„Langlengsti túrinn á sjómannsferlinum,“ segir Björn Valur Gíslason, skipstjóri á EMERAUDE
Björn Valur Gíslason, skipstjóri á franska frystitogaranum Emeraude, er kominn til Akureyrar í faðm fjölskyldu sinnar eftir 125 daga samfellt á sjó. Þessi óvenjulega langa útivera á sér sínar skýringar og kemur COVID þar mjög við sögu. Túrarnir urðu í raun tveir og báðir óvenjulega langir án þess að áhöfnin færi í land á milli. Björn Valur segir að allt hafi gengið að óskum og mikil eining ríkt um þetta fyrirkomulag meðal áhafnarinnar. Hann hrósar áhöfninni og skipinu í hástert og ekki síður skipulaginu hjá útgerðinni, sem hafi fjölskyldugildi skipverja í hávegum.