Fréttir

Harðbakur kominn heim til Akureyrar

Hinn nýji togari Harðbakur EA 3 kom heim til Akureyrar laugardaginn 9.nóvember sl. Myndirnar tók Þórhallur Jónsson/ Pedrómyndir

Hörður kokkur kveður

Hörður Héðinsson kokkur lauk giftusamlegum ferli sínum um borð í skipum Samherja um miðjan september sl.

Hörður hóf störf hjá Samherja 24. júní 2005 á Akureyrinni EA 110 ( nú Snæfell EA 310) hjá skipstjóranum Guðmundi Frey Guðmundssyni. Árið 2006 fór Hörður yfir á Björgúlf EA 312 (nú Hjalteyrin EA 306) og var þar til ársins 2007 þegar Oddeyrin EA 210 kom. Fylgdi hann Guðmundi Frey um borð í Oddeyrina og var þar til ársins 2017, er hún var seld. Fór hann þá tímabundið um borð í Björgvin EA þar til ný Björg EA 7 var tilbúin. Hörður var í áhöfninni sem sigldi Björgu EA heim frá Tyrklandi og lauk starfsferlinum á því skipi.

Forstjóri Samherja stígur tímabundið til hliðar meðan á rannsókn stendur

Forstjóri og stjórn Samherja hafa komist að samkomulagi um að forstjóri félagsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, stígi tímabundið til hliðar þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.

Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair Group, hefur tekið tímabundið við stöðu forstjóra Samherja. Á komandi dögum mun Björgólfur leggja áherslu á að hitta starfsfólk og helstu hagsmunaaðila.

Yfirstandandi rannsókn, sem er í höndum alþjóðlegu lögmannsstofunnar Wikborg Rein, mun halda áfram og mun Wikborg Rein heyra beint undir stjórn félagsins.

„Hjá Samherja starfa um 850 manns á Íslandi og fjöldi manns erlendis. Við tökum þetta mikilvæga skref til að tryggja sem best hlutleysi rannsóknarinnar. Við viljum stunda heiðarleg viðskipti og leggjum okkur fram um að starfa í samræmi við gildandi lög og reglur”, segir Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja.

Yfirlýsing frá Samherja vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins

Vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins um starfsemi Samherja í Namibíu vill Samherji koma eftirfarandi á framfæri:

„Það voru okkur mikil vonbrigði að komast að því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Samherjafélaganna í Namibíu, virðist hafa tekið þátt í gagnrýniverðum viðskiptaháttum og hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunna að vera ólögmæt,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, eftir þátt Ríkisútvarpsins þar sem margvíslegar ásakanir komu fram á hendur fyrirtækinu.

Jóhannesi Stefánssyni var sagt upp störfum á árinu 2016 eftir að hann misfór með fé og hegðaði sér með óforsvaranlegum hætti. Nú hefur hann viðurkennt að hafa tekið þátt í ólöglegri starfsemi á meðan hann stýrði dótturfélögum Samherja í Namibíu.

Yfirlýsing frá Samherja

Við höfum orðið þess áskynja að fyrrverandi stjórnandi Samherja í Namibíu, Jóhannes Stefánsson, hafi farið til fjölmiðla og lagt fram alvarlegar ásakanir á hendur núverandi og fyrrverandi stjórnendum Samherja. Við tökum þessu mjög alvarlega og höfum ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að framkvæma ítarlega rannsókn á starfseminni í Afríku. Þar til niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir munum við ekki tjá okkur um einstakar ásakanir.


Við höfum sérstaklega óskað eftir að fá að setjast niður með Ríkisútvarpinu og fara yfir upplýsingar sem við teljum skipta máli í tengslum við fyrirhugaða umfjöllun. Þeirri beiðni hefur jafnharðan verið hafnað og hefur Ríkisútvarpið aðeins talið sér fært að ræða við okkur fyrir framan myndavélar. Teljum við þær upplýsingar sem við búum yfir vera með þeim hætti að slíkt væri tillitslaust vegna hagsmuna þeirra einstaklinga sem málið varðar.


„Öll starfsemi Samherja og tengdra félaga var undir ítarlegri rannsókn árum saman án þess að nokkuð athugavert hafi fundist. Var allt okkar bókhald, tölvupóstar og öll önnur gögn skoðuð ítarlega, þar með talið þeirra félaga sem sinntu útgerð við strendur Afríku frá árinu 2007. Við munum ekki nú, frekar en þá, sitja undir röngum og villandi ásökunum frá fyrrverandi starfsmanni sem enn á ný eru matreiddar af sömu aðilum og fjölmiðlum og í Seðlabankamálinu,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.


