með sterku sölufyrirtæki í Norður Ameríku. Við hlökkum til að starfa með Kim og hennar samstarfsfólki og sjáum fram á aukna möguleika til að byggja upp sölu á okkar afurðum í þessum heimshluta. 


Bréf til samstarfsfólks

Ég hef tekið ákvörðun um að láta af störfum hjá Samherja hf. 


Eins og þið eflaust gerið ykkur grein fyrir þá var þetta afar erfið ákvörðun fyrir mig og okkur hjónin bæði enda hef ég ávallt verið mikill Samherjamaður og gríðarlega stoltur af því að vinna hjá þessu fyrirtæki.  Í starfi mínu hef ég tekist á við mörg spennandi og krefjandi verkefni, langflest skemmtileg en sum ekki.  Eitt af þeim verkefnum sem ekki hafa verið skemmtileg er Seðlabankamálið.  Sú árás sem gerð var á fyrirtækið og beindist síðar að mér og fleirum persónulega reyndist mér afskaplega þungbær.  Það var að sjálfsögðu mikill léttir þegar embætti sérstaks saksóknara komst að þeirri niðurstöðu í fyrrahaust að ekkert saknæmt hefði átt sér stað og tók reyndar sérstaklega fram í bréfi til mín að ljóst væri að unnið hefði verið af kostgæfni að því að skila gjaldeyri til landsins.


Þrátt fyrir þessa gleðilegu niðurstöðu hef ég ekki náð að vinna mig út úr þeirri kulnun og deyfð sem helltist yfir mig í kjölfar þessa máls.  Í dag er staðan sú að rafhlöðurnar eru gjörsamlega tómar og ljóst að það mun taka einhvern tíma að hlaða þær aftur.  Starf mitt er þess eðlis að ekki er mögulegt að hverfa af vaktinni í langan tíma og því ljóst að ný og fersk manneskja þarf að taka við boltanum.


Ég hef starfað í rúm 14 ár hjá Samherja þar sem ég hef eignast marga góða vini og ég vil þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf í gegnum öll þessi ár.  Megi sá mikli kraftur og elja sem í ykkur býr halda áfram að láta fyrirtækið Samherja vaxa og dafna um ókomna tíð.


Við Inga viljum þakka þeim frændum Þorsteini og Kristjáni fyrir þann ómetanlega skilning sem þeir sýndu þessari ákvörðun okkar og fyrir að hafa ávallt staðið þétt við bakið á okkur.  Ég mun síðan að sjálfsögðu sinna minni daglegu vinnu næstu mánuðina og aðstoða við að koma mínum eftirmanni inní starfið þegar ákvörðun þar um liggur fyrir.


Með góðri kveðju,


Sigursteinn og Inga Vala.


 


Ágæta samstarfsfólk.


Sigursteinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs,  hefur nú tilkynnt okkur að hann hafi ákveðið að láta af störfum hjá Samherja. 


Sigursteinn hóf störf hjá Samherja árið 2002 og hefur gegnt starfi fjármálstjóra frá árinu 2005. Á þessum tíma hefur Samherji hf. tekið miklum breytingum og umsvifin hafa vaxið mjög mikið. Sigursteinn hefur gegnt lykilhlutverki í vexti og viðgangi félagsins.


Við ætlum ekki að hafa mörg orð um það núna hversu mikil eftirsjá verður af Sigursteini. Hann hefur verið einstakur starfsmaður í tæp fimmtán ár. Við þekkjum öll handbrögð hans, traust, trúnað og fagmennsku. Skarðið verður vandfyllt.


Hann hefur sjálfur gert ykkur grein fyrir ástæðum þess að hann hefur kosið að láta af störfum og áhrifum þess á heiðarlegan og samviskusaman mann að sitja undir röngum sakargiftum  að ósekju árum saman.


Við þökkum Sigursteini kærlega fyrir vel unnin störf, fyrir hans persónulega framlag og fyrir að vera góður vinur. Við viljum líka þakka Ingu Völu fyrir allan hennar stuðning og vináttu í gegnum tíðina sem aldrei hefur fallið skuggi á.


