Fréttir

Bréf til starfsmanna

Ágætu samstarfsmenn.

Í gær hélt Ríkisútvarpið áfram aðför sinni að Samherja með umfjöllun sem var að vanda með nokkrum ólíkindum. Þar voru á víxl endurunnar gamlar fréttir frá Kýpur, dregnir fram á sjónarsviðið endurskoðendur sem settu alls kyns fullyrðingar fram án rökstuðnings og loks var fundinn til nýr Namibíumaður sem enginn innan Samherja hefur heyrt getið fyrr en nú.

Óljósar aðdróttanir Ríkisútvarpsins

Síðastliðinn mánudag barst Samherja fyrirspurn frá fréttamönnum Ríkisútvarpsins vegna fyrirhugaðrar umfjöllunar „um starfsemi og umsvif Samherja á Kýpur“ í þættinum Kveik. Með fylgdi örstutt lýsing á efnistökunum í umræddum þætti, sem til stendur að sýna í kvöld, ásamt ósk um viðtal við forstjóra Samherja og fleiri nafngreinda starfsmenn. Í ljósi þess hvernig Ríkisútvarpið hefur fjallað um mál tengd Samherja í gegnum tíðina, þar sem farið hefur verið afar frjálslega með staðreyndir, upplýsingar slitnar úr samhengi eða beinlínis verið farið með rangt mál gegn betri vitund, var útilokað fyrir Samherja að verða við ósk um viðtal.

Ríkisútvarpið ritskoðar gagnrýni

Ríkisútvarpið hefur ritskoðað gagnrýni á eigin vinnubrögð með því að krefjast þess að Facebook taki niður nýtt myndband, sem Samherji lét framleiða, þar sem fjallað er um fréttamat og vinnubrögð fréttastofu RÚV. Ríkisútvarpið hefur ekki þolað þá hófstilltu gagnrýni sem kom fram í myndbandinu og í skjóli framsækinnar túlkunar á höfundarrétti krafðist stofnunin þess að Facebook tæki myndbandið niður. Varð Facebook við kröfunni í gærkvöldi.

RÚV reiddi hátt til höggs en þagði þegar rannsókn var felld niður

Síðastliðinn föstudag var greint frá því að ríkissaksóknari Noregs hefði fellt niður sakamál sem varðaði ætlað peningaþvætti í viðskiptum norska bankans DNB og félaga sem tengjast Samherja. Rannsóknin hófst eftir að Ríkisútvarpið setti fram ásakanir í þessa veru í nóvember 2019.

Björgólfur lætur af störfum forstjóra

Björgólfur Jóhannsson lætur nú af störfum forstjóra Samherja hf., en því starfi hefur hann gegnt einn frá nóvember 2019 en frá mars 2020 samhliða Þorsteini Má Baldvinssyni. Þorsteinn Már verður nú á ný eini forstjóri félagsins.

Ekkert peningaþvætti í viðskiptum DNB og Samherja

Ríkissaksóknari Noregs hefur fellt niður sakamál sem var til rannsóknar og beindist að norska bankanum DNB vegna viðskipta við félög tengd Samherja. DNB greindi frá þessu í tilkynningu til Kauphallarinnar í Osló í morgun. Rannsóknin varðaði meðal annars ásakanir um peningaþvætti en hún leiddi ekki í ljós neina refsiverða háttsemi sem gæti leitt til ákæru og því var málið fellt niður.

Ótrúleg vinnubrögð saksóknara og dómara

Í úrskurði Landsréttar hinn 28. janúar síðastliðinn gerði rétturinn sérstakar aðfinnslur við að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði samþykkt kröfu héraðssaksóknara um afhendingu gagna um Samherja í vörslum endurskoðunarfyrirtækisins KPMG og heimilað húsleit án þess að nein rannsóknargögn lægju til grundvallar kröfunni. Héraðsdómari tók kröfuna til greina án nokkurra sönnunargagna og greindi ranglega frá því í úrskurði og þingbók að slík gögn hefðu legið frammi við uppkvaðningu úrskurðarins.

Ekkert óvænt í málaferlum í Namibíu

Greint var frá því í morgun að saksóknari hygðist gefa út ákæru á hendur þremur namibískum félögum sem tengjast Samherja í máli sem nú er rekið fyrir dómstólum í Windhoek í Namibíu. Á þriðja tug namibískra ríkisborgara eru sakborningar í málinu en við fyrirtöku í morgun var greint var frá því að saksóknari hefði í hyggju að bæta við ákæru á hendur á þremur namibískum félögum sem tengjast Samherja og stjórnendum þeirra. Samkvæmt namibískum lögum leiðir ákæra á hendur þessum fyrirtækjum sjálfkrafa til þess að stjórnendur þeirra sæta ákæru vegna stöðu sinnar.

Ríkisútvarpið reynir fyrirsát á Kýpur í ferða- og útgöngubanni

Atlaga Ríkisútvarpsins að Samherja, sem hefur staðið yfir með hléum frá árinu 2012, heldur áfram. Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, er nú staddur í borginni Limassol á Kýpur ásamt kvikmyndatökumanni í miðjum heimsfaraldri. Þar hefur hann freistað þess að endurvinna fréttir um mál sem tengjast útgerð í Namibíu og sett sig í samband við núverandi og fyrrverandi stjórnarmenn félaga sem tengjast Samherja.

Þráhyggja fjölmiðils þróast í ofstæki

Tölfræðileg samantekt á umfjöllun Stundarinnar varpar ljósi á alvarlegt ójafnvægi í umfjöllun þar sem fjöldi birtra greina um Samherja er í hróplegu ósamræmi við öll önnur skrif fjölmiðilsins. Á stundum virðist sem tilgangur útgáfunnar sé fyrst og fremst árásir á þetta eina félag. Svo helteknir eru blaðamenn Stundarinnar af Samherja að nú þegar þeir eru orðnir uppiskroppa með umfjöllunarefni hafa þeir sent útsendara sína á Eyjafjarðarsvæðið þar sem þeir hafa dvalið dögum saman og freistað þess að ná fram neikvæðum ummælum Norðlendinga um félagið.