Það sem við teljum rétt að koma á framfæri á þessum tímapunkti er að þegar við urðum þess áskynja í ársbyrjun 2016 að ekki væri allt með felldu í rekstrinum í Namibíu sendum við fyrrverandi rannsóknarlögreglumann hjá sérstökum saksóknara til Namibíu. Eftir nokkurra mánaða vinnu hans var niðurstaðan að segja umræddum starfsmanni upp störfum án tafar vegna óásættanlegrar framgöngu hans og hegðunar. Mikill tími hefur farið í að ná tökum á rekstrinum en starfsmaðurinn fyrrverandi hefur samhliða, beint og ásamt samstarfsmönnum sínum, krafist hárra fjárhæða frá Samherja.


Samherji hefur lagt sig fram um að vinna í samræmi við lög og reglur sem gilda í þeim löndum sem félagið starfar í. Höfum við í því samhengi unnið náið með stjórnvöldum í Namibíu, bæði með skattyfirvöldum og Seðlabanka Namibíu. Má þar nefna að frá síðari hluta árs 2016 hefur öllum virðisaukaskattskyldum fyrirtækjum í Namibíu verið skylt að fara í gegnum  ítarlega skoðun hjá skattyfirvöldum á tveggja mánaða fresti þar sem allir reikningar eru yfirfarnir. Á það við um okkar félög eins og öll önnur fyrirtæki í Namibíu.


Frá því að við hófum starfsemi í Namibíu hefur legið fyrir að um tímabundinn rekstur sé að ræða. Gerðir voru samningar við ýmsa kvótahafa, allt frá samningum til örfárra mánaða til fimm ára en umræddir samningar eru nú allir útrunnir. Þá hafa namibísk stjórnvöld unnið að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu á undanförnum árum með það fyrir augum að draga úr notkun frystitogara og auka vægi landvinnslu ásamt því að leggja aukna áherslu á að eignarhald og stjórnun sé í höndum innlendra aðila. Í því skyni hefur eitt skip þegar verið selt og viðræður staðið yfir frá byrjun þessa árs um sölu á öðrum rekstri Samherja í Namibíu til þarlendra aðila.


Fyrirspurnir sendist til:


Margrétar Ólafsdóttur, margret@samherji.is


Harðbakur afhentur

Harðbakur EA 3 hinn nýji togari Útgerðarfélags Akureyringa hefur verið afhentur eigendum sínum  í Noregi. Í kjölfarið á uppgjöri við Vard-Aukra skipasmíðastöðina var Íslenski fáninn dreginn að húni og gert er ráð fyrir að skipið sigli af stað til heimahafnar í dag. Áætlað er að siglingin heim taki um þrjá og hálfan sólarhring. Skipstjóri á Harðbak er Hjörtur Valsson og yfirvélstjóri er Friðrik Karlsson.
Slippurinn á Akureyri tekur við skipinu þegar heim er komið og settur verður vinnslubúnaður um borð.  Stefnt er að því að Harðbakur hefji veiðar í byrjun nýs árs.

Traustur rekstur Samherja á árinu 2018

„Samherji skilaði góðri rekstrarniðurstöðu á árinu 2018.  Árið var að sumu leyti sérstakt fyrir okkur. Þetta er fyrsta heila árið sem Samherji gerir ekki út neinn bolfiskfrystitogara frá Íslandi. Félagið hóf rekstur með einum frystitogara og þeir hafa í gegnum tíðina gegnt veigamiklu hlutverki í rekstri okkar þannig að þetta er mikil breyting á fyrirtækinu. Sjófrystingu á uppsjávarfiski lauk einnig á árinu með sölu á Vilhelm Þorsteinssyni EA sem hefur verið eitt fengsælasta skip Íslandssögunnar".

Nýr togari sjósettur í dag

Nýr togari Útgerðarfélags Akureyringa, sem hefur verið í smíðum hjá skipasmíðastöðinni Vard-Aukra í Noregi, var sjósettur í dag.
Samningur um smíðina var undirritaður í lok nóvember árið 2017. Skipið er hannað af Vard samsteypunni í Noregi í samvinnu við eigendur og er eitt af sjö skipum sem fjórar íslenskar útgerðir tóku sig saman um að láta smíða.
Skipin eru 28,95 metra löng og 12 metrar á breidd og eru smíðuð samkvæmt íslenskum reglum og kröfum flokkunarfélagsins  DNV GL.
Nýji togarinn mun hljóta nafnið Harðbakur og fær skrásetningarnúmerið EA 3. Þetta nafn og númer hafa togarar ÚA áður farsællega borið.
Áætluð afhending togarans frá Vard-Aukra er um miðjan október og siglir skipið þá til heimahafnar. Þar tekur Slippurinn Akureyri við því og settur verður um borð vinnslubúnaður, sem þar verður smíðaður. Áætlað er að Harðbakur hefji veiðar í byrjun nýs árs.