Við munum kveðja Sigurstein með viðeigandi hætti þegar hann hættir formlega eftir einhverjar vikur og eiga með honum góða stund.


Það verður eftirsjá fyrir starfsmenn Samherja af Sigursteini en vináttan mun haldast.


Kveðja,


Þorsteinn Már Baldvinsson


 Kristján Vilhelmsson


 


Samherji efstur á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki

Framurskarandi_Samherji


Nýtt og glæsilegt húsnæði tekið í notkun hjá ÚA

Í nóvember sl.hófst starfssemi í nýju og glæsilegu húsnæði Útgerðarfélags Akureyringa. Eitt ár leið frá því ákveðið var að rífa gamla bragga og reisa hið nýja húsnæði, þar til það var tilbúið til notkunar.  „Nýja húsnæðið er mjög góð viðbót við vinnsluna hér. Húsnæðið er hannað til að mæta ýtrustu kröfum fyrir framtíðar fiskvinnslu. Það er hátt til lofts og vítt til veggja.  Í húsinu eru nýjar sjálfvirkar pökkunarlínur fyrir bæði ferskar og frosnar afurðir auk hitastýrðs afgreiðslurýmis sem bættir vörumeðhöndlun til muna. Það er mikið af nýjum tækjabúnaði sem tekur tíma að stilla saman og læra á, en starfsfólkið hefur verið mjög jákvætt og ákveðið í að láta hlutina ganga," segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja.


Þann 20.desember var styrkveitingarathöfn Samherjasjóðsins haldin í nýja húsinu og bæjarbúum var gefinn kostur á að skoða nýju vinnsluna. Við það tilefni sagðist Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja á margan hátt sáttur við árið sem er að líða. „Með þessari nýju byggingu, samhliða breytingum á vinnslunni, förum við í stórum skrefum inn í breytta framtíð þar sem möguleikar okkar til að þjóna viðskiptavinum okkar með fjölbreyttari afurðir eru orðnir mun meiri en áður


Styrkveiting Samherjasjóðs

Þann 20.desember sl. veitti Samherji samtals 82 milljónum króna í styrki til íþróttastarfs og  ýmissa samfélagsverkefna, aðallega á Eyjafjarðarsvæðinu. Einnig var úthlutað fjárstyrkjum til nokkurra einstaklinga sem skara framúr á sínu sérsviði.  Þá var undirritaður styrktarsamningur til 3ja ára við Íþróttasamband fatlaðra. Það var Helga Steinunn Guðmundsdóttir formaður sjóðsins sem afhenti styrkina.
Eins og við fyrri styrkveitingar sjóðsins er gert ráð fyrir að flestum styrkjunum verði ráðstafað til lækkunar þátttökugjalda barna og unglinga og/eða til að lækka kostnað við keppnisferðir þeirra.
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja sagði styrkina frá fyrirtækinu renna til fjölmargra verkefna sem flest byggðust á sjálfboðaliðastarfi og „sem öll miða að því að við getum lifað betra og innihaldsríkara lífi með fjölskyldum okkar hér við Eyjafjörð.“ Hann upplýsti að Samherji hefði nú úthlutað samtals rúmlega 550 milljónum króna frá því fyrirtækið hóf að úthluta íþrótta- og samfélagsstyrkjum árið 2008.

