Fréttir

Samherji Holding óskar eftir undanþágu frá yfirtökuskyldu í Eimskip

Samherji Holding ehf., systurfélag Samherja, hefur sent fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands erindi þar sem félagið óskar eftir undanþágu frá yfirtökuskyldu eftir að félagið fór yfir mörk 30% eignarhlutar í Eimskip.

Margþættar aðgerðir vegna Covid-19

Þær aðstæður sem nú ríkja vegna Covid-19 eiga sér vart hliðstæðu og hafa á einn eða annan hátt haft áhrif á öll fyrirtæki í íslensku atvinnulífi. Samherji hefur gripið til margþættra aðgerða til að fyrirbyggja smit og innleitt öryggisáætlanir um rétt viðbrögð ef smit kæmi upp meðal starfsmanna.

„Samherji leggur mikla áherslu á að tryggja öryggi allra starfsmanna sem og viðskiptavina sinna en eitt af meginmarkmiðum Samherja er að gera fyrirtækið að öruggum og slysalausum vinnustað. Af þessari ástæðu tókum við mögulega útbreiðslu Covid-19 alvarlega frá fyrsta degi og gripum til sérstakra ráðstafana. Með því vildi Samherji leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja útbreiðslu veirunnar og gera allt til að koma í veg fyrir smit í starfsstöðum fyrirtækisins,“ segir Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.

Öflugt félagslíf hjá Samherja á Dalvík

Fjölskyldudagur Fjörfisks, starfsmannafélags Samherja á Dalvík, fór fram á skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli á dögunum. Um er að ræða árlegan viðburð þar sem sem Fjörfiskur leigir skíðasvæðið í þrjár klukkustundir og félagsmönnum gefst kostur á að mæta með mökum, börnum og barnabörnum.
Þeir sem ekki áttu skíðabúnað fengu hann lánaðan sér að kostnaðarlausu. Að auki var boðið upp á vöfflur og heitt kakó. Að þessu sinni mættu um 80 manns en þetta er í fimmta sinn sem starfsmannafélagið Fjörfiskur heldur fjölskyldudag að vetri til.

Ívið meiri afli þrátt fyrir válynd veður

Þrátt fyrir válynd veður og afar óhagstæð skilyrði til veiða hafa fjögur ísfiskskip í útgerðarflota Samherja veitt meira fyrstu tvo mánuði þessa árs en þau veiddu á sama tímabili í fyrra. Skýrist aukinn afli einkum af því að meira hefur veiðst af þorski og er munurinn 876 tonn milli ára.
Um er að ræða ísfiskskipin Björgúlf EA 312, Björgu EA 7, Kaldbak EA 1 og Björgvin EA 311. Heildarafli skipanna fjögurra fyrstu tvo mánuði ársins var 4.924 tonn sem er 82 tonnum meira en samanlagður heildarafli þeirra í janúar og febrúar 2019.

Engar heimsóknir vegna kórónuveiru

Samherji hefur beint þeim tilmælum til starfsmanna sinna að engar heimsóknir séu leyfðar í starfsstöðvar fyrirtækisins um óákveðinn tíma vegna óvissuástands sem ríkir vegna kórónuveiru, COVID-19.
Þá hefur starfsfólk verið hvatt til þess að draga úr ferðalögum eins og kostur er og sleppa alfarið ferðalögum til skilgreindra áhættusvæða þar sem COVID-19 faraldurinn geisar og smit er talið útbreitt. Er þetta gert í samræmi við tilmæli Embættis landlæknis. Jafnframt hefur Samherji beint þeim tilmælum til starfsmanna að virða fyrirmæli landlæknis um sóttkví ef þeir hafa nýlega verið á skilgreindum áhættusvæðum.

Þungamiðja bleikjuframleiðslu á heimsvísu er í Sandgerði

Samherji fiskeldi er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með um 3.800 tonn árlega en það er tæpur helmingur allrar eldisbleikju sem er framleidd í heiminum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í fróðlegri úttekt um bleikjuvinnslu Samherja í Sandgerði sem birtist í tímaritinu Sóknarfæri.

Samherji leigir Smáey VE

Vegna seinkunar á afhendingu nýs Harðbaks hefur Samherji tekið togarann Smáey VE-444 á leigu næstu tvo mánuðina.
Um er um að ræða 485,6 brúttótonna skuttogara í flokki skipa undir 29 metra lengd en skipið var smíðað af Nordship skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi árið 2007.
Samherji leigir skipið af útgerðarfélaginu Berg-Hugin en togarinn hefur heimahöfn í Vestmanaeyjum. Smáey VE-444 hét lengst af Vestmanney en fékk nýtt nafn um mitt síðasta ár þegar ný Vestmanney kom til landsins.

Minna hefur veiðst í efnahagslögsögunni í vetur en undanfarin ár og skýrist lakari veiði einkum af óhagstæðu veðurfari. Skipti þetta einnig máli þegar tekin var ákvörðun um leigu skipsins.

„Þetta er virkilega gott skip, lipurt og skemmtilegt. Veiðar hafa gengið ágætlega. Við fórum í fyrsta túrinn hinn 19. febrúar. Við höfum landað þrisvar sinnum og í tvö skiptanna var fullfermi,“ segir Hjörtur Valsson skipstjóri á Smáey VE-444. Hjörtur verður skipstjóri á nýjum Harðbak EA3 þegar skipið fer til veiða en það er sem stendur í slipp á Akureyri.

Ríkisútvarpið leiðréttir frétt um Samherja og biðst velvirðingar

Ríkisútvarpið hefur leiðrétt frétt um Samherja sem var flutt í seinni sjónvarpsfréttatíma RÚV hinn 13. febrúar síðastliðinn. Þá hefur Ríkisútvarpið jafnframt beðist velvirðingar á fullyrðingu sem fram kom í fréttinni.

Samherji krefst afsökunarbeiðni og leiðréttingar á meiðandi frétt

Samherji hefur sent erindi til stjórnar Ríkisútvarpsins og útvarpsstjóra vegna fréttar sem var flutt í síðari sjónvarpsfréttatíma RÚV fimmtudaginn 13. febrúar síðastliðinn. Í erindinu krefst Samherji afsökunarbeiðni og leiðréttingar á meiðandi fréttaflutningi.

Ágætu samstarfsmenn

Norska ríkisútvarpið, NRK, greindi frá því í gær að Samherji væri ekki lengur í viðskiptum við norska bankann DNB. Þetta eru gamlar fréttir og hafa því engin áhrif á starfsemi Samherja og tengdra félaga. Þegar Samherji hætti í viðskiptum við DNB undir lok síðasta árs voru bankaviðskiptin færð annað og gekk það hnökralaust fyrir sig. Það skal tekið fram að Samherji hafði engin lánaviðskipti við DNB.
Við höfum haft þá reglu hjá Samherja að við tjáum okkur ekki um samband samstæðunnar við einstaka viðskiptavini. Ég fór hins vegar í viðtöl hjá íslenskum fjölmiðlum í gær þar sem ég útskýrði að þetta væri gömul frétt sem hefði engin áhrif á reksturinn endi ætti Samherji í traustu og góðu sambandi við alla viðskiptabanka sína.