Nýja vefsíðan www.icefresh.is opnuð

icefresh_._is


Samherji tekur þátt í Sjávarútvegssýningunni í Brussel eins og undanfarin ár. Við opnun sýningarinnar í morgun var opnuð ný vefsíða Ice Fresh Seafood www.icefresh.is. Vefsíðan er fyrst og fremst hugsuð sem kynningarsíða fyrir afurðir Samherja.


Samherji_a_BrusselSamherjastandurinn er einkar glæsilegur og starfsmenn Samherja og Ice Fresh Seafood hafa nóg að gera við að taka á móti bæði nýjum og gömlum viðskiptavinum sem og velunnurum dagana þrjá sem sýningin stendur yfir.


Seðlabankinn hafnar öllum viðræðum um lok Samherjamálsins

Seðlabankinn hefur nú formlega hafnað beiðni Samherja um sáttafund til að ákvarða bætur og málalok vegna tilhæfulausra aðgerða bankans gegn Samherja sem staðið hafa í rúm sjö ár. Þetta gerir bankinn þrátt fyrir að formaður bankaráðs hafi tjáð Alþingi að hann teldi slíkan sáttafund eðlilegan af hálfu bankans og að umboðsmaður Alþingis hefði auk þess bent á að bankinn ætti að eiga frumkvæði að því að endurgreiða álagða sekt.


Aðgerðir Seðlabanka Íslands gegn Samherja eru fordæmalausar. Bankinn fór í húsleit án þess að hafa rökstuddan grun um brot, upplýsti fjölmiðlamenn um fyrirhugaða húsleit og sendi út fréttatilkynningu um víða veröld þar að lútandi þegar húsleitin var rétt byrjuð. Ekki nóg með að húsleitin byggðist á órökstuddum grun og kolröngum útreikningum sem dómstólar staðfestu seinna að hefðu verið rangir, heldur var seðlabankastjóra á þessum tíma kunnugt um veikan grundvöll gjaldeyrisreglna enda örfáum mánuðum áður búinn að ræða það sérstaklega á blaðamannafundi. Allt kom fyrir ekki, reitt var hátt til höggs og vorið 2013 kærði bankinn Samherja og tengd fyrirtæki fyrir ætluð brot upp á tugi milljarða.


Niðurstaða málsins er sú að Samherji skilaði meiri gjaldeyri til landsins en skylt var og ásakanir um fiskverð byggðust á röngum útreikningum og vitlausri aðferðarfræði. Þá hefur álit umboðsmanns Alþingis og yfirlýsingar seðlabankastjóra í kjölfarið afhjúpað saknæmt og ólögmætt framferði helstu stjórnenda bankans gagnvart Samherja og mér persónulega.


Frá því í ársbyrjun 2017 hefur Samherji reynt að ljúka málinu og boðið Seðlabanka Íslands til viðræðna um að bæta félaginu hluta þess kostnaðar sem hlotist hefur af málinu. Þáverandi bankaráð beindi því til seðlabankastjóra að svara erindinu en bankastjóri hunsaði það.


Á fundi með bankaráði 27. nóvember 2018 ítrekaði ég vilja minn til að ljúka málinu. Fullnægjandi málalyktir af okkar hálfu væru afsökunarbeiðni frá bankanum og bætur upp í útlagðan kostnað. Yrði þá ekki frekar aðhafst af hálfu Samherja.


Allt kom fyrir ekki og þann 15. apríl sl. barst bréf frá lögmanni seðlabankans þar sem beiðni Samherja hf. um viðræðum var hafnað. Á svipuðum tíma barst mér svo bréf þar sem bankinn kvaðst ekki ætla að endurgreiða sekt sem lögð var á mig persónulega eða hlutast til um að hún verði greidd. Þessi tvö bréf eru lýsandi fyrir framkomu stjórnenda seðlabankans. Mál á hendur Samherja og síðar mér persónulega hafa verið rekin áfram á annarlegum sjónarmiðum. 


.........