Opið hús hjá ÚA


Samherjafrændur glaðir í dag


Bréf til starfsmanna

Kæru starfsmenn,
Eins og áður hefur komið fram hafði embætti sérstaks saksóknara fellt niður mál tengd okkur eftir mikla rannsókn enda niðurstaða embættisins að ekki væri fótur fyrir kæru Seðlabanka Íslands. Taldi embættið meðal annars að Samherji hefði gætt þess „af kostgæfni“ að skila gjaldeyri til landsins og að ýmsar túlkanir Seðlabankans væru í besta falli „umdeilanlegar“. Samhliða niðurfellingu sendi embætti sérstaks saksóknara afmarkaða þætti til skoðunar hjá skattrannsóknarstjóra.
Það er okkur mikið gleðiefni að tilkynna ykkur að í gær barst Samherja afrit af tilkynningu skattrannsóknarstjóra til embættis sérstaks saksóknara þar sem fram kemur að eftir skoðun á málinu hafi skattrannsóknarstjóri ekki séð ástæðu til nokkurra aðgerða af sinni hálfu.
Þá hefur umboðsmaður Alþingis tekið undir margt af því sem við höfum gagnrýnt varðandi stjórnsýslu Seðlabankans og bankaráð samþykkt að gerð verði óháð úttekt á stjórnsýslu bankans við framkvæmd gjaldeyriseftirlits og gjaldeyrisrannsókna.
Við erum því mjög ánægðir með niðurstöðuna enda er hún í samræmi við það sem við höfum alltaf sagt, að starfsfólk Samherja hafi unnið vel og eftir bestu samvisku þrátt fyrir erfiðar kringumstæður hin síðari ár. Aldrei hefur verið farið jafn nákvæmlega og ítarlega í gegnum starfsemi nokkurs fyrirtækis eins og í þessu máli. Niðurstaðan er að starfsfólk Samherja og dótturfélaga okkar hafa unnið störf sín af trúmennsku og heiðarleika. Er því búið að hreinsa starfsfólk Samherja af ásökunum sem fram komu í kærum Seðlabankans til embættis sérstaks saksóknara.
Ítreka skal að staðfest hefur verið að ávirðingar Seðlabankans hafa verið efnislega rangar og hafa ekkert með gildi laga og reglna að gera. Grundvöllur málsins hefur frá upphafi verið rangur. Aðför Seðlabankans að okkur, félaginu og starfsfólki, verður því ekki kölluð annað en ljót og er bankanum til minnkunar.
Í gegnum þetta mál höfum þétt raðirnar, treyst hvort öðru og haft sigur. Enn og aftur viljum við þakka ykkur kæru starfsmenn fyrir stuðninginn í gegnum þessi hartnær fjögur ár. Það er því ástæða til að gleðjast og að starfsmenn Samherja, hvort sem er á sjó eða landi, geri sér dagamun fljótlega.
Kærar kveðjur,
Þorsteinn Már Baldvinsson
Kristján Vilhelmsson

Fyrirtæki Samherja greiddu 4,14 milljarða í skatt vegna ársins 2014

Samherji hf. og dótturfélög á Íslandi greiddu samtals rúmlega 4.143 milljónir króna til ríkisins vegna síðasta starfsárs. Hæsta greiðslan í formi tekjuskatts nam rúmum 2.649 milljónum króna. Aðrar greiðslur s.s. tryggingagjald og veiðigjald námu samtals 1.494 milljónum króna.
Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda lögaðila vegna tekjuársins 2014 og birt lista yfir hæstu gjaldendur. Þar kemur fram að Samherji hf. er tíundi hæsti greiðandinn og greiddi 2.659 milljónir króna í skatt í fyrra. Inn í þá upphæð er ekki tekið tryggingagjald og önnur gjöld sem félög í eigu Samherja hf. eins og Samherji Ísland ehf., Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og fleiri félög greiða beint til ríkisins.
Þegar álagðar greiðslur þessara fyrirtækja  eru teknar saman nemur upphæðin samtals 4.143 milljónum króna. Eru þá talin með veiðigjöldin sem félögin greiða til ríkisins en þau eru utan samtölu ríkisskattstjóra þar sem álagning þeirra er á hendi Fiskistofu. Samtals greiddu fyrirtækin 904 milljónir króna í veiðigjöld á síðasta ári.
Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir skattgreiðslur félaga Samherja vegna gjaldaársins 2014:
Samherji hf., Samherji Ísland ehf., ÚA ehf., Íslandsbleikja ehf., Ice Fresh Seafood ehf. og fleiri félög.
Tekjuskattur
Tryggingagjald
Samtals veiðigjald
Samtals greiðslur til ríkisins


2.649 millj.
590 millj.
904 millj.
4.143   millj.